Skýringarmynd frá SNØ um orkujafnvægið í húsinu og nánasta umhverfi.
Skýringarmynd frá SNØ um orkujafnvægið í húsinu og nánasta umhverfi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hægt yrði að halda alþjóðleg mót og taka á móti erlendum landsliðum og félögum, enda er stutt til Íslands frá Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada.

Bjarni Th. Bjarnason

Snjóframleiðsla í Bláfjöllum er frábær viðbót í aðstöðusköpun fyrir allt skíðafólk á Íslandi. Það tryggir að hægt sé að fara fyrr á skíði og gerir undirlagið fyrir náttúrulegan snjó betra. Þessi framkvæmd, sem komst í gagnið nýlega, er fyrsti áfangi í mikilli uppbyggingu skíðasvæðanna á höfuðborgarsvæðinu sem samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ákváðu árið 2018 að ráðast í.

Veðurfar og vindar

En betur má ef duga skal. Skíðafólk Íslands þarf samt sem áður að eiga við veðurguðina og þeir eru okkur oft á tíðum ekki hliðhollir. Vindurinn er versti óvinur skíðafólks. Gróflega áætlað má segja að vegna veðurs sé einungis hægt að hafa lyfturnar í Bláfjöllum opnar í 50% tilfella þó að nægur snjór sé í fjallinu. Það gefur okkur skíðadaga upp á 40-70 daga á ári og er því íþróttahúsið okkar lokað í um 300 daga á ári og sjá allir mjög augljóslega að engin íþróttagrein getur sætt sig við svoleiðis aðstöðu. Það dugar okkur ekki ef við ætlum að „Vinna gullið saman“ eins og boðað var á nýafstaðinni ráðstefnu sem haldin var af ÍSÍ með Véstein Hafsteinsson, nýjan afreksstjóra ÍSÍ, í broddi fylkingar. Við skíðafólk þurfum nýtt íþróttahús til að vinna gullið.

Ný og gömul hugmynd

Fólk innan Skíðasambands Íslands hefur verið að kanna mögulega byggingu skíðahúss á höfuðborgarsvæðinu. Skíðahús er nauðsynlegt fyrir skíðaíþróttina á sama hátt og knattspyrnuhús eru nauðsynleg fyrir knattspyrnuna á Íslandi. Húsið myndi nýtast öllum, bæði almenningi og keppnisfólki. Íslenska veðrið leikur knattspyrnufólk oft grátt en óhætt er að segja að veðrið hafi meira afgerandi áhrif á skíðafólk þar sem veður eru vályndari á veturna en sumrin. Ótrygg snjóalög og stuttur tími til æfinga hefur nú orðið tilefni til að endurskoða hugmynd um skíðahús frá því árið 2005.

Í skíðahúsi er hægt að hafa opið í 365 daga á ári. Fyrirtækið Alpine X er að reisa 20 skíðahús víðs vegar um Bandaríkin. Í Evrópu eru tugir skíðahúsa (yfir 70) sem öll eru rekin með hagnaði. Í Ósló í Noregi er eitt glæsilegasta skíðahús í heimi með brautir fyrir alpagreinar, bretti og skíðagöngu, auk þess sem þar er ísklifurveggur og önnur afþreying. SNØ, eins og skíðahúsið heitir, er staðsett við stórt íbúðasvæði í Lørenskog þannig að fólk úr hverfinu getur auðveldlega gengið í húsið. Almenningssamgöngur eru einnig góðar að húsinu.

Umhverfisvænt og orkusparandi

Eitt það besta við húsið í Noregi er þó að við framleiðsluna á gervisnjónum verður til mikið auka rafmagn sem dugir fyrir 350 íbúðir í Lørenskog-hverfinu. Um það bil 5.700 megavattstundir rafmagns eru notaðar í mannvirkið árvisst. Með varmadælukerfi sem drifið er áfram af þessum 5700 MWst fást til baka 7.000 MWst til upphitunar í allt að 350 íbúðum í nágrenni SNØ. Varmadælustöð SNØ er staðsett fyrir utan skíðahúsið sjálft og framleiðir kulda með þremur stórum kælivélum sem nota CO2 sem náttúrulegan kælimiðil. Framleiðsla á kulda með varmadælum á einum stað í ferlinu býr til hita á öðrum stað í sama ferli. Þar sem kuldinn er framleiddur eru varmaskiptar notaðir til að kæla húsið. Við það hitnar kælimiðillinn og þegar hann er fluttur með þrýstingsbreytingum sem framkvæmdar eru með rafmagni í hinn hluta ferlisins, hitnar kælimiðillinn og eru varmaskiptar einnig notaðir til að kæla sama miðil með upphitun húsanna.

