Björg Ólafsdóttir fæddist 3. nóvember 1930. Hún lést 7. janúar 2024. Útför Bjargar fór fram 22. janúar 2024.
Til systur minnar.
Hún hélt mér undir skírn þegar hún var fermd.
Þegar hún stóra systir var fermd hélt hún henni litlu systur undir skírn í fallega hvíta fermingarkjólnum sem litla systir síðar dáðist að þegar hún sá svarthvíta myndina.
Löngu síðar, þegar hún var orðin fullorðin, kom litla systir með öðru föruneyti í annað sinn í fallegu gömlu kirkjuna og sagði þá við samferðamenn sína að aðeins einu sinni áður hefði hún komið í þessa kirkju en eftir því myndi hún ekki. Meira vildi hún ekki segja því að það var svo heilagt að koma aftur í litlu kirkjuna. Og sannarlega hafði það verið heilög stund sem stóra systir og litla systir áttu þar saman, önnur fermd og hin skírð.
Hvers minnist litla systir um stóru systur?
Fyrsta minning: Á brúnni yfir lækinn, litla systir trítlar roggin með brúnan bréfpoka með nokkrum tómötum, heilmikill fjársjóður sem henni hafði verið gefinn af eiganda gróðurhússins þar sem stóra systir hafði keypt tómata, missir þá í lækinn. Eyðilögð yfir að hafa gloprað þeim niður horfir hún grátandi á þá djúpt í tærum læknum sem áfram flýtur hratt yfir fallega steinana sem einnig vekja áhuga þeirrar litlu. En stóra systir getur ekki breytt örlögunum og þarna er fyrsta lexían lærð um að sætta sig verður stundum við orðinn hlut, lítil þroskasaga er hafin.
Önnur minning: Sólskinsdagur í Reykjavík, íslenskur hásumardagur, stóra systir, unglingsstúlkan, á leið í sumarvinnuna í skógræktinni, vill taka litlu systur með og sýna hana vinkonum sínum, hún er klædd upp, fallegur kjóll, borði hnýttur í hárið og hún veit að stóra systir er ofurlítið stolt af henni. Litla systir skynjar að stóra systir ann starfi sínu, fegurð og mikilvægi þess að rækta nýjan skóg síast inn hjá litlu systur og fylgir henni æviveginn, það er ómetanleg gjöf.
Síðar eftir gagnfræðaskólaprófið á Akureyri gerist stóra systir námsmey í Húsmæðraskólanum fína í Reykjavík sem enn er við lýði og verður nemandi Huldu Stefánsdóttur. Það líkar mömmu vel, húsmæðraskólagengin frá Svíþjóð og dáir Huldu. Síðar tekur við tveggja ára námið í handavinnudeild Kennaraskólans og allur sá dásamlegi afrakstur að hverjum litla systir getur dáðst og verður henni ógleymanlegur.
Mamma og pabbi eru svo stolt af stóru systur, mamma segir að hún sé með fallegu hendurnar hennar mömmu sinnar, ömmu okkar hverrar nafn hún ber, sem við þekktum aldrei því að hún fór úr þessum heimi þegar mamma var unglingur – og pabbi er líka svo stoltur af glæsilegri dóttur sinni.
Sem gestur eins og Halli, góði stóri bróðir, kemur Didda stóra systir nú í heimsókn í listilega gerðum fatnaði. Aldrei gleymist aðskorna kápan, sniðið, áferð efnisins og litirnir. Og eins og mamma hafði áður gert fer nú stóra systir að sauma dýrindis fatnað handa litlu systur. Stóra systir saumar undurfagran fermingarkjólinn, fölbláan og silfraðan. Var hann ekki eins og álfkonukjóll í augum fermingarbarnsins í hverjum ein álfamærin dansaði í hamraborginni?
Þessar eru minningarnar úr uppvextinum, elsku stóra systir mín!
Þórunn.