Elín Guðnadóttir fæddist 25. mars 1938 í Ekru á Rangárvöllum. Hún lést 21. janúar 2024 á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Foreldrar hennar voru Guðni Gestsson frá Mel í Þykkvabæ og Vigdís Pálsdóttir frá Galtarholti á Rangárvöllum. Systkini Elínar eru Sveinn, f. 1937, Ingunn, f. 1939, d. 2017, Gestur, f. 1944, Pálína, f. 1945, og Kristín, f. 1947. Elín giftist Ellerti Birni Skúlasyni 26. desember 1959. Ellert fæddist 9. október 1935 í Reykjavík, hann lést 26. maí 2014. Foreldrar hans voru Skúli Sveinsson, f. að Hömrum í Eyrarsveit, Snæfellsnesi, og Hallfríður Ásgeirsdóttir, f. að Ósi við Steingrímsfjörð í Strandasýslu. Elín og Ellert eignuðust fjögur börn en þau eru: 1. Elínborg, f. 1957, gift Bjarne P. Svendsen, börn þeirra eru: a) Halla Björg Evans, f. 1980, gift Brynjari Erni Sigmundssyni og eiga þau þrjár dætur, b) Thor P. Svendsen, f. 1978, sambýliskona hans er J. Bella Christensen og eiga þau tvo syni. 2. Vigdís, f. 1960, börn hennar eru: a) Sigfinnur Pálsson, f. 1994, d. 2010, b) Vignir Páll Pálsson, f. 1996, c) Elín Pálsdóttir, f. 1998. 3. Björn Viðar, f. 1962, kvæntur Helenu Guðjónsdóttur, börn þeirra eru: a) Davíð Viðar Björnsson, f. 1998, sambýliskona hans er Aníta Ólöf Einarsdóttir, b) Jóhanna Helgadóttir, f. 1977, gift Elvari Ólafssyni og eiga þau þrjú börn, c) Linda Helgadóttir, f. 1982, sambýlismaður Gunnar Halldórsson og eiga þau tvær dætur. 4. Ómar, f. 1966, giftur Árna Kr. Einarssyni og eiga þeir þrjá syni: a) Jón Óli Ómarsson, f. 1992, sambýliskona Heiða Pétursdóttir, b) Ellert Björn Ómarsson, f. 1994, sambýliskona Þuríður Birna Björnsdóttir Debes, c) Hákon Árnason, f. 1986, og á hann eina dóttur.

Elín fæddist og bjó í Rangárvallasýslu þar til hún fluttist til Keflavíkur árið 1946. Hún hóf skólagöngu sína í Barnaskóla Keflavíkur. Eftir námið vann Elín við verslunarstörf og í fiskvinnslu. Hún var heimavinnandi húsmóðir og ól upp börn þeirra Ellerts meðan hann stofnaði og vann við eigið verktakafyrirtæki, Ellert Skúlason ehf. Hún tók einnig að sér íhlaupastörf í fiskvinnslu meðan hún ól upp börnin. Eftir að börnin fluttu að heiman fór Elín að vinna fyrir Njarðvíkurbæ í sjálfboðavinnu við að leiðbeina öldruðum í handavinnu. Við stofnun Reykjanesbæjar árið 1994 starfaði hún sem leiðbeinandi við handavinnu aldraðra. Elín var stofnfélagi í Systrafélagi Ytri-Njarðvíkurkirkju og meðlimur í Kvenfélaginu Njarðvík. Þá starfaði Elín í fjölda ára í Lionessuklúbbi Keflavíkur og var hún stofnfélagi að Lionsklúbbinum Freyju.

Útför Elínar fer fram í Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 5. febrúar 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku amma.

Þú varst fyrir mér fyrirmyndin í orðabókinni fyrir orðið amma. Alltaf til staðar fyrir mig, alltaf til í brall og spjall, alltaf tími til að spila og sauma, alltaf tími fyrir heimaeldaðan mat í hádeginu sem ég varð auðvita að smakka en ef ég vildi ekki borða hann mátti ég ná mér í cocoa puffs!

Við höfum nú aldeilis fengið að bralla ýmislegt saman síðustu tæp 44 árin. Fyrsta barnabarnið og það eina í 12 ár, svo nóg fékk ég af athyglinni frá þér og afa. Þegar mamma fór að vinna fór ég til þín í pössun. Ég var ekki há í loftinu þegar mér tókst næstum að stinga úr þér augað með trjágrein og ég var örugglega orðin fjögurra ára þegar ég þurfti að kveðja síðustu snudduna en hún hafði verið í felum hjá þér.

Ég var svo heppin að fá að fylgja þér og afa út um allt. Ég fékk náttúrlega að eiga Garðhús, sumarbústaðinn, með afa og þú fékk bara eldhúskrókinn en þú brostir nú bara í laumi að því. Þá var ég svo heppin að fá að vera með þér í Blönduvirkjun og þar fékk ég mína fyrstu vinnu, fimm ára, að hjálpa til í matsalnum og fyrir það fékk ég 50 kr. Ég var sko rík!