Niðurstaðan er því að 5.700 MWst af rafmagni gefa af sér orku til kælingar og snjóframleiðslu sem samsvarar 8.700 MWst inni í skíðahúsinu og orku til upphitunar sem samsvarar 7.000 MWst. Þetta væri líka hægt að gera í okkar skíðahúsi á Íslandi.

Úlfarsfell kjörið fyrir skíðahús

Svæðið sem horft hefur verið til hér á landi er Úlfarsfellið. Því svæði svipar um margt til svæðisins í Ósló. Það er nálægt íbúðabyggð og útivistarsvæði þannig að margfeldisáhrifin yrðu mikil. Áhugafólk innan skíðahreyfingarinnar lét teikna skíðahús í Úlfarsfelli árið 2005 með forgöngu Helga Geirharðssonar, verkfræðings og skíðamanns. Hugmyndin um skíðahús í Úlfarsfelli náði ekki flugi þá og mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Nú dustum við rykið af eldri gögnum og áhugasamir einstaklingar innan Skíðasambands Íslands eru í viðræðum við fjárfesta um að koma að verkefninu. Brekkan í Úlfarsfelli yrði lengsta innanhússskíðabrekka í heimi, eða um 800 metra löng. Hallinn í henni hentar einnig vel til alþjóðlegra skíðamóta sem gefur húsinu aukið vægi á alþjóðavísu. Hægt yrði að halda alþjóðleg mót og taka á móti erlendum landsliðum og félögum, enda er stutt að koma til Íslands frá meginlandi Evrópu auk Bandaríkjanna. Einnig væri æskilegt að setja skíðagönguspor í húsið líkt og í Ósló og hafa brautina a.m.k. 1,5 km langa. Það gæti einnig verið áhugavert að reisa hótel í tengslum við svona hús auk annarra rýma fyrir íþróttir á borð við borðtennis, skauta, bogfimi og klifur. Utanhúss væri hægt að vera með „downhill“ fjallahjólabraut, „zip-line“ og fleira. Úlfarsfellið yrði áfram paradís göngufólks og mögulega væri hægt að hafa veitingastað á toppnum, eins og fyrstu teikningar gerðu ráð fyrir. Útsýnið frá Úlfarsfellinu er ægifagurt og heilt yfir yrði þetta stórkostleg framkvæmd og fellið myndi iða af lífi allt árið um kring.

Viðskiptatækifæri

Reykjavíkurborg kæmi einungis að málinu með því að úthluta svæðinu fyrir rekstur af þessu tagi, enda yrði þetta hugsað fyrir almenning, ferðafólk, keppnisfólk og ekki síst unga skíðaiðkendur. Hægt væri að gera samninga við sveitarfélögin þannig að skólakrakkar hefðu greiðan aðgang að húsinu. Við teljum að húsið yrði ekki í samkeppni við skíðasvæðin heldur myndi það styrkja þá starfsemi og svæðin vinna saman að eflingu skíðaíþróttarinnar á Íslandi. Flestir myndu alltaf vilja skíða úti, en það eru fáir dagar í boði á ári. Þar að auki yrði miklu styttra fyrir fólk að fara í skíðahúsið eftir vinnu á virkum dögum. Skíðahúsið er hugsað sem einkaframkvæmd án aðkomu bæjar eða ríkis. Ferðamönnum á Íslandi fjölgar ár frá ári og yrði þetta kærkomin viðbót við afþreyingu fyrir þann hóp.

Meðhöfundar að greininni eru Aðalsteinn Valdimarsson, formaður brettanefndar SKÍ, Brynja Þorsteinsdóttir, afreksstjóri SKÍ, Einar Ólafsson, formaður skíðagöngunefndar SKÍ, Helgi Geirharðsson, verkfræðingur og fyrrv. formaður mannvirkjanefndar SKÍ, Jónas Egilsson, framkvæmdastjóri SKÍ, og Sigurður Nikulásson, formaður alpagreinanefndar SKÍ.

Höfundur er formaður SKÍ.

Höf.: Bjarni Th. Bjarnason