Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, segir að Vegagerðin verði að svara því af hverju áætlanir um kostnað við gerð brúar yfir Fossvog hafi rokið upp á síðustu mánuðu og misserum. „Fossvogsbrúin hefur verið í aðalskipulagi Kópavogs…

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, segir að Vegagerðin verði að svara því af hverju áætlanir um kostnað við gerð brúar yfir Fossvog hafi rokið upp á síðustu mánuðu og misserum.

„Fossvogsbrúin hefur verið í aðalskipulagi Kópavogs síðan 2013 og hefur byggð verið skipulögð á Kársnesi miðað við að brúin rísi. Fossvogsbrú er mikilvæg samgöngubót fyrir allt höfuðborgarsvæðið og býr til nýja tengingu við stærstu vinnustaði landsins. Það yrði því forsendubrestur ef Fossvogsbrúin yrði ekki að veruleika. Það er alveg ljóst að við verðum að fá svör frá Vegagerðinni um af hverju áætlanir hafa ekki staðist. Það á við um þetta verkefni og önnur verkefni sem tilheyra samgöngusáttmálanum,” segir Ásdís um þær miklu kostnaðarhækkanir sem kynntar voru á smíði Fossvogsbrúarinnar í vikunni. Brúin verður á milli Kársness í Kópavogi og Nauthólsvíkur og er innan fyrsta hluta borgarlínuverkefnisins.

Heildarkostnaðurinn er nú metinn á 8,8 milljarða króna en var 7,5 milljarðar króna í september síðastliðnum. Í fyrstu var áætlaður kostnaður við brúna sjálfa 2,25 milljarðar en er nú 6,7 milljarðar.

Áætlanir endurskoðaðar

Ásdís segir að fullt tilefni sé til að kanna af hverju kostnaðurinn hafi aukist svona mikið. „Ég hef meðal annars fengið þau svör að landfyllingin og framkvæmdir þeim tengdar séu dýrari en aðrar hefðbundnar brýr. Þá verður bara að segjast að tónninn hafi verið sleginn á síðasta kjörtímabili þegar ákveðið var að fara í hönnunarsamkeppni sem var fyrir mína tíð.“

Ásdís getur þess að hún hafi bent á það þegar hún settist í stól bæjarstjóra að áætlanir varðandi samgöngusáttmálann væru verulega vanáætlaðar og fara þyrfti í endurskoðun. „Mikilvægt er að við áttum okkur á stærð verkefnisins og vinnum við raunhæfar áætlanir. Sú vinna er nú í gangi,“ segir Ásdís, sem kveðst aðspurð telja að von sé á niðurstöðu frá starfshópi á næstunni.

Hún leggur áherslu á að Fossvogsbrúin verði gríðarleg samgöngubót fyrir íbúa Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Nauðsynlegt er að hennar mati að ráðast í framkvæmdir sem stuðla að því að liðka fyrir umferð á höfuðborgarsvæðinu. „Stór hluti framkvæmda tengdra Samgöngusáttmálanum er stofnvegaframkvæmdir en lítið hefur verið framkvæmt á höfuðborgarsvæðinu svo árum skiptir. Umferðarþunginn sem höfuðborgarbúar upplifa daglega endurspeglar mikilvægi þess að eitthvað verði gert til að liðka fyrir umferð. Borgarlínan er auðvitað hluti af samgöngusáttmálanum. Auðvitað er rétt að skoða hvort hægt er að fara skynsamlegri leið sem dregur úr kostnaði en efla á sama tíma gæði þjónustunnar með aukinni tíðni þannig að almenningssamgöngur verði raunhæfari valkostur fyrir fleiri. Ég hef enn ekki séð tillögur þess efnis sem uppfylla alla þessa þætti.“

Bæjarstjórinn segir að stóra verkefnið sé þó að ná samkomulagi við ríkið um það hvernig eigi að haga rekstri borgarlínunnar. Við blasi að sveitarfélögin hafi ekki fjárhagslega burði til að reka hágæða almenningssamgöngur án aðkomu ríkisins líkt og tíðkist erlendis. „Það hefur verið ljóst frá upphafi að við í Kópavogi getum ekki haldið áfram með borgarlínuverkefnið nema ríkið komi með einhverjum hætti inn í reksturinn.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon