Ægir Snædal Jónsson var fæddur í Reykjavík 19. maí 1955. Hann lést 27. nóvember 2023 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum.

Foreldrar hans voru Jón Evert Sigurvinsson, f. 26. september 1915, d. 16. apríl 1969, og Helga Steinun Hansen Guðmundsdóttir, f. 21. mars 1916, d. 1. ágúst 1987. Alsystkini hans eru Logi Snædal Jónsson, f. 21. júlí 1948, d. 15. október 1996, Ruth Snædal Jónsdóttir, f. 31. mars 1950, Hlynberg Snædal Jónsson, f. 25. nóvember 1951, Guðmundur Snædal Jónsson, f. 11. mars 1958. Samfeðra systkini Stefán Gunnar Jónsson, f. 5. nóvember 1934, d. 3. maí 2011, Kristín Elsa Jónsdóttir, f. 6. júní 1936, d. 4. júlí 2008, Kristján Eðvald Jónsson, f. 1. október 1937, d. 17. júní 2008, Sóley Jónsdóttir, f. 24. ágúst 1941, Sigurbjörg Salla Jónsdóttir, f. 23. janúar 1943. Sammæðra systkini Gunnar Marinó Hansen, f. 28. janúar 1935, d. 13. júní 1993, Hrafn Hansen, f. 26. nóvember 1941, d. 16. mars 1972, Guðrún Alísa Hansen, f. 28. júlí 1944, d. 27. desember 2010.

Útförin fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Vinur minn og samstarfsmaður til rúmlega tíu ára Ægir Snædal Jónsson lést þann 27.11. í Vestmannaeyjum.

Ægir ólst upp í Reykjavík og var í sveit í Dölunum á sumrin.

Okkar leiðir lágu saman upp úr 2000 þegar ég var að leita að matreiðslumanni eða ráðskonu til að elda góðan íslenskan heimilismat handa erlendum ferðamönnum. Það kom á daginn að hann var fullkomlega rétti maðurinn í þetta og átti eftir að hafa varanleg áhrif á matargerð hér á bænum. Hann hafði talsvert unnið sem aðstoðarmaður á veitingahúsum og vissi vel hvernig hlutirnir eiga að ganga fyrir sig þar. Einnig hafði móðir hans rekið greiðasölu þegar hann var unglingur og hafði hann oft hjálpað til hjá henni og lært margt.

Ægir þótt fróður og skemmtilegur, undi sér vel í sveitinni, lynti vel við alla, sama hvort þar áttu í hlut ungar erlendar stúlkur sem hér voru að vinna eða rosknir kallar úr sveitinni. Áður en hann kom til okkar hafði hann unnið á bar í miðbæ Reykjavíkur í hartnær tíu ár. Hann var einnig tvo vetur hér á Brekkulæk og oftar en einu sinni aleinn í tvær vikur í senn að passa húsið og hundana og fórst það vel úr hendi. Hann var vinmargur og duglegur að hringja í fólk. Hringdi í hverjum mánuði í Krissu Ben. og Birnu Þórðar og vissi þá á eftir um allt sem var að gerast í menningunni og í pólitíkinni.

Bakkus vinur hans hafði lengi verið honum óþægur ljár í þúfu og í lokin samdi starfsfólkinu ekki jafn vel við hann og í upphafi, samstarfið gekk ekki upp, hann fór en við héldum alltaf sambandi, töluðumst við í síma í hverjum mánuði. Honum virtist líða vel í Eyjum, þar átti hann mörg skyldmenni sem studdu hann og félagsmálayfirvöld sinntu honum vel. En heilsunni hrakaði.

Ég kveð hér í hinsta sinn minn gamla vin og samstarfsmann.

Claudia, Pálína og ég sendum aðstandendum samúðarkveðjur.

Arinbjörn, Brekkulæk.