Sigur Freyr Alexandersson er ósigraður í fyrstu þremur leikjum sínum í Belgíu, en liðið hefur unnið einn leik og gert tvö jafntefli undir stjórn hans.
Sigur Freyr Alexandersson er ósigraður í fyrstu þremur leikjum sínum í Belgíu, en liðið hefur unnið einn leik og gert tvö jafntefli undir stjórn hans. — Ljósmynd/@kvkofficieel
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnuþjálfarinn Freyr Alexandersson hefur svo sannarlega farið vel af stað með sínu nýja liði Kortrijk í belgísku A-deildinni, en hann tók við stjórnartaumunum hjá félaginu í byrjun janúarmánaðar

Belgía

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Knattspyrnuþjálfarinn Freyr Alexandersson hefur svo sannarlega farið vel af stað með sínu nýja liði Kortrijk í belgísku A-deildinni, en hann tók við stjórnartaumunum hjá félaginu í byrjun janúarmánaðar.

Freyr, sem er 41 árs gamall, hafði stýrt Lyngby í Danmörku frá því í júní árið 2021 og bjargaði félaginu meðal annars frá falli á ævintýralegan hátt á síðustu leiktíð.

Þjálfarinn hefur einnig stýrt Leikni úr Reykjavík á þjálfaraferlinum ásamt því að stýra íslenska kvennalandsliðinu frá 2013 til ársins 2018 en hann var einnig þjálfari kvennaliðs Vals um tíma, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins frá 2018 til 2020 þegar Erik Hamrén var með liðið og þá var hann einnig aðstoðarþjálfari Heimis Hallgrímssonar hjá Al-Arabi í Katar í eitt tímabil, frá 2020 til 2021.

„Þessir fyrstu dagar í Belgíu hafa verið bæði litríkir og krefjandi,“ sagði Freyr í samtali við Morgunblaðið.

„Ég hef þurft að læra hratt, á stuttum tíma, en á sama tíma hefur þetta verið hrikalega skemmtilegt líka. Dagarnir hafa verið ansi langir, og þetta hafa verið margir langir dagar í röð, en í dag er ég kominn vel inn í hlutina og það hjálpar líka til að það er búið að loka félagaskiptaglugganum. Vonandi verða næstu dagar aðeins eðlilegri ef svo má segja því ég myndi held ég ekki höndla þessa pressu og löngu daga til lengdar,“ sagði Freyr í léttum tón.

Sá fyrir sér spennandi hluti

Það kom mörgum á óvart þegar Freyr tók nokkuð óvænt við belgíska félaginu en hann hafði þó verið orðaður við önnur félög í aðdraganda skiptanna.

„Ég var búinn að heyra af áhuga annarra liða í einhvern tíma en ég tók það ekki neitt sérstaklega alvarlega, enda var ég mjög einbeittur á að standa mig vel fyrir Lyngby. Þegar það kom vetrarfrí í deildinni settist ég niður með forráðamönnum Lyngby til þess að ræða framtíðarsýn félagsins. Þá kom í ljós að margir spennandi hlutir, sem ég var búinn að sjá fyrir mér hjá félaginu, yrðu ekki að veruleika. Ég tók þá ákvörðun að framlengja ekki samning minn við félagið, sem átti að renna út næsta sumar.

Ég fór þá að horfa í kringum mig og þá kom Kortrijk inn á borðið. Mér fannst þetta rétti tímapunkturinn til þess að fara til Belgíu og ég tók við liðinu á mínum forsendum ef svo má segja. Ég hef í raun engu að tapa og ég er meðvitaður um hvað ég get gert. Þetta var samningur sem kom sér vel fyrir bæði mig og félagið og ég tel mig líka hafa skilið við Lyngby á góðum tímapunkti ef svo má segja.

Það var betra að fara þarna, þegar það var rúmlega einn og hálfur mánuður í næsta leik, en að fara næsta sumar þegar það væru nokkrar vikur í fyrsta leik. Fjárhagslega er Lyngby mjög vel statt, betur en félagið hefur verið í mörg ár, og ég gat í raun skilið við það í góðu.“

Á að halda liðinu uppi

Fleiri félög sýndu íslenska þjálfaranum áhuga, en Kortrijk var í 16. og neðsta sæti deildarinnar með einungis 10 stig eftir 20 umferðir þegar Freyr tók við liðinu.

„Ég ætla ekki að ganga svo langt að segja að ég hafi getað valið úr tilboðum en það voru félög frá mismunandi löndum sem sýndu mér áhuga. Þegar allt kom til alls var ég með ákveðnar kröfur og ein af þeim var að taka að minnsta kosti einn aðstoðarmann með mér frá Danmörku og það var erfitt annars staðar.

Forráðamenn Kortrijk voru tilbúnir að ganga að öllum mínum óskum ef svo má segja og eignarhaldið er í höndum sömu aðila og hjá Cardiff í ensku B-deildinni. Mér leist vel á fólkið sem stjórnar félaginu og þetta passaði bara einhvern veginn.

