Fjölskyldan Marín, Kristján Sverrir og Ásmundur heima á Reyðarfirði.
Fjölskyldan Marín, Kristján Sverrir og Ásmundur heima á Reyðarfirði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásmundur Hálfdán Ásmundsson fæddist 3. febrúar 1994 á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað en hefur alla tíð búið á Reyðarfirði ef undan eru skilin námsárin. „Það að alast upp á Reyðarfirði, litlum friðsælum bæ, voru forréttindi en líka…

Ásmundur Hálfdán Ásmundsson fæddist 3. febrúar 1994 á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað en hefur alla tíð búið á Reyðarfirði ef undan eru skilin námsárin.

„Það að alast upp á Reyðarfirði, litlum friðsælum bæ, voru forréttindi en líka virkilega sérstakt þar sem bærinn stökkbreyttist eftir að álverið byrjaði að rísa hér en þá byrjaði bærinn að stækka og maður hætti að þekkja alla bæjarbúa eins og áður fyrr. Ég var alltaf í öllum þeim íþróttum sem voru í boði en árangurinn var langbestur í kúluvarpi og síðan auðvitað glímu sem ég hef stundað frá tíu ára aldri. Ég hætti þó að stunda kúluvarp í kringum 15 ára aldur ef ég man rétt en þá var enginn sem gat þjálfað mig á Reyðarfirði og glíman var farin að taka meiri tíma frá mér.“

Á sumrin var Ásmundur sjálfstæður atvinnurekandi, eða frá 2004-2013. „Ég var með eigin „rekstur“ við að slá lóðir á Reyðarfirði. Í kringum 2007 þróaðist sú vinna í fyrirtækið Kaupamaður ehf. sem ég rak, að sjálfsögðu með dyggri aðstoð foreldra fyrir formlegheit og bókhald, en þá fór ég einnig að slá lóðir í bæjum í nágrenni Reyðarfjarðar. Meðan ég hafði ekki bílpróf sá pabbi um að skutla mér á milli lóða en þegar ég fékk prófið varð ég sjálfstæður með þetta, var með starfsmann í fullri sumarvinnu í fimm ár.

Ég var ágætis námsmaður í grunnskóla og sótti um að fara á „hraðbraut“ í Menntaskólanum á Akureyri þar sem nemendur tóku 10. bekk og 1. bekk í menntaskóla saman, fékk þar inni svo ég fór 15 ára norður til Akureyrar á heimavist og hóf nám við MA. Námið þar var krefjandi og félagslífið frábært, það fór þó aðeins að halla undan fæti á fjórða ári og ég náði ekki að útskrifast með árganginum mínum. Ég átti nokkra áfanga eftir sem ég frestaði ítrekað og ég kláraði ekki stúdentinn fyrr en 2017 og þá í fjarnámi frá Verkmenntaskóla Austurlands.“

Eftir námið við MA fór Ásmundur að vinna sem framleiðslustarfsmaður í málmvinnslu Alcoa Fjarðaáls. „Ég var í því starfi allt til hausts 2017 þegar ég fór suður til Reykjavíkur að læra viðskiptafræði við HÍ. Ég kláraði fyrstu önn námsins, fannst námið ekki spennandi og reyndi fyrir mér í hagfræði á vorönninni en fann mig ekki þar heldur. Ég ákvað þá að sækja um í vél- og orkutæknifræði við HR, nám sem ég hélt ég réði ekki við vegna erfiðleika í stærðfræði og eðlisfræði en ákvað þó að láta slag standa.“ Haustið 2018 hóf Ásmundur því nám við vél- og orkutæknifræði við Háskólann í Reykjavík. „Ég fann mig heldur betur þar. Komst á forsetalista tæknifræðideildar á fyrstu önn fyrir framúrskarandi námsárangur og náði að halda góðum námsárangri í gegnum allt námið, þökk sé góðum kennurum og skemmtilegum samnemendum. Ég hefði aldrei nennt að leggja svona mikinn metnað í námið nema fyrir hvað kennararnir náðu vel til mín og hvað ég lenti í góðum hóp nemanda. Ég náði á endanum að útskrifast, á réttum tíma í þetta skiptið og með ágætiseinkunn.

Fyrir lokaönn námsins ákváðum við unnusta mín Marín að láta vaða og flytja austur á Reyðarfjörð þar sem ég gat klárað síðustu önnina í fjarnámi og við náðum að kaupa draumahúsið okkar heima, það var annað hvort að hrökkva eða stökkva. Við endum á að flytja austur í maí 2021 og Kristján Sverrir kom í heiminn 17. júlí 2021.“

Ásmundur kláraði lokaverkefnið sitt í samstarfi við Fjarðaál og hóf störf þar strax í kjölfar útskriftar, janúar 2022 sem framleiðslusérfræðingur í málmvinnslu. „Stuttu seinna, eða haustið 2022, býðst mér að leysa af yfirmann minn sem tæknistjóra málmvinnslu sem ég tek að mér og endar með því að ég ræð mig að fullu í það starf í mars 2023 og sinni því enn. Þar leiði ég hóp af frábæru fólki sem hefur það að markmiði að tryggja öryggi starfsfólks málmvinnslu Fjarðaáls auk þess að hámarka framleiðni og stuðla að stöðgum umbótum.“

Ásmundur er sexfaldur glímukóngur Íslands og hefur því verið handhafi Grettisbeltisins sex sinnum, en það er elsti verðlaunagripur á Íslandi. Ásmundur vann Glímukeppni Íslands 2016, 2017, 2018, 2019, 2021 og 2022, en það var ekki keppt 2020 vegna covid.

„Ég er þó í smá pásu eins og ég vil kalla það núna en ég hef ekki keppt síðan ég vann Íslandsglímuna í apríl 2022. Hef þó aldrei sagst vera formlega hættur. Ég hef unnið ýmis mót, hér og þar um Evrópu í keltneskum fangbrögðum, þá helst í backhold sem er þjóðarglíma Skota. Ég er ennþá þrefaldur Evrópumeistari í keltneskum fangbrögðum, síðasta mót var haldið 2019 og þá vann ég allar þrjár greinarnar, íslenska glímu, gouren, sem er frönsk glíma, og backhold.“

Helsta áhugamál Ásmundar er skotveiði. „Hún á minn hug allan. Ég sleppi aldrei rjúpna- eða gæsaveiðum og fer á hreindýr ef ég fæ úthlutað leyfi. Síðan eru alltaf tilfallandi veiðar á svartfugli, ref, mink og önd. Ég hef verið í björgunarsveitarstörfum síðan ég var 14 ára, hef verið á útkallsskrá síðan ég var 18 ára og sótt menntun á því sviði, mest í fjallabjörgun. Við erum allir bræðurnir og Marín í sveitinni hér heima og stökkvum öll til þegar á reynir, ásamt öðru góðu fólki. Það er eitthvað við björgunarsveitarstörfin sem er svo gefandi. Auk þess er ég á þriðja ári í stjórn Björgunarsveitarinnar Ársólar.“

Fjölskyldan er samt mest gefandi. Mér þykir æðislegt að fylgjast með syni mínum vaxa og dafna en hann verður þriggja ára í sumar. Við reynum að vera dugleg að fara út saman með hundinum okkar Nóa, sem er 9 ára labrador, og reynum að brasa ýmislegt saman. Hvort sem það er að fara út að hjóla, renna á sleða, smíða eitthvað saman eða fara í sveitina.“

Fjölskylda

Maki Ásmundar er Marín Laufey Davíðsdóttir, f. 19.5. 1995, íþróttakennari. Foreldrar Marínar eru Davíð Art Sigurðsson, f. 14.2. 1968, listamaður, búsettur á Stokkseyri, og Greta Sverrisdóttir, f. 21.4. 1966, móttökustjóri á HSU, búsett á Selfossi. Þau eru fráskilin.

Sonur Ásmundar og Marínar er Kristján Sverrir Ásmundsson, f. 17.7. 2021.

Bræður Ásmundar eru Magnús Karl Ásmundsson, f. 15.12. 1989, skipuleggjandi útflutnings og framleiðslu, búsettur á Reyðarfirði, og Hjalti Þórarinn Ásmundsson, f. 15.3. 1992, vélstjóri á Reyðarfirði.

Foreldrar Ásmundar eru Ásmundur Ásmundsson, f. 17.5. 1954, fyrrverandi skipstjóri, og Sigurbjörg Hjaltadóttir, f. 13.6. 1959, bókari. Þau eru búsett á Reyðarfirði.