— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þegar íslenski utanríkisráðherrann ákvað, eins og margir aðrir vestrænir leiðtogar, að setja greiðslur til starfsmanna UNRWA, stofnunar Sameinuðu þjóðanna, í bið á meðan framferði þeirra yrði skoðað urðu uppi hróp á íslenska þinginu. Og var það þó ekkert smáræðis framferði.

Þegar íslenski utanríkisráðherrann ákvað, eins og margir aðrir vestrænir leiðtogar, að setja greiðslur til starfsmanna UNRWA, stofnunar Sameinuðu þjóðanna, í bið á meðan framferði þeirra yrði skoðað urðu uppi hróp á íslenska þinginu. Og var það þó ekkert smáræðis framferði.

Áfall fyrir Sameinuðu þjóðirnar

Allnokkrir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna höfðu tekið þátt í árás af ógeðslegasta tagi á saklaust fólk að skemmta sér við tónleika og dans ísraelskra borgara í sinni heimabyggð. Og út á hvað gekk þá framferðið 7. október síðastliðinn, daginn sem „góða fólkið“ á Vesturlöndum vill gleyma sem fyrst? Þeir höfðu lagt í leiðangur þar sem engar varnir voru til staðar, nema loftvarnarskýli gagnvart þeirri eldflaugamergð sem hermdarverkamenn höfðu látið rigna yfir Ísrael síðustu árin. Ísrael hafði náð að granda langflestum þeirra en aðrar sendingar misfórust vegna klaufagangs. Af þeim ástæðum var langoftast látið vera að hefna þessara aðgerða. Og út á hvað gekk sú árás sem 12 starfsmenn Sameinuðu þjóðanna gátu ekki stillt sig um að fá að taka þátt í? Þeir höfðu drepið og nauðgað og murkað lífið úr ungum börnum og dregið með sér „gísla“ og haft með sér, á hið dásamlega svæði sem Hamas-liðar hafa einir stjórnað, eftir að hafa „unnið kosningar“ fyrir 18 árum, sem virðast eiga að gilda sem umboð frá þjóðinni til þrjótanna um alla eilífð.

Hæstráðandi hjá SÞ sýndi og sannaði, rétt einu sinni, að hann kann ekki að skammast sín og fellur á flestum prófum, og furðaði sig á því að eftir hans eigin tilkynningu um að „Stofnunin“ myndi láta fara fram rannsókn á þessu máli yrði ekki talið fráleitt að afturkalla stuðning fjölmargra ríkja til UNRWA, þegar vitað væri að auki að „aðeins“ 12 einstaklingar úr röðum SÞ hefðu tekið þátt í óhæfuverkunum. Og enginn hinna 30 þúsunda UNRWA-starfsmanna SÞ hefði heyrt um það fyrr en nú, meira en 100 dögum síðar eða svo, og gefnar hefðu verið yfirlýsingar af sjálfum aðalritara SÞ, að innanhúsmenn þess í New York, sem ekki höfðu heldur heyrt eitt né neitt, fyrr en þeir voru upplýstir, ætluðu sjálfir að láta rannsaka málið í þaula! Þessi deila gæti því ekki verið í betri farvegi en hún væri nú.

Vestrænar þjóðir höfðu mokað fé til þessarar undirstofnunar og treyst henni til að koma því áleiðis til þess fólks sem mest þurfti á því að halda á Gasa. En SÞ höfðu ekki fylgst með neinu og vissu ekkert í sinn haus frekar en fyrri daginn. Bandaríkin settu þegar í stað stopp á 450 milljónir dollara og aðrar sómakærar vestrænar þjóðir fylgdu margar fordæmi þeirra eða vildu hver hugsa sinn gang, eftir að hafa látið sitt fé ganga til Gasa fyrir meðalgöngu UNRWA.

Aðeins eitt uppþot

Nú var þeim flestum loks orðið ljóst að obbi þessa mikla fjár fór beinustu leið til hermdarverkasveitar Hamas. Ekki varð neitt uppþot vegna stöðvunar austurs þessa mikla fjár í viðkomandi löndum, nema á Alþingi Íslendinga. Þar eru jafnan þeir sem eru alltaf líklegastir til að leika sjálfa sig í mát, og gátu ekki frekar en fyrri daginn stillt sig um að gera sig að kjánum, fyrst svona ákjósanlegt færi gafst til þess. En það er þó ekki eins og vöntun hafi verið á þeim.

