Smitberinn
Halldór Armand
halldor.armand@
gmail.com
Mím (e. meme) á internetinu þar sem yngri kynslóðir gera grín að efnahagslegum veruleika sínum í samanburði við þann sem foreldrar þeirra bjuggu við á sama aldri geta verið mjög fyndin. En að baki hlátrinum býr auðvitað sársauki og stundum líður mér eins og fátt gefi betri innsýn í hugarheim ungs fólks á heimsvísu en akkúrat þessi mím. Meira og minna alls staðar blasir við sami veruleiki. Það er ómögulegt að eignast heimili nema með utanaðkomandi aðstoð. Það skiptir sama og engu máli hvað þú ert með í laun eða hvað þú leggur hart að þér. Áhrifamesta breytan í stöðu þinni í lífinu til framtíðar er einfaldlega hvað foreldrar þínir eiga.
Nú sé ég fyrir mér eldri lesendur slá handarbakinu í blaðið og segja: „Hvurslags ósvífni! Ertu að segja að ég hafi ekki þurft að leggja neitt á mig til að eignast þak yfir höfuðið?“ Alls ekki. En munurinn er sá að núna breytir það í langflestum tilvikum engu hvað fólk er til í að leggja hart að sér. Frá árinu 2010 hefur húsnæðisverð í Evrópu rokið upp um næstum 50% að meðaltali. Það er hækkun sem bítur hressilega. Á Íslandi erum við hins vegar sér á báti; hér hefur verðið hækkað um 225% á sama tímabili. Evrópa á ekki séns í okkur. Þú getur reynt að leggja fyrir, þú getur reynt að vinna meira, þú getur reynt að kreista út hærri laun, en þú átt aldrei breik í þessum leik nema mamma og pabbi hjálpi þér. Stéttaskiptingin sem verður til er augljós.
Fjármagnsvæðing heimila fólks síðustu áratugi er sorgleg og ill þróun. Kapítalismi hefur þannig gjörsamlega svikið loforð sitt um bjartari morgundag gagnvart yngri kynslóðum; lífskjör þeirra verða verri en þeirra eldri. Tækniþróun hefur vissulega leitt til verðhjöðnunar og framfarirnar liggja þar; sjónvörp, tölvur og símar eru miklu ódýrari og betri en þau voru. En það er lítil huggun að eiga sjálfvirka hátækniryksugu þegar þú getur ekki einu sinni látið þig dreyma um að eignast heimili til að þrífa.
Fólk í leit að sínu fyrsta heimili – heimili sem er 225% dýrara en fyrir þrettán árum – þarf að keppa um sömu íbúðina við fjárfesta sem ætla ekki að búa þar. Það er auðvelt að kenna gráðugri auðstétt og takmörkuðu framboði um vandann. En það má líka alveg spyrja sig hvað það segir um efnahagslegan veruleika okkar – sjálft peningakerfið – að það þyki stórkostlega góð fjárfesting að kaupa heimili sem þú hefur engin not fyrir.
Stór hluti af vandanum er augljóslega sá að það er enginn hvati í því að spara reiðufé og fólki er refsað fyrir skynsemi. Frá 2008 hafa verið lægstu vextir í 5.000 ár á heimsvísu og seðlabankar hafa sprautað óheyrilegu magni af nýjum peningum inn í kerfið til að halda blóði þess flæðandi – svona eins og að gefa uppvakningi amfetamín. Þetta geta þeir vegna þess að peningar nútímans eru bara sjónhverfingar, hafa engin tengsl við nein alvöru verðmæti, og þess vegna er hægt að prenta endalaust af þeim. Seðlaprentun þynnir út sparnað fólks – án þess að það taki beint eftir því – og þess vegna leita peningar í eftirsótta hluti sem eru til í takmörkuðu magni, eins og heimili fólks. Það veldur því að eignaverð rýkur upp, eins og það hefur gert án afláts frá 2008. Fólkið sem hagnast mest er þeir sem eru næst kjötkötlunum, fjármálaelítan og stjórnmálastéttin.
Yngri kynslóðir eru mjög áhættusæknar í fjármálum, eins og Gamestop-ævintýrið sýndi vel. Þar framdi stór hópur klinkfjárfesta, sem höfðu ráðið ráðum sínum á spjallborði á netinu, eins konar fjárhagslega kamikaze-árás á vogunarsjóði á Wall Street með því að kaupa upp hlutabréf tölvuleikjaverslunar. Ungt fólk braskar líka með rafmyntir. Er það of vitlaust til að skilja áhættuna? Nei, það skilur leikinn fullkomlega! Ungt fólk finnur á eigin skinni að kerfið virkar ekki lengur og er í leit að björgunarbát til að flýja það. Áhættan er ekki óvinur þess. Hún er eina von þess.