„Ég ætla ekki núna í heimsreisu en nú er tími fyrir innri ferðalög; að sækja námskeið, að jarðtengja mig og hlúa að mér. Ég þarf að endurhugsa. Þetta er algjört „bliss“ og ég hlakka svo til!“ segir leikkonan Halldóra Geirharðsdóttir.
„Ég ætla ekki núna í heimsreisu en nú er tími fyrir innri ferðalög; að sækja námskeið, að jarðtengja mig og hlúa að mér. Ég þarf að endurhugsa. Þetta er algjört „bliss“ og ég hlakka svo til!“ segir leikkonan Halldóra Geirharðsdóttir. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú er ég svakalega spennt fyrir svo mörgu. Ég er á tímamótum og ég hef það á tilfinninginni að eitthvað gott komi til mín, en mín aðal áskorun er vera meira með sjálfri mér og ég segi nei við vinnu daglega.

Á kaffihúsi einu á Skólavörðustíg situr leikkonan Halldóra Geirharðsdóttir í notalegu horni með kaffið sitt. Þar er gott næði til að spjalla um líf og tilveru þessarar vinsælu leikkonu sem heillað hefur þjóðina í fjölmörgum eftirminnilegum hlutverkum; á sviði, í sjónvarpi og í kvikmyndum. Halldóra stendur nú á tímamótum; hún er búin að segja upp í Borgarleikhúsinu eftir tæpa þrjá áratugi og einnig hefur hún sagt starfi sínu lausu sem fagstjóri sviðslistabrautar í Listaháskólanum. Halldóra viðurkennir að hún þurfi á hvíld að halda, enda hefur hún nú leikið í yfir 200 sýningum á Níu lífum, auk annarra verkefna. Nú er komið að nýjum kafla; framtíðin er óskrifað blað og Halldóra er spennt eins og lítið barn á jólum.

Prófessorinn rannsakar leikkonuna

Halldóra á eftir að ljúka verkefnum í LHÍ núna á vorönn þótt hún sé hætt sem fagstjóri og enn á hún eftir að leika í örfáum sýningum á Níu lífum í vor. En með hækkandi sól fer ábyrgðarhlutverkum hennar fækkandi og ætlar Halldóra þá að njóta frelsisins. Auk vinnunnar í Borgarleikhúsinu og Listaháskólanum hefur Halldóra unnið að þáttum fyrir Sjónvarp Símans sem fjalla um innblástur og verða sýndir í febrúar. Þeir heita einfaldlega Í leit að innblæstri en Halldóra vann þá í kjölfarið á rannsókn sem hún gerði í skólanum.

„Prófessorinn Halldóra hefur rannsóknarskyldu, þannig kom þessi þáttargerð inn í líf mitt. Ég rannsakaði Níu líf því ég vissi þegar ég var búin að leika í fimmtíu sýningum að ég ætti eftir örugglega hundrað í viðbót. Ég vildi rannsaka hvernig ég gæti afhent jafn verðmætan performans í 150 sýningum og fór að taka af mér myndbönd bæði fyrir og eftir sýningar,“ segir hún og segir þáttagerðarmanninn Snorra Sturluson hafa hringt í sig og beðið sig að vera umsjónarmann þáttar um innblástur.

„Ég sagði honum að ég væri einmitt að rannsaka innblástur; hvernig ég gæti fyllt mig innblæstri og endurtekið eitthvað svona rosalega oft. Það var eins og þetta samkomulag hefði verið skrifað í skýin. Síðan eru liðin tvö ár og ég er búin að taka öll þessi vídeó og hef einnig verið að skoða hvað það er sem veitir okkur innblástur, hvað er innblástur og hvernig fáum við hann? Ég er búin að komast að ýmsu, eins og að innblástur er eitt en úthald er annað. En til að hafa úthald þarftu innblástur. Prófessorinn er að gera þessa sjónvarpsþætti með rannsóknum á leikkonunni sem leikur í Níu lífum,“ segir Halldóra og bætir við að í þáttunum sex séu viðtöl við 18 leikmenn auk ýmissa sérfræðinga.

„Ég er stanslaust í leit að innblæstri,“ segir Halldóra og segir margt fólk hafa veitt sér innblástur á lífsleiðinni; bæði kennara og listafólk.

