Mokstur Getur verið drjúgur kostnaðarliður hjá sveitarfélögum.
Mokstur Getur verið drjúgur kostnaðarliður hjá sveitarfélögum. — Morgunblaðið/Ómar
Ekki fá allir Grindvíkingar þjónustu eins og snjómokstur um þessar mundir en þeir búa víða um land eftir að Grindavík var rýmd. Dæmi eru um að Grindvíkingar búi í frístundahúsum (sumarbústöðum) sem eru í þeirra eigu eða eru leigð

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ekki fá allir Grindvíkingar þjónustu eins og snjómokstur um þessar mundir en þeir búa víða um land eftir að Grindavík var rýmd. Dæmi eru um að Grindvíkingar búi í frístundahúsum (sumarbústöðum) sem eru í þeirra eigu eða eru leigð. Þurfa þeir í mörgum tilvikum að komast í og úr skóla eða vinnu.

„Þó nokkuð margir Grindvíkingar eru í frístundahúsum í mismunandi byggðum í Grímsnes- og Grafningshreppi en ég veit ekki hversu margir. Þetta eru fjölskyldur og ég veit til dæmis um börn frá Grindavík sem sækja skóla niður á Selfoss. Ég veit til þess að sveitarfélagið hafi verið spurt hvort það vilji leggja eitthvað af mörkum varðandi snjómokstur vegna komu þessa fólks. Enn sem komið er hefur sveitarfélagið ekki orðið við því,“ segir Kjartan Eggertsson, formaður félags frístundahúsaeigenda í Hraunborgum í Grímsnes- og Grafningshreppi.

„Ég er auðvitað ekki talsmaður Grindvíkinga en ég hef spurt sveitarfélagið út í þessi mál en hvorki sveitarfélagið né sveitarfélagið Grindavík virðast vita hvort Grindvíkingar séu í Grímsnes- og Grafningshreppi. Ekki virðist vera skrá fyrir það. Eins og þetta blasir við mér er þetta eitt af þeim verkefnum sem þarf að vinna vegna þessara eldsumbrota. Grímsnes- og Grafningshreppur segir að viðræður standi yfir við Samband íslenskra sveitarfélaga um snjómokstur en ef menn ætla að koma til móts við Grindvíkinga, eins og talað er um, þá þarf það að gerast strax. Ekki síst í þessum mikla snjó sem er núna,“ segir Kjartan en eins og frá hefur verið greint hefur snjóað meira á Suðurlandi en stundum áður.

600 milljónir á ári

Morgunblaðið sendi fyrirspurn á Grímsnes- og Grafningshrepp varðandi snjómokstur fyrir Grindvíkinga í frístundahúsum og var vísað á Samband íslenskra sveitarfélaga.

„Frístundahúsaeigendur hafa lengi vonast til þess að sveitarfélögin sem eru með frístundahúsabyggðir leggi eitthvað fram á móti fasteignaskattinum sem öllum er skylt að greiða. Ekki er heimilt að eiga lögheimili í frístundahúsi eins og fólk þekkir. Samt sem áður var samþykkt að þeir sem eiga frístundahús greiði fasteignaskattinn og þá er ég ekki einungis að tala um fasteignagjöldin sem segja má að séu greiðsla fyrir þjónustu. Fasteignaskatturinn er mikill og er sem dæmi 95 þúsund krónur á hvern íbúa í Reykjavík. Fasteignaskatturinn á hvern íbúa í Grímsnes- og Grafningshreppi er hins vegar 1,3 milljónir,“ segir Kjartan og segir þetta skila sveitarfélaginu hundruðum milljóna króna árlega.

„Þeir treysta sér ekki til eða vilja ekki nýta þessa fjármuni í þjónustu þeirra sem borga að neinu leyti en segja að vísu að þetta sé að einhverju leyti notað í sameiginlegan rekstur eins og slökkvilið. Það eru líklega smámunir því að sveitarfélagið fær 600 milljónir á ári í fasteignaskatt sem að stærstum hluta kemur frá eigendum frístundahúsa enda eru sennilega yfir 3 þúsund frístundahús í sveitarfélaginu.“

Höf.: Kristján Jónsson