Markmiðið til skamms tíma er svo að halda liðinu uppi og á sama tíma breyta vinnukúltúrnum innan félagsins, hvernig við æfum og hvað við gerum dags daglega á æfingasvæðinu til þess að leikmennirnir bæti sig og verði betri. Það er mitt hlutverk en þegar ég kom fyrst var ekki mikil trú að ég gæti haldið liðinu uppi. Markmiðið var allavega að gera liðið tilbúið í að fara strax upp aftur. Eins og staðan er í dag erum við á undan áætlun og ég hef mikla trú, eftir að hafa séð leikmennina, umgjörðina, söguna og stuðningsmenn félagsins, á að við getum haldið okkur uppi.“

Handbragðið sést á liðinu

Kortrijk hefur svo sannarlega farið vel af stað undir stjórn Freys, en liðið, sem hafði tapað níu leikjum í röð fyrir komu hans, er taplaust í fyrstu þremur leikjum þjálfarans, hefur unnið einn leik og gert tvö jafntefli og er nú sjö stigum frá öruggu sæti.

„Hvað stigin varðar hefur gengið verið framar vonum í þessum fyrstu þremur leikjum, ég get alveg viðurkennt það. Við unnum Standard Liége á útivelli og gerðum svo jafntefli við OH Leuven og Club Brugge. Markmiðið, þegar ég tók við liðinu, var að innan tíu leikja værum við byrjaðir að færast nær hinum botnliðunum. Hlutirnir hafa því gengið hraðar fyrir sig en ég átti von á.

Við höfum líka bætt leik liðsins mikið. Leikmennirnir hafa verið mjög fljótir að meðtaka þær breytingar sem ég hef komið með inn í þetta og þú getur strax séð mitt handbragð á liðinu. Leikmennirnir og starfsliðið eiga mikið hrós skilið og ég hefði aldrei getað þetta án aðstoðarmanns míns. Hann veit nákvæmlega hvað ég vil og hann er mín framlenging á æfingasvæðinu því það er búið að vera mikið í gangi á þessum fyrstu dögum og ég hef því ekki getað eytt öllum mínum tíma þar.“

Ólíkar að mörgu leyti

Belgíska deildin er hærra skrifuð en sú danska en hver er helsti munurinn á deildunum tveimur að mati þjálfarans?

„Deildirnar eru mjög ólíkar en belgíska deildin er klárlega stærri að mörgu leyti. Gæðin hérna eru mikil og einstaklingsgæðin sérstaklega, líka hjá slakari liðum deildarinnar. Það geta í raun öll liðin hérna unnið hvert annað og deildin er mjög jöfn upp á það að gera. Það eru rosalega margir góðir leikmenn hérna og hún er mjög alþjóðleg ef svo má segja. Sem dæmi eru leikmenn af tólf mismunandi þjóðernum hjá Kortrijk.

Þetta er líka mikill suðupottur ef svo má segja varðandi félagaskipti í stærri deildir. Leikmannaveltan er gríðarlega mikil og það er mikið verið að selja leikmenn úr deildinni þannig að menningin er öðruvísi en til dæmis í Danmörku. Á sama tíma er danska deildin hrikalega flott líka og taktískt séð er hún erfiðari og hún snýst að mörgu leyti um líkamlegan styrk. Það er erfitt að ætla sér að bera þessar tvær deildir saman en heilt yfir er taktíkin meiri í Danmörku en einstaklingsgæðin meiri í Belgíu.“

Sjáum til í sumar

Þeir Mikael Anderson, Patrik Sigurður Gunnarsson og Stefán Teitur Þórðarson voru allir sterklega orðaðir við Kortrijk í félagskiptaglugganum og lagði belgíska félagið fram tilboð í þá alla, en þeim var hafnað.

„Ég vildi fá inn ákveðnar týpur af leikmönnum til félagsins. Áreiðanlega leikmenn sem búa yfir persónuleika og gæðum. Það skipti mig máli að fá þannig leikmenn og eins leikmenn sem þekkja mig, vita hvað ég stend fyrir og hvernig ég vil vinna, og þar koma Íslendingarnir mjög sterkir inn. Fjármagnið sem við höfum á milli handanna er ekki ótakmarkað en mér fannst við leggja fram rausnarleg tilboð í þá alla.

Ég reyndi líka að fá Kolbein Birgi Finnsson frá Lyngby en félagið hafnaði því. Það var auðvitað svekkjandi en á sama tíma er frábært að sjá á hvaða stað Lyngby er komið. Félagið er það vel statt að það getur leyft sér að hafna tilboðum, sem er mjög jákvætt. Ég vil vera með leikmenn sem eru ákveðin framlenging af þjálfaranum og Íslendingarnir eru það svo sannarlega. Þeir eru langflestir líka með frábært hugarfar, það er gott að þjálfa þá og þeir eru góðir í hópi. Því miður gekk það ekki upp núna en við sjáum hvað gerist þegar sumarglugginn verður opnaður,“ bætti Freyr við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason