Jóhannes Gíslason fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 4. júní 1929. Hann lést á Landspítalanum 25. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Gísli Guðmundsson skipstjóri, f. 14. janúar 1901, d. 22. júlí 1981, og Þorbjörg Guðrún Friðbertsdóttir húsfreyja, f. 14. ágúst 1905, d. 6. maí 1987. Jóhannes átti fjögur systkini; Friðbert Elí, f. 21. júní 1927, d. 2. október 1980, Gísla Pál, f. 7. ágúst 1930, d. 24. maí 1969, Karl Helga, f. 2. febrúar 1932, d. 3. september 1980, og Sesselju Sigurrós, f. 11. nóvember 1945, d. 29. september 2018.

Jóhannes kvæntist Guðrúnu Erlu Skúladóttur, f. 27. júlí 1935, d. 11. janúar 2017, hinn 18. apríl 1954. Börn Jóhannesar og Guðrúnar eru: 1) Hulda, f. 27. september 1954, gift Einari Guðmundssyni. Þeirra börn eru Unnur Andrea, Jóhannes, Anna Guðrún og Sólveig. 2) Guðrún, f. 26. ágúst 1957, gift Kristni Sigvaldasyni. Börn þeirra eru Bjarki, Hjalti, Linda Björk og Eyrún Arna. 3) Sigrún, f. 8. ágúst 1959, gift Birgi Sigurðssyni. Börn þeirra eru Brynhildur Tinna, Jóhanna Erla og Sigurður Rúnar.

Útför hans fór fram í kyrrþey 30. janúar 2024.

Pabbi okkar er genginn á braut. Útför hans var gerð þann 30. janúar og fór, að hans ósk, fram í kyrrþey.

Hann ólst upp á Suðureyri við Súgandafjörð, var af miklum sjósóknurum kominn og sagði sér hafa verið ætlað að verða skipstjóri þegar fram liðu stundir. Sumarið 1953 fóru þeir bræður, hann og Friðbert Elí, suður á vertíð en í þeirri ferð kynntist hann mömmu okkar, Guðrúnu Erlu Skúladóttur. Eftir það var ekki aftur snúið. Henni leist ekki á að verða sjómannskona, enda var öryggis- og björgunarmálum sjómanna enn mjög ábótavant. Úr varð að hann hóf nám í húsgagnasmíði og lauk meistaraprófi hjá Guðmundi blinda í Trésmiðjunni Víði. Hann vann þar um nokkurt skeið en vann seinna sjálfstætt við ýmis smíðaverkefni. Lengi vel við að smíða húsmuni, eldhúsinnréttingar, fataskápa o.þ.h. en einnig rak hann innrömmunarverkstæði í mörg ár.

Pabbi var einstaklega hagur maður. Allt lék í höndunum á honum, allt frá því að laga armbandsúrið sem óvart lenti í sundlauginni til þess að stækka bílskúrinn á baklóðinni. Hann vílaði engin verkefni fyrir sér, hvorki stór né smá, hafði einstakt verksvit og gekk til allra verka með sínar vinnufúsu hendur sem hann vildi aldrei sitja á. Okkur er sérstaklega minnisstætt Barbie-hús á þremur hæðum sem hann smíðaði og við systur fengum í jólagjöf árið 1964. Ekki einungis smíðaði hann húsið sjálft heldur líka alla innanstokksmuni – rúmin, sófasettin, fataskápana og meira að segja herðatrén. Þá hafði mamma saumað rúmfötin, gluggatjöldin og allan fatnað á dúkkurnar, m.a.s. brúðarkjóla og pelsa.

Þótt pabbi og mamma væru ólík að eðlisfari áttu þau langt og farsælt hjónaband. Hún var mannblendin og ræðin en hann hlédrægur einfari, sú manngerð sem hefur ekki mörg orð um hlutina en lætur verkin tala. En þau náðu vel saman og hann sagði oft að hún væri í raun lífið hans. Það var mikið frá pabba tekið þegar hún lést í janúar 2017.

