Rúnir Óslitin hefð á Íslandi.
Rúnir Óslitin hefð á Íslandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í júlí 1969, þegar þeir Armstrong og Aldrin spígsporuðu á tunglinu, var Þórgunnur Snædal á ferð um sænskar sveitir með móður sinni. Nærri Gripshólmshöll við vatnið Mälaren ráku þær mæðgur augun í stein með rúnaristu á fornsænsku: Tola let ræisa stæin þennsa at sun sinn Harald, broður Ingvars

Tungutak

Þórhallur Eyþórsson

tolli@hi.is

Í júlí 1969, þegar þeir Armstrong og Aldrin spígsporuðu á tunglinu, var Þórgunnur Snædal á ferð um sænskar sveitir með móður sinni. Nærri Gripshólmshöll við vatnið Mälaren ráku þær mæðgur augun í stein með rúnaristu á fornsænsku:

Tola let ræisa stæin þennsa at sun sinn Harald, broður Ingvars.

Þæir foru drengila/fjarri at gulli/ok austarla/ærni gafu.

Dou sunnarla/a Serklandi.

„Þetta lítur nú bara út eins og íslenska!“ varð mömmu Þórgunnar að orði. Á íslensku nútímamáli væri textinn svona: „Tóla lét reisa stein þennan eftir son sinn Harald, bróður Ingvars. Þeir fóru drengilega fjarri eftir gulli ok gáfu erni austarlega; dóu sunnarlega á Serklandi.“ Ristan er frá 11. öld og greinir frá Serklandsferð Yngvars víðförla, en um hann var skrifuð saga á Íslandi um 1200. „Sennilega réðust örlög mín á þessari stundu,“ segir Þórgunnur í formála að bókinni Rúnir á Íslandi, sem kom út í haust hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Ung að árum hélt Þórgunnur til Svíþjóðar til að læra til meinatæknis. Eftir reynsluna á Gripshólmi sneri hún við blaðinu, hóf nám í norrænum fræðum og starfaði svo í fjóra áratugi sem rúnafræðingur hjá sænsku fornminjastofnuninni. Hún er hafsjór af fróðleik, ekki bara um sænskar rúnir heldur líka íslenskar rúnir sem fjallað er um í þessari efnismiklu en einkar aðgengilegu og fallega myndskreyttu bók. Sérstaka athygli vekja ljósmyndir af fræðikonunni við rúnastörf í sænskri og íslenskri sumarblíðu.

Það var einmitt einn sólríkan dag sumarið 1995 að Þórgunnur fór enn í smávegis ferðalag með móður sinni, að þessu sinni um norðlenskar sveitir. Á Grenjaðarstað rak hún augun í stuðlabergsdrang, hálfsokkinn í jörð, með rúnaletri rituðu á miðri 15. öld:

Hér hvílir Sigríð Hrafnsdóttir, kvinna Bjarnar bónda Sæmundssonar.

Guð friði hennar sál til gróðrar vonanar. Hver er letrið les, bið fyrir blíðri sál, syngi signað vers.

Ekki er að orðlengja að Þórgunnur fékk styrk frá sænsku vísindaakademíunni til að rannsaka íslenskar rúnaristur. Afraksturinn af því mikla og merkilega starfi liggur nú fyrir. Í bókinni eru skráðar 108 tölusettar rúnaristur, 55 á legsteinum eða í hellum og 53 á gripum af ýmsu tagi, auk rúna í handritum. Elstu risturnar eru frá 10. og 11. öld og þær yngstu frá síðari hluta 19. aldar. Fram kemur að risturnar, bæði á steinum og gripum, dreifast nokkuð jafnt um alla landshluta en eru færri á Austurlandi. Af eldri munum er aðeins einn austfirskur, Valþjófsstaðahurðin fræga.

Þekking á rúnum barst með landnámsmönnum til Íslands. Ein elsta rúnarista á Íslandi er á spýtubroti úr rúnakefli frá 10. eða 11. öld sem fannst í Viðey 1993. Rúnirnar eru óræðar að öðru leyti en því að síðasta orðið virðist vera ást. Það væri skemmtilegt ef rétt reyndist að elsta orð í íslenskri ritheimild minnti á að ástin er sterkasta aflið.