Morgunblaðið greindi frá því á dögunum að Skatturinn greiðir starfsmönnum sínum árangurstengd laun eftir því hverju þeir afkasta við innheimtu. Er óhætt að segja að ýmsir hafi rekið upp stór augu og sumir rúmlega það.
Í gær upplýsti Morgunblaðið svo um bónusgreiðslu, viðbótarlaun, hjá Samkeppniseftirlitinu, SKE, og kemur það fáum á óvart sem þurft hafa að eiga við þá stofnun. En SKE segir reyndar að þessir bónusar séu ekki tengdir úrlausnum rannsókna. SKE geti greitt bónusa ef framlag starfsmanna er talið umfram það sem samið var um. Engar reglur séu um þetta, þó að stofnanasamningar geri ráð fyrir reglum, þannig að sveigjanleiki stjórnenda er alger.
Viðskiptablaðið fjallaði í vikunni um bónusa skattsins í leiðara og sagði meðal annars: „Starfsmaður sem er faglegur fram í fingurgóma og kemst réttilega að þeirri niðurstöðu að ekki sé tilefni til álagningar í einhverju úrlausnarmáli uppsker ekki jafn ríkulega og sá sem er ófaglegur en herskár í endurálagningu.“
Viðskiptablaðið telur einnig að við blasi að bónuskerfi eigi ekki heima í „eftirlitskerfi hins opinbera og allra síst þar sem árangurinn er mældur í sektum eða eignaupptöku hjá almenningi“.
Er það ekki alveg augljóst?