Fyrirrennari Joe Bidens, Donald Trump, hafði sett bann við þessum greiðslum, eftir að hafa verið upplýstur um það af þeim leyniþjónustum sem Hvíta húsið hlustar helst á hvað áreiðanlegar heimidir segðu um hvernig þeir fjármunir væru notaðir og af hverjum. Joe Biden lét það verða á meðal sinna fyrstu verka að opna fyrir dollaratrektina til þessarar hjálparstofnunar SÞ, nema hvað. Til þess að eyða öllum þessum fjárhaugi var 30 þúsunda manna starfsmannafélag á vegum aðalritara SÞ og fjölmargra undirsáta hans og niður eftir öllum tröppum stigans. Þeir sömu og ekkert höfðu frétt um það hvernig féð „handa soltnum“ á Gasa hefði alla tíð verið notað.

Bein þátttaka þeirra sem síst skyldu

Biden var því í vondum málum og hratt styttist í kosningar. Og búrókratar hans í Hvíta húsinu voru því fljótir að semja handa honum ákvörðun um að fjáraustrinum skyldi hætt um hríð, á meðan þetta ömurlega mál yrði rannsakað eða sofnaði. Ekki var minnst á „rannsókn SÞ“, enda er ekki vitað til þess að sú stofnun hafi rannsakað nokkurn hlut svo vit kæmi úr því og fjáraustur er ekki skilgreindur sem galli á þeim bæ.

En þingmenn öldungadeildar Bandaríkjaþings fengu góða yfirferð frá leyniþjónustum sínum um stöðu þessa máls. Fjármunum þessum hafði jafnan verið varið (meina eytt) í góðu samstarfi við Hamas-hermdarverkasveitirnar, enda gat samstarfið þar á milli ekki verið þéttara. Og án náins samstarfs við Hamas gerðist ekkert á Gasa. Hamas tók þannig vel beiðni þessara 12 fulltrúa hinna Sameinuðu þjóða um að fá, sér til gleði og skemmtunar, að taka þátt í að nauðga konum og myrða og drepa börn og öðrum ódæðisverkum hinn 7. október. Og þótt vont væri og ótrúlegt var það aðeins toppurinn á framganginum og ótrúlegu hneyksli. John Kennedy, þingmaður í öldungadeildinni, sem er þó ekkert skyldur J. Fitzgerald K., sagði á miðvikudag að þingmönnum hefði verið gerð grein fyrir hinu þétta samstarfi Hamas og hinnar hjálplegu deildar SÞ og væru það aðeins börn sem ekkert hefðu um það vitað. Þeir í UNRWA hefðu geymt fyrir þá á Hamas-bænum bæði vopn og vistir, sem ættu þar með ekki á hættu að vera grandað. Verulegur hluti fjár handa soltnum hefði farið í framkvæmdir í gangagerð neðanjarðar undir drjúgum hluta svæðisins. Eða eins og þingmaðurinn orðaði það, að ef þessi tiltekna hjálparstofnun væri tekin upp á löppunum og snúið við hryndu Hamas-liðar úr öllum vösum þar og litið virtist á fyrirgreiðslu til hermdarverka Hamas sem brýnasta verkefnið. Stofnun merkt SÞ hefði þannig veitt skjól og margvíslegra fyrirgreiðslu, sem hvergi væri getið í skýrslum Sameinuðu þjóðanna, svo dapurlegt sem það væri. Og þeir sem hafa séð myndir af höllum og öðrum húsakosti leiðtoga Gasa í Katar sjá einnig að SÞ verða seint sakaðar um að hafa haft þá höfðingja úr vinahópnum út undan.

Okkar framlag, um 100 milljónir, er þannig rétt eins og biti upp í kött og hefði þannig aðeins dugað fyrir sundlaugum fyrir þrjá helstu leiðtoga Hamas í Katar, sem voru reyndar íslenskum bankamönnum að góðu kunnir á gullaldarárum útrásarvíkinga, sem nutu aðdáunar og atbeina Samfylkingarinnar sem hún og fleiri vildu helst geta gleymt. En það er athyglisvert að stærsta herstöð Bandaríkjanna í Arabaheiminum, Al Udeid Air Base, er í Katar. Menn velta sér gjarnan upp úr því að margt sé skrítið í kýrhausnum. En það virðist víðar vera margt skrítnara en þar.

