Anna Jóhannsdóttir fæddist á Drangsnesi 14. maí árið 1936. Hún lést 7. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Indíana Jóhannsdóttir, f. 1900, d. 1983, og Jóhann Einar Guðmundsson, f. 1904, d. 1980. Systur Önnu voru: Bryndís Alma Brynjólfsdóttir, f. 1932, d. 2021, Jónína Lilja Jóhannsdóttir, f. 1937, d. 2015, og Elínrós Jóhannsdóttir, f. 1941, d. 1964. Uppeldisbróðir Önnu er Guðbrandur Ingimundarson, f. 1951.

Eiginmaður Önnu var Magnús Sigurðsson, f. 1930, d. 2013. Börn þeirra: 1) Valdís, f. 1954, maki Gunnar Halldórsson, f. 1940. Börn: a) Elínrós, maki Þórður Georg Einarsson, börn þeirra eru tvö og b) Brynjar Einir, unnusta Rakel Ósk Hafsteinsdóttir, börn þeirra eru fjögur og tvö barnabörn. 2) Sigurður, f. 1955, d. 2022, maki Katrín Guðnadóttir, f. 1959. Börn: a) Drífa, unnusti Ragnar Geirdal, börn Drífu eru þrjú og tvö barnabörn, b) Magnús, unnusta Gerður Sif Skúladóttir, börn þeirra eru þrjú, c) Anna Linda, maki Guðni Þorvaldsson, börn þeirra eru fjögur og d) Eyþór Almar, unnusta Guðrún Jóna Árnadóttir, þau eiga eitt barn. 3) Jóhann, f. 1957, maki Sigríður Karlsdóttir, f. 1961. Börn: a) Auðunn, maki Heiða Sólveig Haraldsdóttir, börn þeirra eru fjögur og tvö barnabörn, b) Jóhann Arnar og c) Svavar Berg. 4) Magnús Ragnar, f. 1975, maki Hólmfríður Einarsdóttir. Börn: a) Daníela, unnusti Sævar Elí Kjartansson, b) Mikael Fannar og c) Einar Páll.

Anna og Magnús kynntust fyrir vestan er hún var kaupakona. Lengst af bjuggu þau í Þorlákshöfn þar sem Anna var heimavinnandi húsmóðir og gætti barnabarna sinna. Hún flutti svo á Selfoss árið 2014 eftir að hún varð ekkja og bjó þar á sínu heimili allt til dánardags.

Útför Önnu hefur þegar farið fram í kyrrþey.

Sumarið 1994 átti ég fyrsta símtalið við elsku tengdamömmu, er ég var búin að safna kjarki til þess að hringja í sæta strákinn með smitandi hláturinn sem ég hafði hitt nokkrum sinnum. Hún vissi vel hvað hún var að gera er hún rétti pabba hans símann er ég spurði eftir Magga og heyrði ég hana hlæja á bak við. Frá fyrsta samtali var hún með húmorinn að vopni sem fylgdi okkar sambandi allar götur síðan. Þvílíkur stríðnispúki sem hún gat verið. En hún gat líka tekið stríðni, ólíkt mörgum sem stríðnir eru og var einstaklega gaman að atast í henni því hún var svo léttlynd og kát.

Ég hlaut vinninginn í tengdamömmulottóinu. Hún reyndist mér svo vel sem og börnunum okkar, var alltaf tilbúin að rétta fram hjálparhönd, hvort sem var með börnin, dýrin eða annað, bara hvað sem var, alltaf boðin og búin.

Svo gerði hún svo margt gott, ég elskaði t.d. heimalöguðu hamborgarana hennar og ofnbökuðu frönskurnar sem hún bauð okkur svo oft upp á á föstudagskvöldum þegar við vorum enn ung og barnlaus.

Er við vorum að vinna í fiskinum í Höfninni þá var hún alltaf tilbúin með matinn fyrir okkur er við komum í hádegismat svo við gætum örugglega hvílt okkur eftir matinn. Friðurinn og róin var svo mikil á heimilinu að ég sofnaði alltaf er við komum í heimsókn og hún hafði svo gaman af því, var alltaf hlæjandi þegar ég rankaði við mér.

Hún gerði heimsins bestu brauðtertur og pönnukökur. Ég elskaði líka berjakökuna hennar og ávaxtaeftirréttinn. Hún var svo myndarleg, þrifin, iðin og skipulögð. Var með allt sitt á hreinu, sama hvort það voru fjármálin, lyfin hennar, heimilishaldið eða annað. Var stálminnug, með ofurheyrn og alveg með á nótunum. Alveg fram á síðasta dag sá hún um og þreif sjálf heimilið sitt þrátt fyrir að fá heimilishjálp undir það allra síðasta, því hún var alltaf búin að þrífa áður en heimilishjálpin kom. Hún gat bara ekki hugsað sér að það væri ryk eða drasl á heimilinu. Ég þekki t.d. engan annan en tengdamömmu sem þurrkar af í bílskúrnum sínum.

Við tengdum mjög vel í spjalli um andleg málefni, enda var hún mjög næm og fann á sér og sá meira en við vissum og eru mörg tilfelli þar sem ég upplifði það.

Á milli foreldra minna og tengdamömmu var afar fallegt samband. Hún kom alltaf með okkur er þau buðu í mat og kom ekkert annað til greina af þeirra hálfu, hvort sem um var að ræða mat heima hjá þeim eða okkur og hvort sem um var að ræða grillkjöt, fisk eða pítsuveislu. Hún vildi svo bjóða í kaffi og „með því“ og gerði það eins lengi og hún gat og var alltaf um semi-fermingarveislu að ræða.

Já hún reyndist mér svo vel og var alltaf skemmtilega hreinskilin við mig. Hún lét mig t.d. alltaf vita ef ég hafði bætt á mig, en tókst á sinn einstaka hátt að segja mér það með húmorinn að vopni svo ég upplifði það aldrei illa og aldrei særandi, þetta voru bara staðreyndir. Hún kom fram við mig eins og dóttur og ég vona að hún hafi upplifað það sama frá mér, að ég hafi verið henni sem dóttir.

Blessuð sé minning þín og takk fyrir allt þangað til síðar, þín

Hólmfríður.