Áætlað er að beinn kostnaður íslenska ríkisins vegna móttöku flóttamanna muni nema 16 milljörðum á þessu ári og að sama verði uppi á teningnum á næsta ári. Þetta segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ráðherra félags- og vinnumarkaðsmála, í viðtali í Spursmálum sem nú er aðgengilegt á mbl.is.
Hann segist opinn fyrir því að skoða hvaða ákvæði megi færa til samræmis við það sem gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndum þegar kemur að móttöku flóttamanna. Þetta upplýsir hann þegar hann spurður er út í hvað valdi því að straumur fólks í leit að alþjóðlegri vernd er hlutfallslega margfaldur hingað til lands miðað við hin ríki Norðurlanda. Í þættinum var m.a. farið yfir að jafn margar umsóknir bárust frá Palestínumönnum um alþjóðlega vernd hér á landi á árinu 2023 og í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi samanlagt yfir sama tímabil.
„Þegar ég spyr dómsmálaráðuneytið, af því að þetta er það sem heyrir undir þau, löggjöfin um verndarkerfið, vilja þau meina að hluti ástæðunnar sé að kerfið hérna sé opnara en í hinum Norðurlandaríkjunum og að þess vegna sæki fleira fólk hingað,“ segir hann.
Þegar hann er spurður út í það hvað valdi því að Íslendingar hafi kerfið opnara en aðrar nágrannaþjóðir okkar og hvort það sé vegna þess að innviðir hér geti borið meiri fjölda fólks sem hingað kemur af þessum sökum segir Guðmundur svo ekki vera.
„Nei, það held ég ekki, enda hef ég lýst því hér að við erum ekki að standa okkur nógu vel þegar kemur að því að taka á móti innflytjendum, þar með talið hælisleitendum. Hins vegar verður dómsmálaráðuneytið að svara fyrir það og dómsmálaráðherrann að svara fyrir þá löggjöf sem heyrir undir það ráðuneyti.“
Telur þú að það þurfi að þrengja skráargatið í þessum efnum, svo að
við skerum okkur ekki úr í þessum efnum?
„Ég held að það sé ástæða til að skoða það að löggjöfin sé svipuð hér og á hinum Norðurlöndunum. Þá er ég ekki aðeins að tala um löggjöfina sem snýr að verndarkerfinu. Ég er líka að tala um löggjöfina sem snýr að innflytjendamálum. við erum með lög
um málefni innflytjenda en ekki eins og hin Norðurlandaríkin sem eru með löggjöf um inngildingu eða móttöku fólks.“