Þau ferðuðust mikið, bæði um Evrópu og til framandi landa, m.a. til Kína, Tíbets, Suður-Ameríku og Mið-Austurlanda. Á ferðalögum nutu þau þess að hafa hvort annað án þess ytra áreitis sem tilheyrir daglegu amstri.

Pabbi var af þeirri kynslóð sem metur sjálfstæði sitt mikils, vildi vera sjálfbjarga og engum háður. Hann hafði mikinn áhuga á ættfræði og naut þess að að rekja ættir fólks, einkum ef þær mátti rekja vestur á firði. Hann var mannglöggur mjög og minnugur, unni myndlist, var drátthagur og tónvís. Hann átti vandaðar harmonikkur sem hann greip stundum til, einkum þegar barnabörnin voru í heimsókn, þeim til mikillar ánægju.

Hann var alla jafna heilsuhraustur en ellin, sem hallar öllum leik, hafði sín áhrif eins og gengur. Undir lokin greindist hann með krabbamein sem hafði nokkuð hraðan framgang en hann hafði þó tóm til að líta um öxl, var þakklátur og sáttur við genginn veg.

Hulda, Guðrún og Sigrún Jóhannesdætur

Kynni okkar Jóhannesar Gíslasonar (Jóa) nýlátins tengdaföður míns spanna bráðum hálfa öld. Jói fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 1929. Hann var annar af fimm systkinum, elstur var Friðbert Elí, þá Jói, síðan Karl, þá Gísli Páll og langyngst var Sesselja Sigurrós. Foreldrar voru Gísli Guðmundsson skipstjóri og Þorbjörg Friðbertsdóttir húsmóðir. Öll eru þau látin, fyrst Gísli Páll á unga aldri, síðar Karl, Friðbert Elí og Gísli með stuttu millibili og þá Þorbjörg nokkrum árum seinna. Sesselja dó síðan fyrir örfáum árum. Jói nær því að verða 94 ára og sagðist ekki skilja í þessum háa aldri, systkini hans létust öll fyrir aldur fram.

Almennt var Jói ekki margmáll um sjálfan sig og sína æsku. Hann ólst upp á Suðureyri og upplifði stríðsárin sem drengur og minntist þess m.a. að drunur frá sprengjum úti fyrir Súgandafirði bárust alla leið inn á Suðureyri. Hann byrjaði ungur til sjós og þó hugur hans stæði til sjómennsku söðlaði hann um og lærði húsgagnasmíði í Reykjavík, en þar mun ástin mestu hafa ráðið er hann kynntist reykvískri konu sinni, Guðrúnu Erlu Skúladóttur (f. 1935, d. 2017). Þau hófu búskap fyrst á Kársnesi í Kópavogi, síðan í Efstasundi og loks í Byggðarenda í Reykjavík. Bjuggu þau í byrjun við lítil efni, en vegna dugnaðar og útsjónarsemi tókst þeim að rétta vel úr kútnum með árunum. Þau eignuðust þrjár dætur, Þorbjörgu Huldu, Guðrúnu og Sigrúnu, sem lifa föður sinn. Afabörnin urðu ellefu og langafabörnin eru mörg og fer enn fjölgandi.

Jói var afskaplega laghentur, smíðaði margan kostagripinn sem húsgagnasmiður og gekk almennt fumlaust til verka og var að má segja þúsundþjalasmiður, útsjónarsamur og úrræðagóður. Síðustu starfsárin vann hann mest við innrömmun fyrir Hannyrðaverslunina Erlu á Snorrabraut sem Guðrún kona hans rak með miklum myndarbrag. Það átti fyrir honum að liggja að missa konu sína eftir erfið veikindi. Hann hjúkraði henni svo lengi sem honum var unnt og var umhyggja hans og úthald aðdáunarverð. Guðrún var stóra ástin í hans lífi og var missir hennar honum mjög erfiður. Þau voru samrýnd hjón, góðir félagar og ferðuðust mikið bæði innan lands og utan. Sagði Jói síðar að það væru fá svæði í heiminum sem þau hefðu ekki heimsótt.

Hélt hann heilsu að mestu þar til undir lokin að fór að draga af honum. Andlega var hann ótrúlega skýr og viðræðugóður fram á síðasta dag.

