Ásta Jónína Sveinbjörnsdóttir fæddist í Sælandi á Dalvík 27. nóvember 1934. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 27. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Jón Sveinbjörn Vigfússon, vélstjóri og bátsformaður, f. 6.11. 1903, d. 1.5. 1959, og Sigurlaug Sölvadóttir húsmóðir, f. 7..3 1906, d. 10.12. 1987. Systkini Ástu: Sverrir, látinn, Vigfús, látinn, Jónína Hólmfríður, lést barn, og Birna, f. 29.9. 1942.

Eiginmaður Ástu var Gunnar Þór Jóhannsson skipstjóri, f. 2.12. 1926, d. 7.11. 1987. Börn þeirra: 1) Valgerður skólameistari, f. 17.7. 1955. Maki Örlygur Hnefill Jónsson lögmaður, f. 28.8. 1953. Börn: a) Emilía Ásta, maki Ómar Örn Hauksson, börn þeirra Garpur Hnefill, Úlfur Hnefill, Valva Nótt, Embla Sól og Stormur Hnefill. b) Örlygur Hnefill, maki Jóhanna Ásdís Baldursdóttir, börn þeirra Aníta Breiðfjörð, Ylfa Breiðfjörð og Atlas Máni. c) Gunnar Hnefill. 2) Jóhann skipstjóri, f. 16.6. 1958. Maki María Steinsdóttir, f. 14.2. 1966. Börn: a) Décio, maki Hulda Ingvarsdóttir, synir þeirra Mikael Myrkvi og Viktor Valur. b) Sara Mist, maki Stefán Árnason, synir þeirra Alexander Máni og Adrían Máni. c) Lara Mist. 3) Hulda Sveinbjörg hjúkrunarfræðingur, f. 3.5. 1961. Maki Gestur Traustason viðskiptafræðingur, f. 5.11. 1964. Synir þeirra Trausti Þór og Gestur Þór. Hulda átti Gunnar Þór sem lést 2023, fyrrv. maki Thelma Ásgeirsdóttir, börn þeirra Linda, Almar Leó og Logi Mikael. Dætur Gests: a) Ásdís, maki Andri Snæbjörnsson, synir þeirra Víðar og Snæbjörn. b) Ásrún, maki Klas Rask, börn þeirra Anna Viola og Johann Jörundur. Fyrir átti Ásrún Ýr Heimi Sigurpál. 4) Gunnar stýrimaður, f. 7.5. 1962, d. 12.12. 2012. 5) Edda hjúkrunarfræðingur, f. 4.2. 1965. Maki Örn Smárason stöðvarstjóri, f. 5.10. 1967. Dætur þeirra Ásta Jónína og Auður Alexandra.

Ásta var einn vetur í Héraðsskólanum á Laugum, lauk gagnfræðaprófi vorið 1951. Veturinn 1952-1953 var hún í Húsmæðraskólanum á Laugalandi. Hún vann ýmsa skrifstofuvinnu uns hún og Gunnar maður hennar stofnuðu sitt heimili, sem hún helgaði sig þar til börnin fimm voru komin vel á legg. Eitt sumar var hún á síld með Gunnari manni sínum á Sæfaxa NK sem kokkur. Á þessum tíma byggðu þau einbýlishús sitt, Bárugötu 7 á Dalvík, þar sem fjölskyldan bjó frá 1960. Hún vann í frystihúsi á Dalvík í nokkur ár. Síðar vann hún á Dalbæ á Dalvík við umönnun vistmanna og einn vetur vann hún á Droplaugarstöðum í Reykjavík.

Helstu áhugamál Ástu voru bóklestur, ferðalög, steinasöfnun og blómarækt og ekki síst afkomendurnir og fjölskyldur þeirra, sem hún bað fyrir á hverju kvöldi. Hún las alla tíð mikið, bókmenntir jafnt sem ýmsan fróðleik. Hún hafði yndi af að ráða krossgátur og fékkst við að setja saman ljóð. Þegar sjónin dapraðist hlustaði hún á hljóðbækur og var stórnotandi hjá Hljóðbókasafninu.

Hún verður jarðsungin frá Dalvíkurkirkju í dag, 3. febrúar 2024, klukkan 13.

Nú er mamma komin á vit nýrra ævintýra og farin að hitta Gunnana sína þrjá sem voru henni svo kærir. Ég veit að hún mun njóta góðra stunda með þeim, en ég á eftir að sakna hennar mjög mikið. Hláturinn, húmorinn og gæðin sem streymdu frá henni. Hún vildi allaf vera til taks fyrir okkur systkinin og var alltaf að gefa frá sér bæði andlega og veraldlega. Dætrum mínum fannst gott að geta leitað til hennar með ýmis leyndarmál og gaf hún þeim góð ráð og kryddaði síðan aðeins með sögum af sjálfri sér.

Mamma elskaði að ferðast um landið og fórum við oft saman í styttri ferðalög um landið, bæði í nágrenni Dalvíkur og Reykjavíkur. Mamma var mikil félagsvera og í lok júlí var haldið fjölskyldumót í Stekkjó og svaf hún í hjólhýsinu hjá Huldu og Gesti. Hún hafði mikla ánægju af því að fylgjast með afkomendum sínum leika sér og borða góðan mat úti í fallegu umhverfinu í Stekkjó. Henni leið vel vafin inn í teppi við varðeldinn sem Gunni tendraði.

