Íslendingar hafa einstakt dálæti á Eurovision þótt árangurinn hafi yfirleitt ekki verið upp á marga fiska. Nú er hart deilt um þátttöku Ísraela.
Íslendingar hafa einstakt dálæti á Eurovision þótt árangurinn hafi yfirleitt ekki verið upp á marga fiska. Nú er hart deilt um þátttöku Ísraela. — Morgunblaðið/Eggert
Ef við látum eins og rússneskur og ísraelskur almenningu sé vont fólk höfum við því miður ekki náð ýkja langt í þroska.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Stjórnmálamenn koma stundum á óvart og tekst að gera mann ansi undrandi. Dæmi um þetta er þegar ráðherra menningarmála, Lilja Alfreðsdóttir, hélt því skyndilega fram að þátttaka eða þátttökuleysi Íslands í Eurovision væri utanríkismál sem utanríkisráðherra landsins yrði að taka afstöðu til.

Kannski er Lilja ein af fjölmörgum æstum aðdáendum Eurovision hér á landi og gleymdi þess vegna skynseminni þegar hún lét þessi orð út úr sér. Sjálf virtist hún reyndar algjörlega sannfærð um það sem hún sagði, jafn furðulegt og það nú er.

Þátttaka í Eurovision er ekki og getur ekki verið þáttur í utanríkisstefnu landsins. Eurovision er bara ein af mörgum söngvakeppnum í þessum heimi. Það má reyndar auðveldlega flokka hana undir fremur ómerkilega stundarskemmtun, þótt margir kjósi að lifa sig inn í hana af óvenjumikilli ákefð og ástríðu. Hún er engan veginn viðburður sem þjóðarleiðtogar og ráðherrar þátttökulanda verða að vakta og taka afstöðu til.

Nú eru háværar kröfur meðal hluta þjóðarinnar um að Ísland taki ekki þátt í keppninni þetta árið vegna þess að Ísrael er meðal þátttakenda. Nokkuð víst er að fáar þjóðir myndu sakna íslenska framlagsins, enda hafa lög okkar í keppninni yfirleitt ekki verið þjóðinni til sóma, þótt íslenski kynnirinn segi okkur í beinni útsendingu ár hvert að fulltrúar þjóðarinnar hafi staðið sig frábærlega.

Í framhjáhlaupi má svo nefna að það væri vissulega nokkuð gleðileg tilbreyting fyrir okkur, sem erum ekki Eurovision-aðdáendur, að fá lausn frá þeirri þreytandi fjölmiðlaumfjöllun sem skellur á ár hvert með tilheyrandi spám um gengi íslenska lagsins. Það er þó nokkuð undarlegt þegar fólk sem ætíð setti sig í æstar Eurovision-stellingar er allt í einu orðið mjög ákaft í þeirri kröfu að Íslendingar sniðgangi keppnina vegna þess að þar er þjóð sem þeir vilja ekki samþykkja sem gjaldgenga.

Í upphrópunum um þá svívirðu sem þátttaka Ísraels í Eurovision á að vera eru sárafáir sem tala máli listarinnar og menningarinnar. Listin sameinar fólk, óháð kynferði, húðlit og þjóðerni. Það sama á reyndar við um íþróttir. Svo gerist það alltaf öðru hvoru að þjóð er meinuð þátttaka í listviðburðum eða íþróttakeppnum vegna þess að hún er sögð stunda vont athæfi. Það er ansi miklum tilviljunum háð hvaða þjóð verður fyrir valinu hverju sinni, venjulega er það þó vægi fjölmiðlafrétta sem þar ræður mestu. Þannig voru Rússar settir á svartan lista víða í lista- og íþróttaheiminum en vonska þeirra víkur nú fyrir illsku Ísraelsmanna og er smám saman að gleymast.

Stundum er sagt að fólk sé í eðli sínu alls staðar eins; venjulegt fólk sem vill lifa í sátt og friði. Það er ekki við þetta fólk að sakast þótt valdhafar þess fari fram með ófriði og ofbeldi. Við hættum ekki að lesa rússneskar bókmenntir eða hlusta á rússneska tónlist vegna Úkraínustríðsins. Við neitum vonandi ekki að taka í hönd manns vegna þess að hann er Rússi. Það sama á að eiga við um Ísraela. Við eigum að umfaðma fólk sem er gott. Ef við látum eins og rússneskur og ísraelskur almenningur sé vont fólk höfum við því miður ekki náð ýkja langt í þroska.

Óneitanlega finnst manni að listamenn, sem eiga að vita að listin hefur sameiningarmátt, ættu að átta sig manna best á þessu og tala fyrir skilningi, friði og samvinnu. Margir þeirra gera það hins vegar ekki, heldur gerast talsmenn útskúfunar.

Gyðingaandúð grasserar nú víða um heim með tilheyrandi ofbeldi og andstyggilegheitum. Gyðingar reyna að fela hverjir þeir eru af ótta við að ráðist verði á þá og óttast um líf sitt. Ætlar virkilega einhver að segja: Gott á þá!

Við hljótum að þrá frið og hafna um leið hatri. Það má ná vissum sáttum í gegnum menningarviðburði þar sem ólíkar þjóðir mætast. Þannig getur keppni eins og Eurovision jafnvel skipt máli. Margir myndu þar sjá að ísraelski þátttakandinn er bara venjuleg manneskja, ekki skelfilegur óvinur. Manneskja sem er meira að segja í góðu lagi að fagna og faðma.