Svíþjóð Eggert Aron Guðmundsson gerði fjögurra og hálfs árs samning við sænska úrvalsdeildarfélagið Elfsborg og ætlar sér Svíþjóðarmeistaratitil.
Svíþjóð Eggert Aron Guðmundsson gerði fjögurra og hálfs árs samning við sænska úrvalsdeildarfélagið Elfsborg og ætlar sér Svíþjóðarmeistaratitil. — Ljósmynd/Elfsborg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Garðbæingurinn Eggert Aron Guðmundsson skrifaði á dögunum undir fjögurra og hálfs árs samning við sænska félagið Elfsborg. Eggert, sem fagnar tvítugsafmæli sínu eftir viku, kemur til Elfsborg frá Stjörnunni, þar sem hann er uppalinn og hefur leikið allan ferilinn til þessa

Svíþjóð

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Garðbæingurinn Eggert Aron Guðmundsson skrifaði á dögunum undir fjögurra og hálfs árs samning við sænska félagið Elfsborg. Eggert, sem fagnar tvítugsafmæli sínu eftir viku, kemur til Elfsborg frá Stjörnunni, þar sem hann er uppalinn og hefur leikið allan ferilinn til þessa.

„Þetta er mjög flott. Félagið er flott og leikmenn hafa tekið vel á móti mér. Þetta lofar mjög góðu,“ sagði Eggert um nýja félagið í samtali við Morgunblaðið.

Miðjumaðurinn sló í gegn á síðasta ári, bæði með Stjörnunni og yngri landsliðum Íslands. Var hann t.a.m. besti leikmaður Íslandsmótsins samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins og var áhuginn á Eggerti mikill eftir síðustu leiktíð.

„Þetta var svolítill fjöldi sem sýndi mér áhuga en ég er ánægður með þessa ákvörðun að velja Elfsborg. Þetta er félag sem er á mikilli uppleið og endaði í öðru sæti í fyrra. Þetta félag hefur tekið stór skref undanfarin ár og ég fíla að það sýndi mér meiri áhuga en önnur félög.“

Frábær þjálfari

„Þjálfarinn er síðan frábær og árangurinn undanfarið sýnir hvað hann er góður. Hann hafnaði stórum tilboðum frá öðrum félögum í sumar til að vera áfram með Elfsborg. Það heillaði mig og átti þátt í að ég valdi Elfsborg,“ útskýrði Eggert, en hinn 45 ára gamli Jimmy Thelin hefur verið þjálfari Elfsborg frá árinu 2018 og náð góðum árangri.

Eggert var hrifinn af umgjörðinni sem hann upplifði hjá Stjörnunni, en Elfsborg er vissulega stærra félag.

„Það er allt mjög gott í Garðabænum og umgjörðin er í hæsta gæðaflokki og ekki mikið síðri en í Elfsborg. Þetta er samt öðruvísi í Elfsborg, það eru t.d. alltaf tveir sjúkraþjálfarar og tveir styrktarþjálfarar á staðnum. Það er svo farið meira í smáatriðin á æfingum hér en með Stjörnunni,“ sagði hann.

Eins og áður kom fram gerði Eggert fjögurra og hálfs ár samning og er hann ánægður með langan samning. „Lengd samningsins skiptir ekki öllu máli. Ungir leikmenn skrifa oftast undir 4-5 ára samninga núorðið. Ég er sáttur við þennan samning.“

Sveinn Aron Guðjohnsen og Hákon Rafn Valdimarsson eru farnir frá Elfsborg en þeir léku stórt hlutverk í velgengni liðsins á síðustu leiktíð. Andri Fannar Baldursson kom svo á miðju síðasta tímabili og hann verður hjá félaginu á komandi leiktíð.

„Við Andri Fannar erum góðir félagar. Ég fór ekkert djúpt í þetta með honum, en það sem hann
hafði að segja var flest jákvætt,“ sagði Eggert um samtal sitt við Andra.

Vilja fara alla leið

Elfsborg tapaði úrslitaleik um sænska meistaratitilinn gegn Malmö í lokaumferð deildarinnar á síðustu leiktíð og rétt missti af meistaratitlinum. Nú er markmiðið að fara alla leið. „Við höfum ekki rætt markmiðið mikið en ég held að það sé alveg klárt að Elfsborg vilji vinna deildina og það er raunhæft markmið.“

Elfsborg er sem stendur í æfingaferð í Portúgal en Eggert glímir við meiðsli og er á leið til Svíþjóðar til að hitta liðslækninn og fá bót meina sinna.

„Læknirinn er ekki með okkur hér í Portúgal, svo ég flýg heim á morgun (í dag) til að hitta hann. Þetta eru ökklameiðsli sem ég fann fyrir í landsliðsverkefninu í janúar og ég veit meira þegar ég er búinn að hitta lækninn,“ sagði Eggert.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson