Skák
Helgi Ólafsson
helol@simnet.is
Fyrir lokaumferðina á stórmótinu í Wijk aan Zee áttu fimm keppendur góða möguleika á því að ná efsta sæti og svo fór að lokum að fjórir þessara unnu skák sína í lokaumferðinni, hlutu allir 8½ vinning en lokastaðan varð þessi: 1.-4. Wei, Gukesh, Abdusattorov og Giri 8½ v. 5.-7. Vidit, Firouzja og Praggnanandhaa 7½ v. 8. Nepomniachchi 6½ v. 9. Ding 6 v. 10.-13. Van Foreest, Magsoodloo, Donchenko og Ju 4½ v. 14. Warmerdam 4 v.
Hin síðari ár hefur hollenski mótshaldarinn haldið aukakeppni um sigurvegaratitilinn verði fleiri en einn efstir í fyrsta sæti og svo fór að kínverski stórmeistarinn Wei Yi varð hlutskarpastur með því að vinna bæði útsláttareinvígi sín, fyrst Abdusattorov 1½:½ og svo Gukesh með sömu tölum.
Wei var um skeið talinn mesta efni Kínverja og líklegur til að ná heimsmeistaratitlinum en hann hvarf af stjörnuhimninum á Covid-tímanum og endurkoman er glæsileg.
Stíll þessa unga manns, sem kom hingað til lands veturinn 2013, hefur lítið breyst. Hann er sókndjarfur og taktískur með afbrigðum. Í lokaumferðinni varð hann að vinna Indverjann Vidit til að ná efsta sætinu. Fyrir skákina beið hans erfitt verkefni – að freista þess að finna vopn sem biti. Það gat ekki verið einfalt, því að Indverjinn er þekktur byrjanasérfræðingur. Wei valdi uppbyggingu sem sést oft í tengslum við hið svonefnda London-afbrigði. Skákin fór rólega af stað en þegar hrókur Wei stillti sér upp á h-línunni jókst sóknarkraftur hvíts skyndilega:
WAZ 2024; 13. umferð:
Yi Wei – Santosh Vidit
Drottningarpeðsleikur
1. d4 d5 2. Rf3 Rf6 3. e3 c5 4. c3 e6 5. Bd3 Rbd7 6. Rbd2 Bd6 7. O-O O-O 8. He1 Dc7 9. e4 cxd4 10. cxd4 dxe4 11. Rxe4 b6 12. Bg5 Rxe4?
Hann mátti ekki hleypa hróknum í leikinn. Mun betra var 12. … Be7.
13. Hxe4 Bb7 14. Hc1 Db8 15. Hh4!
Í áþekkum stöðum með staka peðinu á d4 er almennt talið varasamt að hleypa hróknum yfir á kóngsvænginn. Leikurinn er eiginlega bráðdrepandi, því svartur neyðist til að leika f-peðinu, sem skapar veikleika á e6.
15. … f5 16. Bc4 De8 17. Db3 Kh8 18. He1
Áður en hvítur hirðir e-peðið bætir hann stöðu mannanna.
18. … Be4 19. Bxe6 Dg6 20. Bd2 Rf6 21. Rg5 f4
¶22. Hxh7+! Rxh7 23. Rxe4 f3 24. g3 Be7 25. d5!
Þó að hvítur eigi tvö peð fyrir skiptamun skiptir meira máli að hrókar svarts komast hvorki lönd né strönd.
25. … Had8 26. Da4 a5 27. Dc6 Bb4 28. Bxb4 axb4 29. h4 Ha8 30. Rd6!
Til að svara 30. … Hxa2 með 31. Rf7+! Hxf7 32. De8+ og vinnur.
30. … Ha7 31. Dxb6 Hxa2 32. Dc7 Rf6 33. Rf7+ Kh7 34. Re5 Dh6 35. Dc2+ g6
¶36. Rxg6!
Gerir út um taflið, 36. … Dxg6 er svarað með 37. Bf5 og drottningin fellur.
36. … Hfa8 37. Re5+ Kg7 38. Dc7+
- og svartur gafst upp,.
Gauti Páll og Dagur efstir á Skákþingi Reykjavíkur
Flest bendir til þess að Gauti Páll Jónsson eða Dagur Ragnarsson standi uppi sem sigurvegari á Skákþingi Reykjavíkur en á morgun, sunnudag, fer fram níunda og síðasta umferð mótsins. Í áttundu umferð sem fram fór sl. miðvikudag unnu báðir sínar skák, Gauti Páll vann Ingvar Wu Skarphéðinsson og Dagur vann Hilmi Frey Heimisson. Þeir eru báðir með 7 vinninga af átta mögulegum en í næstu sætum koma Jóhann Ingvason og Björn Hólm Birkisson með 6 vinninga.