Steinunn Jóhanna Sigfúsdóttir fæddist 24 mars 1967 á Sólvangi í Hafnarfirði og ólst upp á Holtsgötu 5 þar í bæ. Steinunn lést 18. janúar 2024.

Foreldrar Steinunnar eru Sigfús Tómasson, f. 2. ágúst 1944, d. 26 ágúst 2018, og Sigríður Sigursteinsdóttir, f. 8 desember 1946.

Systkini Steinunnar eru Sigurður Tómas, f. 10. maí 1968, Sigfús Ægir, f. 8. september 1970, og Þórir f. 27. janúar 1974.

Steinunn var í sambúð með Björgvini Sigmari Stefánssyni, f. 22. júlí 1970, en þau giftust 22. október 2004. Þau skildu sumarið 2023. Steinunn eignaðist Jökul Steinan, f. 16 ágúst 1988, sem Björgvin gekk í föðurstað. Sonur Jökuls er Orri Olavi. Saman eignuðust þau Stefán Ægi Björgvinsson, f. 19. nóvember 1994. Maki Stefáns er Helga Rut Hauksdóttir, f. 28. nóvember 1996. Börn þeirra eru Íris, f. 11 desember 2015, og Bríet, f. 8 mars 2018. Þá eignuðust Steinunn og Björgvin Sigríði Karen Björgvinsdóttur, f. 9. júní 2000. Maki Eyþór Ingi Eyþórsson, f. 23. september 1997. Börn þeirra eru Eyvin Atli f. 19 mars 2022. og Snorri Elías f. 1 mars 2023.

Steinunn fór ung að heiman til að vinna hin ýmsu störf tengt sjávarútvegi og verslun. Hún starfaði lengi við umönnunarstörf á Landspítalanum Fossvogi og sambýlinu Steinahlíð Hafnarfirði, en lengst af starfaði hún sem stuðningsfulltrúi í Lækjarskóla Hafnarfirði. Það gaf henni mikið að starfa með börnum og sinnti því af alúð. Steinunn stofnaði fyrirtækið Þúsund fjalir ehf. ásamt eiginmanni sínum, sem enn er starfandi í byggingariðnaði. Þá stofnaði Steinunn fyrirtækið Hekla travel ehf. ásamt eiginmanni sínum sem starfrækti íbúðir leigðar til ferðamanna í miðborg Reykjavíkur.

Útför Steinunnar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 2. febrúar 2024, kl. 13.

Nú er hún gengin allra stærsta Steinan. Baráttujaxlinn, orginallinn og fagurkerinn Steinunn Jóhanna, svilkona mín. Glæsileg á velli, alltaf fallega klædd og skreytti sig jafnan svo að öllum sem hittu hana varð starsýnt á. Steinunn var að mörgu leyti ráðgáta, dul um eigin hagi en eftir því sem árin liðu og við kynntumst betur fékk maður smátt og smátt að kynnast þessari sérstöku og einstöku konu. Mér fannst alla tíð hún lifa fremur fyrir aðra og eiga í vanda með að gefa sér tíma fyrir eigin hugðarefni. Þó stóð ekkert í vegi fyrir að hún gerði nákvæmlega það. Hún starfaði lengi sem starfsmaður á spítala og sem skólaliði í Hafnarfirði og eignuðust börnin sem þurftu sérstaka aðstoð í skólanum þar dyggan og trúan bandamann. Steinunn fann til með börnum, virtist þekkja raunir þeirra.

Ég var oft að hvetja hana áfram, reyndi að kveikja í henni áhuga, hvað langar ÞIG að gera Steina? Þú getur allt! Á þeim stundum sá maður augun lýsast upp og hana hugsa örstutt um það, að kannski ætti hún að taka stökkið, en vonarblikið í augunum stóð jafnan stutt. Aðrir lögðu líka að henni, að gera bara það sem hana langaði til því hún var sannarlega í aðstöðu til þess. Allt hefði þessi gáfaða, skemmtilega kona getað gert ef hún hefði ekki bara litið svo á að framganga allra annarra gengi fyrir. Eitthvað hafði sennilega fest í henni snemma að hún hefði ekki hæfileika eða getu til að láta drauma sína rætast. Draumar voru fyrir aðra. Þannig studdi hún til dæmis Stefán Karl sem ungan mann á leið hans inn í leiklistarheiminn. Óþreytandi sat hún með unglingnum, leikaraefninu, spjallaði og gaf honum kaffi fram á rauðanætur og leyfði honum að mala og byggja sínar skýjaborgir við eldhúsborðið á heimili þeirra Björgvins.

Á heimilinu löngu seinna var mér, þá tveggja barna móður, heldur betur tekið opnum örmum og dætur mínar tvær, Bríet og Elín, urðu samstundis aufúsugestir á heimilinu. Elín í fangi Steinu frænku, kúrandi við hálsakot þessarar fallegu, vel lyktandi konu sem lét aldrei börn bíða eftir sér heldur sinnti erindum þeirra umsvifalaust og lét annað bíða. Börn okkar Stefáns sömuleiðis urðu síðar auðvitað velkomnir og heimavanir heimiliskettir hjá þeim hjónum.

Steinunn glímdi hluta ævi sinnar við fíknisjúkdóm og reyndist það bæði henni og fjölskyldunni erfitt. Þjáningin var henni svo samofin, þótt aldrei barmaði hún sér, að ég skildi snemma að hún yrði sennilega aldrei ein af þeim heppnu sem slyppu vel. En eljan og viljinn til betri líðanar var henni í blóð borinn og reyndi hún allt sem hún mátti til að sigrast á fíkninni. Fíknipáfar heimsins eru nú loks að skilja að meira þarf til en að standast freistingar vímunnar, miklu meira þarf til, nú vitum við að leit í deyfingu er örvæntingarfull tilraun fólks til að lækna sig sjálft. Fyrst og fremst þurfa örin á sálinni aðhlynningu ef fólk á að geta náð raunverulegum bata.

Mörg góð og ánægjuleg ár fékk Steinunn þó að lifa þar sem hún gerðist meðal annars svo stórtækur garðyrkjubóndi að manni þótti eiginlega nóg um. Á sumarbústaðarlandi þeirra Björgvins undi hún sér við skógrækt og margar nætur vorum við stöllur flissandi í sumarnóttinni að telja tré ekki í tuga- heldur hundraðavís og linntum ekki látunum fyrr en undir morgun og allt var komið niður. Hún gróðursetti tré fyrir börnin sín og börnin mín og landið nú gjörbreytt frá því sem var fyrst er þau hjónin voru að stíga sín fyrstu spor við skógrækt í Heklubyggð. Nú er það land hinn fegursti minnisvarði um eljusemi og ástríki, griðastaður fjölskyldunnar. Steinunn elskaði að ferðast um heiminn og það gerðu þau hjónin oft og stundum ferðuðumst við saman, Björgvin og Steinunn, Stefán Karl og ég. Góðar minningar.

Steinunn var listræn og smekkvís og heimili hennar voru einstök að öllu leyti. Hún valdi listaverk, muni, húsgögn og húsbúnað af smekkvísi og dirfsku, aldrei apað eftir öðrum, litagleði og ferskleiki í fyrirrúmi. Henni tókst þrátt fyrir takmarkaða handavinnukunnáttu, en það áttum við svo sannarlega sameiginlegt, að búa til í höndunum svo óvanalegar og fallegar flíkur að maður bara gapti. Listfengið ómælt í blóðinu!

Heimilið stóð öllum opið og suma daga gerði Steinunn lítið annað en að brugga kaffi ofan í gesti og gangandi. Alltaf virtist hún hafa tíma til að ræða málin og þegar maður leitaði til hennar þá gaf hún sig alla í það. Steinunn kunni að hlusta, nokkuð sem er á undanhaldi í samskiptum fólks.

Steinunn greindist með flókið brjóstakrabbamein 2015 og ári síðar greindist eiginmaður minn, Stefán Karl, einnig með krabbamein. Þetta unga vel gerða fólk, ástvinir okkar fjölskyldunnar, sviplega bæði í dauðans heljargreipum. Í veikindum Stefáns og allt fram í andlát hans og allar götur síðan stóðu Steinunn og Björgvin með mér sem systkin og létu mig aldrei eina.

Veikindi Steinunnar ágerðust mjög síðustu árin og þurfti hún að gangast undir margar þjáningarfullar krabbameinsmeðferðir og uppskurði. Eilífar langar spítaladvalir, oft hætt komin, en alltaf reis hún upp við dogg og bað brosandi um kaffi með mikilli mjólk og bað um að fá að hitta barnabörnin, helst í gær.

Ekkert skilur maður í því hversu mjög sumir þurfa að kveljast eða hvaða lærdóm við sem á horfum eigum að draga af þessum glímum. Kannski er lærdómurinn sá, að þakka fyrir lífið hvern dag og sýna öllu sem lifir og er eftir fremsta megni kærleika og skilning.

Við Steina áttum innilegar samverustundir við dánarbeð hennar sem ég mun geyma um ókomna tíð. Í nálægð við dauðann segir fólk margt svo djúpviturt og fallegt. Það gefur svo ríkulega af sér að ekki er hægt að hafa það eftir svo fyllilega megi aðrir skilja. Andrúmslofti og tengslum fólks á milli á svona stundum er ekki hægt að lýsa með orðum, því orðin ein og sér vantar fylgdina óútskýranlegu. Orð ná einfaldlega ekki utan um allt hið óséða og það sem við aðeins finnum í líkamanum, sálinni og orkunni fólks á milli. Slíkar ævintýrastundir geymir maður í hjartanu. Slíkar stundir eru lærdómurinn mikli og ef fólk vill vita hvað það er að lifa þá skyldi það ekki forðast nálægðina við dauðann.

Elsku Jökull Steinan, Sigga Karen og Stefán Ægir og krakkagerið ykkar, ykkar missir er mestur því magnaðri konu og duglegri móður og ömmu hef ég varla kynnst. Með sitt ríkulega brjóstvit, gáfur og örlætið endalausa. Ískrandi húmorinn og orðfærið óvanalega. Björgvin, minn besti vinur og bróðir, innilegar samúðarkveðjur og takk fyrir að sýna mér að kærleikurinn er alltaf vegurinn sem fólk ætti að feta þótt skilji það að skiptum. Hvernig þú studdir elsku Steinunni fram í andlátið hefðu ekki margir fráskildir menn leikið eftir og því mun ég aldrei gleyma. Sigríði móður Steinunnar sem syrgir nú dóttur sína og bræðrunum Ægi, Tóta og Tomma sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Í dag kveð ég þessa vinkonu mína sem þurfti að kveðja snemma allt sem henni var kærast. Ég veit að hennar bíður fegurðin og gleðin ein. Þegar Steina var í góðu skapi, sem var nú oft, mátti heyra ærandi og smitandi hlátrasköllin. Það er nú svo að aðeins þeir sem hafa raunverulega þjáðst fá að upplifa hina óumræðanlegu kátínu og það fékk hún elsku sterka vinkonan mín svo sannarlega oft á lífsleiðinni að upplifa.

Steinunn Ólína.