Baksvið
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Hrafnkell Á. Proppé, fyrrverandi svæðisskipulagsstjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, segir óhjákvæmilegt að eldsumbrotin á Reykjanesi muni hafa áhrif á þróun skipulags. Jafnframt þurfi að huga að varnargörðum víðar á svæðinu.
„Þetta er svo nýlega orðið raunverulegt, þó svo að fólk hafi verið meðvitað um að Reykjanesskaginn allur sé í raun virk eldstöð og nokkur virk eldstöðvakerfi. Þessir atburðir munu óhjákvæmilega hafa áhrif. Þau eru ekki komin fram, enda er skipulagsferlið tímafrekt,“ segir Hrafnkell.
„Ég tel óhjákvæmilegt að þegar verið er að skoða uppbyggingarsvæði, sérstaklega ný uppbyggingarsvæði, og hver þróunin er til framtíðar á höfuðborgarsvæðinu, verði í miklu meiri mæli horft á ný hraunflæðilíkön. Þannig að eldsumbrotin nú setja svæði sem eru nær eldstöðvunum í nýtt samhengi. Það þarf að nálgast þau með allt öðrum hætti en hefur verið gert undanfarin ár og áratugi,“ segir Hrafnkell, sem stofnaði fyrirtækið Úrbana skipulagsráðgjöf eftir að hann lét af störfum hjá SSH.
Mótaði aðalskipulag
Spurður hvort í ljósi þessarar þróunar verði síður ráðist í uppbyggingu íbúða nærri eldstöðvum segir Hrafnkell ótímabært að skera úr um það. Hins vegar sé ljóst að fram undan sé annað og breytt ferli þegar metið sé hversu fýsileg svæðin séu til uppbyggingar. Og bendir einnig á að meta þurfi áhrif á neysluvatnsöflun og hitaveitu, sem sé grundvöllur byggðar.
Hver gæti afleiðingin orðið af þessu endurmati?
„Til einföldunar mætti segja að þetta ætti að þrýsta meira á að fara bara betur með það land sem þegar er búið að raska. Þétta byggðina og nýta landið betur. Við höfum undanfarna áratugi verið að smyrja byggðinni svolítið þunnt út í jaðrana.“
Hvaða jaðra erum við þá að tala um?
„Þá fyrst og fremst þá jaðra sem eru næst þessum eldstöðvum á suður- og austursvæði höfuðborgarsvæðisins.“
Hægt að þétta byggð meira
Gæti þessi þróun jafnframt haft áhrif á þróun byggðar á norðurhluta höfuðborgarsvæðisins? Nú eru gamlir draumar um að byggja við sundin og hafa þau áform verið tengd við Sundabraut. Yrði sú byggð fýsilegri en ella út af þessari þróun?
„Það gerist líka ósjálfrátt um leið og sköpuð er tenging með Sundabraut. Þannig að samhliða þessu held ég að ekki þurfi mikinn spámann til að segja að þessi þróun muni auka þrýstinginn á uppbyggingu á þeim hlutum höfuðborgarsvæðisins. Það er samt ágætt að hafa í huga að það er hægt að ná miklu meira út úr þessu svæði sem þegar er búið að ryðja undir byggðina. Þegar ég var hjá SSH vorum við einmitt að greina hvar væri mögulega hægt að byggja innan núverandi vaxtarmarka höfuðborgarsvæðisins. Niðurstaðan var að þau myndu auðveldlega fullnægja vaxtarþörfum þess í heild.
Hafa sínar væntingar
Síðan má ekki gleyma því að höfuðborgarsvæðið er líka sex sjálfstæð sveitarfélög sem hafa kannski sínar væntingar um vöxt byggðarinnar. Og það eitt og sér leiðir oft til þrýstings á að fara utar með vaxtarmörkin einmitt á þeim svæðum sem eru við jaðrana. Sum þeirra kunna að vera nærri eldstöðvum.“
Hvað með umferðarmannvirki frá Hafnarfirði til Voga og svo áfram til Njarðvíkur og Keflavíkur? Rætt er um fluglest og frekari uppbyggingu á umferðarmannvirkjum. Í hvaða samhengi setur áðurnefnt endurmat vegna eldsumbrota þau áform?
„Ég held að óhjákvæmilega verði öll slík innviðauppbygging tekin til nýrrar rýni. Og þá sérstaklega með hinum nýju hraunflæðislíkönum sem hafa verið sett fram undanfarið. Það þýðir samt ekki endilega að slík áform séu dauðadæmd. Það þarf kannski að nálgast verkefnin á annan hátt. Það er þó sagt með fyrirvara. Ég hef ekki grandskoðað líkönin. Við höfum hins vegar séð hvernig leiðigarðarnir norður af Grindavík hafa sýnt fram á gildi sitt. Þ.e.a.s. ef ekki gýs öfugu megin við þá.
Fjær virkum sprungum
Það er líka ágætt að hafa í huga að norðurhlutinn á Reykjanesinu er fjær virku gossprungunum en suðurhlutinn. Norðurhlutinn er þó innan mögulegra áhættusvæða sem gætu orðið fyrir áhrifum af hrauni. Og það getur vel verið að hægt sé að leysa það með einhverjum hætti. Það er fullsnemmt að segja til um það en óhjákvæmilega þurfa öll svona áform að fara í einhvers konar nýja rýni,“ segir Hrafnkell.
Hann vill aðspurður ekki tiltaka nákvæmlega þau svæði þar sem hugsanlega þurfi að endurmeta áform um íbúðarbyggð, enda sé ábyrgðarhluti að gera slíkt án frekari rannsókna.
Öskudreifing áhættuþáttur
Eldgos geta ógnað flugvellinum
Hrafnkell segir talið að með varnar- og leiðigörðum megi verja Suðurstrandarveginn fyrir hraunflæði, þá ekki síst svæðið frá Hafnarfirði til Voga, en þar liggi land lægra en vestan við Stapann. Hvað snertir Keflavíkurflugvöll geti helst öskudreifing raskað flugi. Hins vegar liggi flugvallarsvæðið, Ásbrú og Keflavík það hátt í landi að ekki eigi að vera ógn af hraunflæði. Afar sérstakt sé að hugsa skipulag í þeim tímaramma sem gera þurfi eftir að eldstöðvakerfið vaknaði. „Þegar teknar eru ákvarðanir í skipulagsmálum, og áhrif framkvæmda eru vegin og metin, er oft talað um 50 og 100 ára viðburði en nú erum við kannski í miðju upphafi á 800 ára viðburði en svo langur tími er sjaldnast settur á vogarskálar fjárfestinga og þegar tími til að afskrifa þær er metinn. Gott er að muna að svona atburðir hafa gerst áður án þess að svæði hafi orðið óbyggileg á meðan eða í kjölfarið.“