Á síðasta Fiskideginum mikla naut hún þess að koma í Bárugötugrillið og hitta fólkið sitt úr Bárugötunni. Hún hreinlega geislaði af hamingju og gleði. Á 89 ára afmælisdeginum hennar þann 27. nóvember bauð hún börnum og tengdabörnum til veislu á Dalbæ þar sem starfsfólkið dekraði við okkur og var það mjög góð stund.

Síðasta ferðalagið hennar var til Reykjavíkur um síðustu jól, þar sem við dætur hennar og fjölskyldur vorum. Hún kom á Þorláksmessu og naut þess að halda jólin og áramótin hjá mér og fjölskyldunni, ásamt því að fara í heimsóknir til Huldu og Völlu. Hún veiktist af lungnabólgu stuttu eftir jólin, en lét það þó ekki aftra sér og reif sig upp til að njóta lífsins um áramótin með fjölskyldunni. Eftir áramótin vildi hún fara í Kringluna í verslunarferð og þar keypti hún sér ekki bara eina skó heldur tvenna og var þvílíkt hamingjusöm með skóna. Á eftir skelltum við okkur á kaffihús og horfðum á mannlífið.

Því miður var þetta síðasta ferðin hennar til okkar. Hún fór heim á Dalbæ, en illa gekk að losna við lungnabólguna. Eftir tæplega mánaðar veikindi vildi hún leita sér lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, því hún ætlaði sér að verða níræð. Ég heyrði í henni nokkrum sinnum í síma, þegar hún lá þar og var hún fullviss um að hún myndi hressast og koma heim aftur. Því miður hafði hún ekki árangur af því erfiði. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri þann 27. janúar. Við kveðjum hana með sorg í hjarta, því mamma var einfaldlega best.

Edda Gunnarsdóttir.

Það er sól og sumar, mamma situr uppi á eldhúsbekknum með kaffiglasið sitt og horfir út um gluggann, dökkt hárið liðað og loftmikið og myndar umgjörð um fallegt, ungt andlitið. Ekki skrítið að pabbi hafi orðið svo ástfanginn af henni að hann lagði allt í sölurnar til að ná henni sem sinni konu. Og hún var hans happafengur.

Þau sitja í sófanum í stofunni, hún í fanginu á honum og reglulega kyssast þau, bæði glöð yfir að hann sé heima um stund, það skín sól inn um stofugluggann og fallega heimilið sem þau hafa byggt upp saman fyrir sig og börnin sín ljómar í sólinni, blómin breiða úr blöðum sínum og hawaiirósin angar. Svo heldur hann aftur til hafs.

Síminn hringir, hann er að fara í siglingu til Bretlands með aflann og vill að hún komi með. Amma í Sælandi kemur og tekur við börnum og búi og hún siglir með honum á vit ævintýra í útlandinu. Brosandi börnin fagna þeim við heimkomu, spennt yfir góssinu sem þau færa heim. Það var gott að vera barn ástfanginna foreldra.

Hún þarf að ganga frá erindi í gegnum síma: „Já, þetta er Ásta hérna í Bárugötunni,“ og svo kemur erindið og það hvarflar að okkur sem hlustum hvort allir þekki mömmu. Það er líka gott að vera barn sjálfstæðrar konu, sem gengur óhikað til verks og miklar ekkert fyrir sér. Sem stendur sig sama hvað.

Í svefnherberginu er snyrtiborð með stórum spegli og hliðarspeglum, en hún hefur mjög sjaldan tíma til að sitja við það, enda börnin orðin fimm og mikilvægara að sitja við prjónavélina eða saumavélina, en það er reyndar komin sjálfvirk þvottavél í húsið. Það er gott að eiga móður sem hugsar fyrst um börnin sín.

Frumburðurinn vill fá að koma heim með kettling, hún segir þvert nei, kettlingurinn kemur samt og enginn elskar hann meir en hún.

Það er sunnudagsmorgunn, sólin skín og úr útvarpinu hljómar messusöngur, hún er að steikja kótilettur og brúna kartöflur og í ísskápnum er besti ís í heimi, sem hún bjó til kvöldinu áður, meðan danslögin dunuðu í þessu sama útvarpi. Það er munur að eiga móður sem er afbragðskokkur og gerir alltaf góðan mat.

Inn um svefnherbergisgluggann berst hlátur og skríkir í börnum sem leika sér í snjónum. Uppi í rúmi kúra hún og frumburðurinn, hvort með sína bók og sunnudagssólin lýsir upp herbergið, þar sem þær maula á brjóstsykri og njóta þessa sameiginlega áhugamáls, að lesa og hverfa inn í heim skáldsögunnar. Áratugum seinna bera þær enn saman bækur sínar.

Elsku hjartans mamma mín, mikið óskaplega sakna ég þín, lífsgleði þinnar og ótæmandi áhuga þíns á öllum þínum afkomendum. Ástar, væntumþykju og umhyggju fyrir hverju og einu okkar, sem þú baðst fyrir á hverju kvöldi.

Ég sakna kvöldsímtalanna okkar, sem voru mér svo mikilvæg, sakna ferðalaga okkar saman um Íslendingabók þar sem við könnuðum lendur forfeðranna, ræddum liðið fólk. Um hið daglega líf og fregnir af þínu fólki. Um bækurnar sem við vorum að lesa. Um pólitík og heimsviðburði. Þú varst mér mikilvæg fyrirmynd og ég á þér margt að þakka.

Valgerður Gunnarsdóttir.