Garðskagaviti er eitt helsta kennileiti Suðurnesjabæjar.
Garðskagaviti er eitt helsta kennileiti Suðurnesjabæjar. — Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Stefánsson, fv. þingmaður og ráðherra, varð nokkuð óvænt bæjarstjóri í Garði árið 2012, á miðju kjörtímabili. Hann er í dag bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, sem varð til með sameiningu Garðs og Sandgerðis sumarið 2018

Magnús Stefánsson, fv. þingmaður og ráðherra, varð nokkuð óvænt bæjarstjóri í Garði árið 2012, á miðju kjörtímabili. Hann er í dag bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, sem varð til með sameiningu Garðs og Sandgerðis sumarið 2018.

Rætt er við Magnús í nýjum hlaðvarpsþætti Hringferðar Morgunblaðsins sem birtist á helstu hlaðvarpsveitum í dag. Þar fjallar hann um lífið í Suðurnesjabæ, hversu vel var tekið á móti honum þegar hann hóf störf, atvinnulífið á svæðinu, samanburðinn á því að reka sveitarfélag í dag og fyrir 30 árum þegar hann gegndi stöðu sveitarstjóra í Grundarfirði, og margt fleira. Þá fjallar Magnús einnig um þingferil sinn, sem spannar 12 ár, en á þeim tíma upplifði hann það bæði að falla af þingi og verða ráðherra.

Mikilvægir súpufundir

Magnús rekur stuttlega í viðtalinu hvernig sameining sveitarfélaganna kom til. Þar liggur nú skemmtileg saga að baki. Hún er nokkurn veginn á þá leið að bæjarfulltrúar í Sandgerði og Garði voru á leið á aðalfund Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum en ákváðu að hittast í fyrirpartíi heima hjá Einari Jóni Pálssyni, sem var þá og er enn forseti bæjarstjórnar. Þar var lauslega rætt um mögulega sameiningu sveitarfélaganna en ólíkt því sem gerist oft í óformlegum samtölum í fyrirpartíum var þessu samtali fylgt fljótlega eftir.

„Við ákváðum að bjóða sveitarstjórn Sandgerðis í kósí-súpufund. Þar var ágætis samtal og enginn þrýstingur á sameiningu, en samtalið var tekið áfram,“ rifjar Magnús upp. Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar bauð stuttu síðar í annan súpufund, samtalið hélt áfram og ákveðið var að fara í könnunarviðræður. Niðurstaðan varð sú að bera sameiningu undir íbúa. Niðurstaðan var nokkuð afgerandi í Garði, þar sem um 70% íbúa samþykktu sameiningu, en mjórra var á munum í Sandgerði, þar sem um 56% samþykktu sameiningu en um 44% voru á móti.

Nýtt sveitarfélag, Suðurnesjabær, tók til starfa 10. júní 2018. Íbúar voru þá um 3.200 en eru í dag rétt rúmlega 4.000. Magnús segir að fjölgun íbúa hafi verið nokkuð sjálfbær og ekki reynt mikið á innviði sveitarfélagsins. Margir íbúar bæjarins starfa í eða í tengslum við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli en Magnús bendir á að Suðurnes og höfuðborgarsvæðið séu í raun eitt atvinnusvæði. Því séu margir sem starfi á höfuðborgarsvæðinu en hann nefnir sjávarútveg, verktakaþjónustu og aðra þjónustu sem helstu atvinnuvegi bæjarins.

Spurður hvort hugað sé að frekari sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum segir Magnús að sveitarfélögin hafi rætt það sín á milli og þreifingar átt sér stað en ekkert hafi verið ákveðið um framhaldið.

Fór óvænt á þing

Eftir að hafa gegnt starfi sveitarstjóra í Grundarfirði í fimm ár tók Magnús sæti á lista Framsóknarflokksins í Vesturlandskjördæmi, eins og það hét þá, fyrir alþingiskosningarnar 1995.

„Ég var óvænt kosinn á þing,“ segir Magnús þegar hann rifjar þetta upp og segir að hann hafi ekki endilega átt von á því. Magnús féll þó af þingi í kosningunum árið 1999.

„Það var erfið upplifun, því það vildi enginn ráða fyrrverandi þingmann í vinnu,“ rifjar Magnús upp en hlær við. Hann var þó fljótlega ráðinn framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Selfoss en var áfram varaþingmaður. Hann fékk óvænt símtal á pálmasunnudag vorið 2001, sama dag og dóttir hans fermdist, en í símanum var Ingibjörg Pálmadóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, sem tilkynnti honum að hún hygðist segja af sér af heilsufarsástæðum og að hann þyrfti að svara því fyrir lok dags hvort hann myndi í kjölfarið taka sæti á þingi.

„Þið getið ímyndað ykkur hvað ég var að hugsa í kirkjunni,“ segir Magnús glettinn þegar hann rifjar þetta upp. Úr varð að hann ákvað að taka þingsætið og þar sat hann næstu átta ár.

Í viðtalinu rifjar Magnús einnig upp þegar hann tókst á við félaga sína í Framsóknarflokknum um oddvitasæti í nýju kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, fyrir kosningarnar 2003. Hann rifjar upp sum af þeim málum sem rötuðu inn á borð hans sem félagsmálaráðherra, þar á meðal upphaf Breiðavíkurmálsins.

„Mönnum leið illa með að uppgötva hvað þarna hafði átt sér stað. [...] Það tók á þegar maður fékk mynd á þetta,“ segir Magnús.

„Þar mætir ungur maður...“

Það gekk ýmislegt á í Framsóknarflokknum eftir að Halldór Ásgrímsson heitinn sagði af sér formennsku eftir slæmt gengi flokksins í sveitarstjórnarkosningum sumarið 2006. Í kjölfarið urðu breytingar á ríkisstjórn og áttu þá nokkrir einstaklingar eftir að gegna formennsku í flokknum á næstu árum. Magnús lýsir þessum tíma sem upplausnartíma í flokknum.

Það breyttist þó árið 2009, þegar flokksþing var haldið í byrjun ársins.

„Þar mætir ungur maður sem ég hafði aldrei hitt og aldrei talað við – og hann er kosinn formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð [Gunnlaugsson] nokkur. Þetta var mjög skrýtin upplifun, allt í einu kemur þessi ungi maður og rúllar upp kosningum,“ segir Magnús í léttum tón en gefur þó ekki upp hvern hann hafi kosið sem formann.

Spurður um gengi flokksins í dag segist Magnús ekki vera virkur í flokksstarfinu en að hann sé ánægður með störf flokksins og forystu hans. Hann nefnir að Framsóknarflokkurinn hafi ekki látið teyma sig út í deilur hinna flokkanna í ríkisstjórninni, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Þá segist hann ánægður með það að Einar Þorsteinsson sé orðinn borgarstjóri í Reykjavík, fyrstur framsóknarmanna.

Tvær sundlaugar

Í lok þáttarins víkur talinu þó aftur að lífinu í Suðurnesjabæ. Þar ber ýmislegt á góma, til dæmis vetrarþjónusta í bæ þar sem sjaldan festir snjó og þau lífsgæði sem íbúar njóta af því að hafa tvær sundlaugar í sveitarfélaginu, eða í sitt hvorum íbúakjarnanum eins og Magnús orðar það. Sjálfur fer hann iðulega í sund á morgnana áður en hann mætir til vinnu. Þá er einnig rætt frekar um nálægðina við flugvöllinn, gný af herþotum og margt fleira í þessu áhugaverða viðtali.

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir& Gísli Freyr Valdórsson