„Það hefur enginn áhuga á mér, Dóru, á sviðinu, en fólk hefur áhuga á hinni sameiginlegu orku sem ég sting í samband við, sem minn æðri máttur er í sambandi við, sem streymir í gegnum mig til þín og þú tengir við þinn æðri mátt. Þegar allt kemur til alls er ég í raun alltaf að leita að erindinu; ég get ekki staðið á sviði nema að eiga erindi við áhorfendur. Þess vegna hef ég haft úthald í þessa Bubba-sýningu, því erindið í þeirri sýningu er svo rosalega öflugt.“

Erfiðara að kveikja neistann

Söngleikurinn um líf Bubba hefur verið mikið ævintýri að sögn Halldóru, en fyrir þá sem ekki vita leikur hún hlutverk Bubba; einn af níu leikurunm sem hann túlka.

„Okkar kynslóð er búin að hlusta á Bubba frá því að við munum eftir okkur, þannig að við tökum ekki einu sinni eftir því. Þessi lög eru hluti af taugakerfinu okkar. Þess vegna eru lögin hans heilagur kaleikur,“ segir hún og að yngri kynslóðir hlusti einnig á Bubba.

„Hann er eins og veðrið; hann er bara þarna. Hann leyfir okkur að nota sig sem farartæki til að segja miklu stærri sögu; sameiginlegu sögu manneskjunnar, þjóðarinnar og upprisunnar. Og hann er svo gjöfull að hann leyfir Óla að fara með þetta eins og hann vill og Óli leyfir svo okkur að fara með efnið eins og við viljum. Þetta er fullkomið samstarf listamanna,“ segir Halldóra, en Ólafur Egill Egilsson skrifaði handritið og leikstýrði.

Eftir 233 sýningar á Níu lífum viðurkennir Halldóra að þrátt fyrir sterkan boðskap sýningarinnar sé hún orðin þreytt og að sífellt verði erfiðara að finna neistann.

„Ef ég líki sjálfri mér við hús og hjartað keyrir mig áfram við að koma erindinu til skila, þá er ég að verða búin með viðinn sem ég var búin að safna við húsið. Nú þarf ég aðeins að fara að fara aftur út í skóg að sækja meiri eldivið til að geta sett aftur inn í ofninn. Þegar maður kveikir aftur og aftur í sama drumbnum er maður lengur að ná upp neista,“ segir hún og að myndböndin sem hún taki upp fyrir og eftir sýningu sýni glögglega að oft er hún buguð áður en hún stígur á svið.

„Þetta er starf leikarans og þetta vitið þið ekkert. Þegar við mætum upp í leikhús erum við oft búin að vera í öðrum vinnum, gefa börnunum að borða og við erum ekkert alltaf í stuði. En sem fagmaður verður maður samt að ná að kveikja á orkunni,“ segir hún og nefnir að vissulega geti verið þreytandi fyrir leikara að leika sama hlutverkið svona oft.

„Ég hef aldrei lent í svona áskorun, þó ég hafi leikið Sex í sveit og Ormstungu um 140 sinnum. Maður fer í hringi og þarf að enduruppgötva verkið og dýptina í því,“ segir hún og bætir við að sýningin taki einnig gríðarlega á líkamlega.

„Í haust reyndi ég að halda allri annarri vinnu frá mér svo ég ætti líkamlega fyrir sýningunum,“ segir Halldóra, en eins og þeir vita sem séð hafa Níu líf er Halldóra í afar kraftmiklu og krefjandi hlutverki og þeysist um allt sviðið í dansi og söng.

„Það eru svona tíu ár síðan ég byrjaði að hugsa, eins mikið og ég elska leikhúsið, að ég vildi að ég þyrfti ekki að fara oft á svið og búa til þessa sprengiorku sem þarf. Þetta fannst mér ekkert mál til svona 45 ára aldurs en nú er ég orðin 55 ára. Þess vegna fór ég inn í Listaháskólann því mig langaði meira í þessa hversdagsorku; ekki að ég þyrfti alltaf að skrúfa upp sviðsveruna. Ég er rosalega stolt af þessari sýningu en núna í janúar 2024 er ég búin með eldiviðinn.“

Að stökkva af hringekjunni

Halldóra ætlar alls ekki að hætta að vera leikkona en segist nú vilja hleypa öðru að í lífi sínu.

„Ég hef oft líkt fastráðningu við leikhús við að vera á hringekju; það eru aðrir sem ráða á hvaða leiktæki ég sit á næsta leikári; á gíraffa, fíl eða litlum bíl. Ég er yfirleitt mjög spennt, en hef samt mikla þörf fyrir að stíga út af hringekjunni reglulega. Ég steig út af henni þegar ég eignaðist börn. Ég steig út af henni þegar ég fór í árslanga heimsreisu. Ég fór einu sinni til Frakklands í hálft ár og ég steig út af henni þegar ég fór að vinna í Listaháskólanum,“ segir Halldóra og segir tilbreytinguna nauðsynlega og að oft verði hliðarsporin eftirminnilegust.

