Vettvangur
Björn Bjarnason
Vonir eru enn um að kjarasamningar takist í þessari lotu núna milli margra verkalýðsfélaga og Samtaka atvinnulífsins og til verði samflot innan Alþýðusambands Íslands sem hefði mótandi áhrif á alla aðra sem enn eru með ógerða samninga.
Það ýtti undir að aðilar næðu saman um einhvers konar blandaða leið að vísitala neysluverðs lækkaði óvænt í janúar vegna sveiflubundinna liða samhliða því sem greina mátti það sem Arion-banki sagði „afar jákvætt“ að undirliggjandi verðbólga virtist vera að dragast saman og gæfi það tilefni til aukinnar bjartsýni.
Þjóðarskútan er með öðrum orðum enn einu sinni á stað þar sem sjá má til lands en leiðin til lands kann enn að verða erfið. Taka þarf tillit til margra váboða og allir verða að leggjast á árarnar undir styrkri forystu þeirra sem standa við stjórnvölinn.
Þetta er gamalkunn lýsing vegna þess að hún höfðar til reynslu þjóðarinnar í bráð og lengd. Hér var fyrir tveimur vikum lýst dæmum um rétt viðbrögð við því þegar hraun rann inn í Grindavík. Þau hafa dugað til að bjarga má miklum verðmætum í mannauðum húsum bæjarins og vonir lifa um að fólk fái leyfi til flytjast þangað aftur og byggð dafni að nýju á eigin afli.
Þegar rætt er um verðbólguna og kjarasamninga er ekki síður óvissa en vegna jarðeldanna. Á stjórnmálavettvangi spá auðvitað allir í spilin.
Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á alþingi sitja nokkrir ráðherrar í þingsalnum og svara spurningum hver á sínu verksviði án þess að vita fyrir fram um hvað verði spurt.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýr fjármála- og efnahagsráðherra, var til svara í óundirbúnum fyrirspurnatíma 19. október, á þriðja degi eftir að hún tók við embættinu. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, beindi til hennar spurningum.
Frá því að Kristrún hóf beina þátttöku í stjórnmálum og síðan sem formaður Samfylkingarinnar hefur hún sagt embætti fjármálaráðherra „valdamestu stöðu í íslensku efnahagslífi“. Hún sneri sér til nýja ráðherrans, flutti heillaóskir og sagði að í mannabreytingum gætu falist mikil tækifæri ef þeim fylgdu raunverulega breyttar áherslur.
Sjálf hefur Kristrún varpað gömlum stefnumálum Samfylkingarinnar um ESB og nýja stjórnarskrá fyrir róða, breytt heiti flokksins og flokksmerkinu. Nú hvatti hún nýja fjármálaráðherrann til að hafa „kjark og styrk til að taka upp raunverulega breyttar áherslur, ekki síst í baráttunni við verðbólgu og vexti“.
Þegar Kristrún rökstuddi óundirbúnu fyrirspurnina til Þórdísar Kolbrúnar sagði hún að ráðherrann „gæti haft áhrif strax í dag á verðbólguvæntingar með afdráttarlausri yfirlýsingu um að nú verði verðbólgan tekin alvarlega með viðurkenningu á því að viðureignin við verðbólguna hefur ekki gengið nógu vel og að það gangi ekki að bjóða bara upp á meira af því sama“.
Kristrún sakaði Bjarna Benediktsson um að hafa dregið úr eigin trúverðugleika sem fjármálaráðherra með fullyrðingu um „að það væri ekki hlutverk ríkisfjármálanna að vinna bug á verðbólgunni“. Hann hefði í raun ýtt „undir meiri verðbólgu en ella“ með orðum sínum. Taldi Kristrún það ágætis byrjun hjá nýja fjármálaráðherranum að draga þessi orð til baka og „lýsa því yfir fullum fetum að það sé víst hlutverk ríkisstjórnarinnar að vinna bug á verðbólgu og endurheimta hér efnahagslegan stöðugleika“.
Þessi orðræða ristir ekki djúpt. Hún er dæmi um útúrsnúning í því skyni að slá pólitískar keilur. Að sjálfsögðu skipta ákvarðanir í ríkisfjármálum miklu þegar spornað er gegn verðbólgu og þar ráða kjarasamningar einnig miklu. Á þeim sem taka ákvarðanir á pólitískum vettvangi eða með gerð kjarasamninga hvíla þó ekki lögbundnar kvaðir eins og á Seðlabankanum.
Í lögum um Seðlabanka Íslands stendur skýrum stöfum að hann skuli „stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi“. Bankanum sé „heimilt með samþykki ráðherra að lýsa yfir tölulegu markmiði um verðbólgu“ og hann skuli „stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn markmiðum bankans“.
Þórdís Kolbrún svaraði formanni Samfylkingarinnar og sagði hluta verðbólguvandans vera að fólk þyrfti auðvitað að trúa því að stjórnvöld mundu ná tökum á verðbólgunni. Þá væru kjaraviðræður „risastórt verkefni“ sem hefði „meiri háttar áhrif“ á hvernig verðbólga þróaðist og hvort við sem samfélag værum tilbúin að gera það sem þyrfti til að ná tökum á henni. Ráðherrann sagði að væri fólk í mikilli óvissu og tryði því ekki að verðbólga myndi lækka yrði erfitt að sannfæra félagsmenn launþegasamtaka um hóflega launahækkun í krónutölum og að betra væri að ná fram sparnaði fyrir fjölskyldur með lækkandi vaxtakostnaði frekar en að hækka krónutölu launa sem síðan yrði að engu á verðbólgubáli. Þetta væri þó verkefnið. Ráðherrann sagðist skilja sína ábyrgð og hún myndi leita til allra sem vildu vinna að þessu markmiði: „Vegna þess að ég trúi því raunverulega að þetta sé hægt,“ sagði Þórdís Kolbrún.
Fyrir rúmri viku gerðu þær atlögu að fjármálaráðherra með óundirbúnum fyrirspurnum Píratinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Viðreisnarformaðurinn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Erindi þeirra beggja var að ala á tortyggni í garð ríkisstjórnarinnar vegna kjaramálanna. Þórdís Kolbrún lét ekki haggast heldur sagði ríkisstjórnina bíða niðurstöðu samningsaðila og að stjórnin vildi að ábyrgum langtímakjarasamningum yrði náð.