Ásmundur Bjarnason, fyrrverandi aðalbókari Húsavíkurkaupstaðar, lést á Skógarbrekku HSN á Húsavík 1. febrúar, 96 ára að aldri.
Ásmundur fæddist á Akureyri 17. febrúar árið 1927 og var sonur hjónanna Kristjönu Hólmfríðar Helgadóttur og Bjarna Ásmundssonar. Hann ólst upp á Húsavík til 16 ára aldurs, þá fór hann til náms á Laugarvatni og síðar í Samvinnuskólann í Reykjavík.
Ásmundur kvæntist Kristrúnu J. Karlsdóttur framhaldsskólakennara, f. 1928, d. 2002, 12. nóvember árið 1949. Þau eignuðust sex börn sem eru í aldursröð: Karl, f. 1946, Bergþóra, f. 1951, Bjarni, f. 1956, Jóhanna, f. 1957, Anna Kristjana, f. 1962, og Sigrún, f. 1965. Þá átti Ásmundur soninn Guðmund Grétar sem er f. 1960.
Þau Ásmundur og Kristrún bjuggu fyrstu búskaparár sín í Reykjavík en fluttust til Húsavíkur árið 1963. Ásmundur var í útgerð með föður sínum og bræðrum til 1971 þegar hann hóf störf hjá Húsavíkurbæ.
Ásmundur æfði íþróttir af kappi á yngri árum og keppti í frjálsum íþróttum á Ólympíuleikunum í London árið 1948 og í Helsinki árið 1952. Hann var í gullaldarliði Íslands í frjálsum íþróttum sem fór í fræga för til Brussel árið 1950 og er sá síðasti af hópnum til að kveðja. Hann keppti jafnframt á Evrópumeistaramóti í Bern árið 1954. Hann keppti alla tíð fyrir hönd KR og starfaði fyrir félagið eftir að keppnisferlinum í frjálsum íþróttum lauk.
Á veturna gekk hann á skíðum, var einn af stofnendum Golfklúbbs Húsavíkur, stundaði golf fram á tíræðisaldur og varð m.a. Íslandsmeistari öldunga á 9. áratugnum. Hann var heiðursfélagi Golfklúbbs Húsavíkur, Frjálsíþróttasambands Íslands og Lionsklúbbs Húsavíkur auk þess sem hann var sæmdur gullmerki Völsungs árið sem hann og félagið urðu 90 ára en Völsungur var stofnaður árið 1927, á fæðingarári Ásmundar.
Þá var Ásmundur formaður Golfklúbbs Húsavíkur, Lionsklúbbsins og Félags eldri borgara á Húsavík um árabil.