„Ég man þegar ég var sjö ára þá héldum við fjölskyldan jól í sumarbústað með vinum. Við spiluðum blak alla daga. Það eru eftirminnilegustu jól lífs míns,“ segir hún.

„Ég er ekkert hætt að leika en hef ofboðslega þörf fyrir að gera eitthvað öðruvísi og elska það. Þess vegna var heimsreisan algjör alsæla. Hún er það merkilegasta sem ég hef gert í lífi mínu,“ segir hún, en hún og eiginmaðurinn fóru árið 2013 með tvö börn, þá sjö og tíu ára, um allan heim.

„Við vorum ennþá kóngurinn og drottningin í lífi þeirra og á þessum aldri vilja þau helst gera allt með foreldrunum,“ segir Halldóra og að þau hafi spilað ferðina eftir eyranu; oft hafi þau ákveðið að dvelja lengur á einum stað ef þeim leið vel þar.

„Börnin hægja á tempóinu og það er rosalega gott, því þau hafa ekki úthald í eins mikið flandur,“ segir Halldóra og segir ferðina hafa byrjað í Ekvador þar sem þau dvöldu í þrjá mánuði.

„Þar var hægt að fara niður að Kyrrahafinu og inn í Amazon-frumskóginn og við flugum til Galapagos. Þaðan fórum við til Perú, Páskaeyja og svo vorum við í Frönsku Pólýnesíu í þrjá og hálfan mánuð. Þar fóru krakkarnir í skóla og ég var að snorkla sem er mesta núvitund sem ég hef komist í. Þaðan fórum við til Nýja-Sjálands, Ástralíu, Tasmaníu, Víetnam, Kambódíu, Taílands og enduðum mánuð í Frakklandi,“ segir Halldóra. Þau hjón hafi „gefið sér leyfi“ til að skulda eftir ferðina sem jafngilti MBA-námi í HR.

Geng aftur á bak til framtíðar

Fyrirhugað leyfi frá störfum og ábyrgð er á næsta leiti en Halldóra segist ekki vita hvað það muni standa lengi yfir.

„Ég ætla ekki núna í heimsreisu en nú er tími fyrir innri ferðalög; að sækja námskeið, að jarðtengja mig og hlúa að mér. Ég þarf að endurhugsa. Þetta er algjört „bliss“ og ég hlakka svo til! Ég veit ekkert hvernig ég ætla að sjá fyrir mér, en ég hlakka svo til,“ segir hún og hlær.

„Ég er að búa til rými fyrir önnur tækifæri því þegar ég er á hringekjunni segi ég alltaf já,“ segir Halldóra og tekur fram að hún hafi verið ákaflega heppin að vera listamaður með öruggt starf í öll þessi ár, en nú sé hins vegar komið nóg í bili.

„Ég ætla að stíga út úr örygginu sem fæstir listamenn búa við,“ segir hún og er spennt fyrir óvissunni.

„Ég tek með mér visku frá Pólýnesíu en þar tala menn um að ganga aftur á bak til framtíðar. Þeir segja að framtíðin sé fyrir aftan þig þannig að þú gengur aftur á bak af því þú veist ekkert um hana, og af hverju þá að hugsa um það sem þú veist ekkert um? Fyrir framan þig er allt sem þú getur verið þakklátur fyrir; alla reynsluna, allt fólkið þitt og forfeður þína,“ segir hún.

„En ég hef engar áhyggjur; ég er á besta stað í heimi. Við erum blessuð hér á Íslandi.“

Halldóra segist hugsa mikið um andleg málefni og hefur ávallt trúað á æðri mátt.

„Ég trúi því að við séum öll eitt – einu sinni var það hugmynd en hugmyndin er komin ofan í skrokkinn á mér og ég hef tilfinninguna fyrir því. Og veistu, ég hef bara enga þörf fyrir að trúa ekki. Ég hef verið andlega leitandi alveg frá því ég man eftir mér. Þú gætir sagt mér að þú kæmir úr framtíðinni og værir raunverulega geimvera og ég myndi bara segja „guð minn góður, en gaman!“. Þannig finnst mér heimurinn miklu skemmtilegri og stærri. Það er endalaust hægt að dansa inni í þessum heimi.“

Er ekkert verri en strákarnir

Er erfitt fyrir konur á miðjum aldri og eldri að fá bitastæð hlutverk eða hefur það breyst?