Jói er einn af fjölmörgum Íslendingum sem hafa staðið utan sviðsljóssins, en þó unnið sín störf með vandvirkni og af heilindum. Hann var almennt fremur fámáll og hlédrægur, en átti til góðan húmor og gat verið hrókur alls fagnaðar ef svo bar við.

Það eru margar minningar sem leita á hugann nú þegar tjaldið er fallið og hann hefur, eins og sagt er, sameinast látnum ástvinum sínum. Kristin trú var honum stuðningur á erfiðum tímum. Síðustu árin ræddum við gjarnan sameiginlegt áhugamál okkar sem var sagan. Skrifaði hann nokkrar fróðlegar og vel skrifaðar greinar um ættingja sem hann vildi tryggja að afkomendur sínir vissu eitthvað um. Hafðu þökk fyrir samveruna, Jói.

Einar Guðmundsson.

Nú höfum við kvatt hann afa í hinsta sinn. Í einni af heimsóknunum til hans á síðastliðnum vikum rifjuðust upp margar minningar um hann og ömmu þegar við spjölluðum um liðna tíma. Það var alltaf einhver ævintýrablær yfir þeim. Þau ferðuðust á fjarlægar slóðir og komu heim með alls kyns minjagripi. Húsið þeirra var líka eins og ævintýraland, með garðstofu, litlu glerhúsi með kaktusum í, tréfíl sem mátti sitja á, stórri klukku og alls konar stólum, skápum og munum. Þau áttu líka myndbandsupptökuvél, sem var ekki algengt á þeim tíma, og það var svo merkilegt að horfa á myndböndin úr ferðunum þeirra, sum í fókus, önnur alls ekki. Afi dró gjarnan fram harmonikkuna þegar við komum í heimsókn eða setti plötu á fóninn og dansaði við okkur og síðar börnin mín. Hann átti oft appelsínur og þegar við komum skar hann hýðið af toppnum, tróð nokkrum sykurmolum ofan í miðjuna á appelsínunni og kreisti hana síðan vel. Síðan fengum við að sjúga dísætan appelsínusafann, það var toppurinn á tilverunni! Það var svo í einni næturgistingunni hjá ömmu og afa sem ég komst að því að jólasveinarnir væru ekki til þegar ég sá afa lauma vínylplötu í skóinn minn. Ég man líka hvað mér þótti gaman að koma á verkstæðið hans í Skútuvoginum þar sem hann sýndi mér verkfærin sín og mér fannst saglyktin svo góð. Hann var traustur og góður afi, afskaplega verklaginn, með sterkar skoðanir, fylgdist vel með gangi mála í samfélaginu og honum féll aldrei verk úr hendi.

Þegar ég var í læknadeild kom afi stundum og sótti mig, ég fékk raspsteikta ýsu (með óvanalega háu og góðu hlutfalli af raspi/ýsu) hjá þeim ömmu og horfði svo með þeim á kvöldfréttir. Svo skutlaði afi mér aftur til baka að læra. Við heyrðumst síðan reglulega í síma þau ár sem ég bjó í Svíþjóð, en afi var ekki maður margra orða og símtölin yfirleitt í styttri kantinum nema ég malaði þeim mun meira, en alltaf passaði afi upp á að þakka fyrir bréfin frá langafabörnunum og spyrja hvenær við ætluðum að flytja aftur til Íslands. Þegar við svo loks fluttum heim kom hann stundum í mat til okkar, keyrði hingað niður eftir löturhægt og lagði yfirleitt á ská í tvö stæði. Hann var góður að teikna og gerði skondnar myndir handa langafabörnunum. Í einni af heimsóknunum til hans í janúar horfðum við saman á það í sjónvarpinu þegar hraunið náði fyrsta húsinu í Grindavík og afa varð mikið um. Hann var ánægður og þakklátur síðustu dagana sína þegar hann lá á Landakoti, sagði að hann væri með útsýni yfir fallegustu húsin í Reykjavík, og fékk friðsælt andlát.

Brynhildur Tinna.