Gunnar Már Pétursson fæddist í Reykjavík 1. október 1939. Hann lést eftir stutt veikindi á LSH 18. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Pétur Ottesen Ámundason bifreiðarstjóri og Jóhanna Einarsdóttir. Eftirlifandi systur Gunnars eru Fanney Edda og Þóra.

Gunnar Már giftist Eniku Huldu Kristjánsdóttur 28.8. 1982. Enika hafði áður eignast þrjú börn, þau Ingvar Hannes, Ásthildi og Kristján Þór. Ásthildur lést 18.11. 1975, en 19 dögum fyrr, eða 30. október, fæddi hún Ásthildi Lindu dóttur sína. Gunnar Már og Enika ólu Ásthildi Lindu upp og kallaði hún þau mömmu og pabba. Ingvar Hannes bjó hjá þeim um tíma en býr nú í Hátúni í Reykjavík og er kærasta hans Helga Kristín. Kristján Þór giftist Örnu Ósk og eignuðust þau tvö börn, þau Pétur Má og Karenu Rós sem lést 2018. Karen Rós eignaðist Rakel Evu árið 2014.

Gunnar Már vann næstum allan sinn starfsaldur hjá Skeljungi við ýmis störf. Hann var heiðursfélagi í Fornbílaklúbbnum og félagi í Krúsernum og hafði alla tíð mikinn áhuga á bílum.

Útför Gunnars fór fram 25. janúar 2024 frá Guðríðarkirkju.

Djúp sorg skók hjarta mitt, þegar ég fékk fréttina um andlát vinar míns og mágs, Gunnars Péturssonar. Efst í huga mér er þakklæti. Þakklæti fyrir að hafa eignast þennan góða einlæga vin, minninguna um hann mun ég eiga, svo lengi sem ég lifi. Ég dáði hann fyrir svo margt og þá ekki síst, hvað hann var alltaf heill og einlægur í öllu.

Hjá Guði færð þú allt. Hvíl í friði, vinur minn.

Björgvin Kristjánsson.