„Ég er 55 og hef bara leikið eitt aðalhlutverk í bíómynd. En nú þarf ég að skrifa og er að skrifa handrit að bíómynd og ég skrifa með sjálfa mig í huga fyrir aðalhlutverkið. Svo kemur bara í ljós hvort handrit verði að bíómynd. Það get ég ekki vitað en það er mjög gaman að skrifa – þannig að þetta er sannarlega ekki tapaður tími. En ef ég vil fá aðalhlutverk verð ég að skrifa það sjálf því það er enginn að skrifa fyrir mig. Ég sé þetta sem hluta af því að taka ábyrgð á framtíð minni,“ segir hún og nefnir að hún hafi áttað sig á því í Cannes að mögulega þyrfti hún sjálf að búa sér til hlutverk.

„Þetta fattaði ég ekki fyrr en ég sá Kona fer í stríð á stóra tjaldinu í Cannes og hugsaði „heyrðu, ég er nú bara ansi góð!“. Ég er ekkert verri en strákarnir og það er ekkert ástæðan fyrir því að þeir fengu góð hlutverk en ég engin. Það var bara vegna þess að það var aldrei hlutverk fyrir mig. Síðan þá hef ég verið að berjast við að skrifa og ég hef gaman af því,“ segir Halldóra og vill ekki gefa meira upp um efni myndarinnar en er spennt að skapa sér sjálf tækifæri.

„Ég á kannski 15 góð ár eftir sem leikkona, eða fleiri ef ég verð eins og Kristbjörg Kjeld! Ég íhuga hvar ég verði þegar þessum árum lýkur. Verð ég bitur 67 ára af því að síðustu árin á hringekjunni voru ófullnægjandi? Eða þori ég núna að stíga inn í og taka ábyrgð á því?“ spyr hún sjálfa sig.

„Ég verð að taka ábyrgð á minni hamingju og lífsfyllingu. Ég er hamingjusöm en er nú að leita að því hvað geri mig glaða og er mjög upptekin af þessu með sjálfsábyrgðina.“

Eitthvað gott kemur til mín

Ertu í miðlífskrísu?

„Alveg örugglega! Ég er búin toppa mig; ég lék í Kona fer í stríð og í Bubba og hvaðan fer ég þaðan? Ég hélt að eftir Kona fer í stríð fengi ég hlutverk í útlöndum, því ég fékk verðlaun og mikla athygli en síminn hringir ekki. Ég gat ekki losnað við að hugsa um hvað tæki við næst, eftir Níu líf. Mér fannst eins og ég yrði að gera eitthvað stærra til að stækka mig sem listamann. Þetta var mjög óþægileg tilfinning sem ég kunni ekki við og þá læddist að mér sú hugsun að næsta stækkun ætti að vera inn á við. Mér finnst ég rosalega hugrökk að segja upp föstum samningi leikara á þessum aldri, enda fáar fastar stöður til fyrir leikara. Ég er ánægð með mig, að sleppa öryggislínunni minni. En það kemur ekkert annað til greina,“ segir hún og brosir.

„En nú, þegar ég er búin að vinna tvöfalt í tæplega þrjú ár, hlýt ég að geta lifað launalaust í einhverja mánuði því þar áður hafði leikhúsið verið lokað vegna covid og ég var á atvinnuleysisbótum. Eftir þannig tímabil segir maður já við öllu til að moka ofan í holur og vera viss um að hafa vinnu,“ segir Halldóra og nefnir að sér hafi þótt fyndið að sjá nafn sitt í tekjublaðinu sem hæstlaunaða leikkona landsins í hitteðfyrra.

„Ég hló bara því ég hafði aldrei verið með eins háar tekjur en aldrei verið með eins háan yfirdrátt því ég verðlaunaði mig svo mikið. Ég var á fullkomnum yfirsnúningi og sagði já við öllu eftir covid því þar áður hafði leikhúsið verið lokað og fjárhagurinn eftir því,“ segir hún og segist hafa bruðlað duglega.

„Ég fór í sjálfsverðlaunaham, átti allt skilið og verðlaunin urðu mjög mikil. Það er ár síðan ég horfðist í augu við þetta; þetta hangir allt saman, að hægja á, fara inn á við og njóta þess sem er. Ég hef ekki keypt flík síðan en það eru auðvitað öfgar í hina áttina,“ segir Halldóra og segist nú vilja eiga fyrir flugmiða sem keyptur er.

Halldóra getur ekki beðið eftir að njóta frelsisins.

„Nú er ég svakalega spennt fyrir svo mörgu. Ég er á tímamótum og ég hef það á tilfinningunni að eitthvað gott komi til mín, en mín aðaláskorun er að vera meira með sjálfri mér og ég segi nei við vinnu daglega. Nú er ég að endurkenna mér að vera til og að elska óvissuna. Ég er samt spennt fyrir öllu og kannski er það minn stærsti óvinur.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir