„Heimurinn opnaðist aftur fyrir mér við það að fá sjónina. Þó að þetta sé ekki fullkomin lausn, því ég hef ekki fengið hundrað prósenta sjón, gefur þetta mér nýtt líf og möguleika,“ segir Kristján Ernir Björgvinsson við Morgunblaðið, en hann er fyrstur Íslendinga til að fá svonefndar torískar scleral-linsur.
Kristján er með hornhimnusjúkdóminn keratoconus og hefur af þeim ástæðum verið lögblindur undanfarin sex ár. Fékk hann skæða útgáfu af sjúkdómnum. Hann segir linsurnar hafa breytt miklu.
„Að sjá andlitið á mömmu aftur skýrt var yndislegt, að sjá hana brosa. Að geta horft í augun á kærustunni, sjá dýptina í því. Mér fannst líka ótrúlega skrítið að sjá aftur augun í mínu andliti þegar ég leit í spegil.“ » 12