Hefur þú skemmt þér vel yfir Idolinu? Já, og ég held ég geti talað fyrir hönd okkar fjögurra dómaranna að okkur finnst þetta ótrúlega skemmtilegt. Þessir söngvarar sem eru í ár eru allir geggjaðir og sterkari hópur heldur en í fyrra

Hefur þú skemmt þér vel yfir Idolinu?

Já, og ég held ég geti talað fyrir hönd okkar fjögurra dómaranna að okkur finnst þetta ótrúlega skemmtilegt. Þessir söngvarar sem eru í ár eru allir geggjaðir og sterkari hópur heldur en í fyrra. Tæknilega eru þau svo góð og þarna leynast miklir hæfileikar. Það eru forréttindi að fá að vinna þessa vinnu.

Er ekki erfitt að senda fólk heim?

Jú, það er mjög erfitt því við erum að hjálpa þeim að lifa drauminn. Við viljum gefa þeim góð ráð og því er mjög leiðinlegt að senda þau heim því ekki vill maður brjóta þau niður. Ég vona að þau taki reynsluna með sér heim og haldi áfram. Í fyrra, strax eftir Idolið, var Kjalar kominn í Eurovision og búinn að gefa út lag og Sunna, sem var í fyrra, er nú með lag í Söngvakeppninni. Þau unnu ekki Idolið en fengu sjálfstraust til að halda áfram og það þykir mér vænt um að sjá.

Kom oft upp ágreiningur hjá ykkur dómurunum?

Nei, en í byrjun þegar við vorum að skera mikið niður gat stundum verið erfitt að vera sammála því við erum fjórir ólíkir tónlistarmenn með ólíkan smekk. Það að keppa í list er auðvitað vitleysa, þó að við séum að gera það. En við reynum öll að hlusta hvert á annað og komast að niðurstöðu.

Er áhorfið meira en í fyrra?

Já, og fjöldi atkvæða er miklu meiri. Við finnum fyrir miklum áhuga og vitum að fjölskyldur og vinahópar, á öllum aldri, koma saman á föstudagskvöldum til að halda Idol-kvöld.

Hefur eitthvað komið þér á óvart?

Já, það hefur komið mér á óvart hvað þau eru að standa sig vel viku eftir viku. Það er þvílíkt álag á þessum krökkum að standa á sviði í beinni útsendingu fyrir framan alþjóð. En þau standa sig ótrúlega vel og negla lögin á hverjum föstudegi. Ég er ótrúlega stolt af þeim.

Þann 9. febrúar verður ný Idol-stjarna krýnd í beinni útsendingu á Stöð 2. Miðar á úrslitakvöldið fást á tix.is.