Íslensk umræða er dálítið dularfull

Sönglagakeppni virðist sérlega vel til þess fallin að fá menn út af sporinu, rétt eins og gerðist 2019 þegar samtök evrópskra þátttakenda töldu að Íslendingar hefðu hagað sér ósæmilega. En Íslendingar höfðu ekki gert það. Einungis fámennt úrtak þeirra. Og það þótt þeir hefðu í sínu liði háttsetta embættismenn úr utanríkisráðuneytinu, sem töldu sig í fríi í Ísrael! Og nú vilja þeir, sem vilja endilega út af sporinu aftur og verða sér til minnkunar, endurtaka leikinn. Baráttumenn vilja að Ísrael verði bannað að taka þátt í þessari keppni um að misstíga sig. „Rök“ þeirra fyrir brottvísun Ísraels hafa fram að þessu tekið mið af meðferð á Rússlandi með vísun til árásar þess á Úkraínu. Engum datt í hug að þeir atburðir ættu að leiða til þess að Úkraína yrði rekin frá keppni. En vandi fordæmisins er að það var Hamas sem réðist inn í Ísrael. Eina sök Ísraels var að vera óviðbúið. Pútín forseti var með réttu hrópaður niður vegna sinnar innrásar, en nú er hrópað húrra fyrir Hamas og morðæði þeirra á almenna borgara. En banna á Ísraelum að syngja fyrst ráðist var á þá! Það var vissulega ráðist með offorsi og morðæði á Ísraela og þeim komið á óvörum og þess vegna vilja kjánar uppi á Íslandi vísa þeim úr söngvakeppni!

Menn hafa ekki gleymt

Árásunum 7. október var fagnað á Gasa. Bandaríkjunum og vinum þeirra eru ógleymanlegar myndirnar af dansi og fögnuði frá Palestínumönnum þegar ráðist var á tvíburaturna í New York. Þá var dansað á Gasa og á Vesturbakkanum. Og við heyrum oft á Alþingi að þar vilji menn hafa fordæmi fordæmt í hávegum. Þegar Hitler réðist inn í Pólland úr annarri áttinni og Stalín úr hinni heyrðust engar raddir hér um að nú yrðum við öll að ráðast á Pólverja, nema að sýna þeim háttvísi fyrsta dag innrásar eins og gætt er 7. október. Það tók um sex ár fyrir Vesturlönd að snúa innrásinni í sigur. Japan gerði fyrirvaralausa árás á Pearl Harbor 7. desember og það tók fjögurra ára stríð að bregðast við því og lauk reyndar með tveimur kjarnorkusprengjum. Það mælti enginn með því að nú væri sanngjarnt að allar þjóðir réðust á Bandaríkin, nema auðvitað þann eina dag 7. desember þegar ráðist var á Perluhöfn. Hér myndu snillingarnir á þingi segja: Við erum búnir að segja að árásin á Pearl Harbor hafi verið vond, en nú er 7. desember liðinn, og við eigum að vera á móti Bandaríkjunum og senda Japan öll okkar fjárframlög. Og þar sem því máli er þar með lokið á „góða fólkið“ að fá menn frá Japan til að syngja við Óskarsverðlaunin en banna Bandarikjamönnum að iðka söng. Íslendingar eru ekki síðri og eru helst að hugsa um að fá Palestínumann frá Gasa til að verða fulltrúi Íslands í söngvakeppninni!

Nú hættu flestar vestrænar þjóðir, nema Noregur!!!, að setja stuðning sinn við UNRWA-stofnunina í bið, stofnun sem er á vegum SÞ og að sögn með um 30 þúsund manna lið í hjálparstarfi á Gasa, þegar áreiðanlegar fréttir bárust um það að 12 starfsmenn hefðu sýnt hjálpartakta sina og tekið þátt í morðæðinu á vopnlausa Ísraela, nauðganir og morð á konum og „slátrun“ á börnum.

Hvernig stendur á því að þessir 12 morðóðu fulltrúar SÞ fengu tilboð um að taka þátt í þessari vitfirringu? Hvernig voru þeir valdir? Og hvernig stóð á því að UNRWA með 30 þúsund manna lið á þessu litla svæði frétti ekkert af málinu fyrr en í síðustu viku? Nú er komið á daginn, eins og nefnt var og marga hafði lengi grunað, að þessi stofnun SÞ hefur verið í þéttu samstarfi við Hamas og það með einkar ógeðfelldum og óhjálplegum hætti. Þessa stofnun ætti að leysa upp.