Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
Haldið verður af stað til loðnumælinga á ný næsta mánudag en síðasta leit Hafrannsóknastofnunar var 23. janúar síðastliðinn. Í leitina fara skipin Heimaey VE, Polar Ammassak og Ásgrímur Halldórsson.
„Ástæðan fyrir því að við fengum Heimaey VE til að fara í mælingarnar með okkur var að rannsóknarskipið okkar, Árni Friðriksson RE 200, var ekki til taks,“ segir Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, en við botnskoðun á Árna í slipp í Hafnarfirði kom olíuleki í ljós. Guðmundur segir að því hafi orðið að bregðast hratt við.
„Við leituðum til Ísfélags Vestmannaeyja um hvort það hefði eitthvert skip aflögu til að taka þetta verkefni að sér og fengum Heimaey VE, sem hafði verið á kolmunnaveiðum,“ segir Guðmundur, en með Árna Friðrikssyni áttu Polar Ammassak og Ásgrímur Halldórsson að fara til mælinga. Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar verða um borð í öllum skipunum.
Hafísinn gæti haft áhrif
Áætlað er að rannsóknarsvæðið nái frá Víkuráli út af Vestfjörðum og þaðan til austurs að Héraðsdjúpi út af Austfjörðum, en yfirferðina gæti þurft að laga að útbreiðslu loðnunnar og aðgengi að hafsvæðum vegna hafíss.