Við Brynjar minn eru óendalega þakklát fyrir að stelpurnar okkar þrjár fengu svo að kynnast þér og bralla með þér öll þessi ár. Þú var alltaf Ella amma eða amma mús í þeirra augum. Alltaf til í allt, áttir allaf góðgæti og skemmtilegt dót. Það sem stelpurnar skemmtu sér við að nota hina og þessa snapchat filtera á þig og þú hlóst og hlóst. Þér fannst nú ekki leiðinlegt að í mars kæmi lítil langalangömmustelpa, þó þér þætti nú samt ótrúlegt að þú gætir verið langalanga.

Það yljar mér um hjartarætur um ókomna tíð, allar yndislegur minningarnar mínar um þig, okkur og ykkur afa. Ég er ævinlega þakklát fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mína. Ég er líka svo þakklát fyrir samverustund barnabarnanna með þér þann 14. janúar sl. Elsku amma, ég veit að þú ert svo glöð að vera komin aftur í fangið hans afa eftir 10 ár án hans. Veit að þú ert aftur komin á fullt og byrjuð að elda eitthvað gott.

Amma mín er mamma hennar mömmu

mamma er það besta sem ég á

gaman væri að gleðja hana ömmu

og gleðibros á vörum hennar sjá.

Í rökkrinu hún segir mér oft sögur

svæfir mig er dimma tekur nótt

syngur við mig sálma og kvæði fögur

þá sofna ég svo undur vært og rótt.

Minningar mínar um ömmu eru milljóna virði

man að ég kúrði henni hjá

þeyttist með henni um fjalllend'
og firði

mikið var gaman hjá okkur þá.

Því minningar mannsins um ömmurnar okkar

eru eilífðardjásn sem gæta skal vel.

Sú er bakaði snúða og prjónaði sokkar

var konan sem lék sér með leggi
og skel.

Takk fyrir allt, elsku amma mín. Minningar um þig eru sannir dýrgripir sem ég mun varðveita að eilífu.

Þín ömmustelpa,

Halla Björg
og fjölskylda.

Það var stór hópur úr árgangi 1937 og 1938 í Keflavík sem bjó uppi á hæð sem kallað var, en hæðin dró nafn sitt af örlitlum halla á Suðurgötu og Hafnargötu sem ef till vill hefur verið sjáanlegri í moldarstígum. Elín Guðnadóttir var af árgangi 1938.

Frá barnæsku hef ég vitað af Ellu, en hún flutti á Heiðarveginn úr Þykkvabænum með foreldrum og systkinum árið 1946, en Heiðarvegur sker Suðurgötuna þar sem ég bjó. Ella eignaðist fljótt ævilanga vináttu nágrannastelpna og naut þess að rifja upp lífið og félagana á þessum árum.

Þannig að í gegnum lífið höfum við þrisvar verið nágrannar á öllum æviskeiðum, nú síðast í íbúðum fyrir eldri borgara.

Ella varð félagi í Lionessuklúbbi Keflavíkur 1983 rétt eftir stofnun hans og fylgdi okkur sem stofnfélagi þegar við breyttum klúbbnum yfir í Lionsklúbbinn Freyju árið 2020 en hún kom á sinn síðasta fund nú í desember.

Ella hafði góða nærveru var félagslynd og vinamörg, gestrisin og naut sín vel með húsið fullt af gestum.

Á þeim árum þegar klúbburinn okkar hélt sína rómuðu fjáröflun sem var Góugleði; við fengum hráefni gefins og matreiddum síðan úr því glæsilega rétti fyrir stóran hóp kvenna. Þarna var Ella á heimavelli, gekk rösklega til verks og ósjaldan lögðum við undir okkur eldhúsið hennar á Tjarnargötunni, jafnvel í nokkra daga.

Þegar ég lít til baka sé ég hvað við erum óendanlega heppnar að hafa átt félaga eins og Ellu sem sinnti þeim verkefnum sem henni voru falin af ljúfmennsku og gleði á meðan heilsan leyfði.

Þrátt fyrir heilsuleysi síðustu ára var Ella ein af þeim félögum sem voru með hundrað prósent mætingu á síðasta ári

Ella var mikil hannyrðakona og um árabil sá hún ásamt fleirum um að leiðbeina í handverki hjá félagi eldri borgara hér í bæ.

Við töluðum stundum um makamissi og þá fann ég svo vel hve hún saknaði Ellerts síns, breyttur lífstíll og stundum erfitt að halda áfram en eiginmaður hennar var Ellert Björn Skúlason og áttu þau fjögur börn en hann lést árið 2014.

Síðustu árin voru Ellu erfið, að finna lífsþróttinn þverra og færni til að sjá um athafnir daglegs lífs, en hún glímdi við parkinson-sjúkdóminn um árabil. Engu að síður var hún þakklát fyrir að geta verið heima með aðstoð til hinsta dags.

Elsku Ella, takk fyrir góða samveru og vináttu í gegnum árin, þín verður sárt saknað.

Innilegar samúðarkveðjur til barna og fjölskyldna þeirra.

Fyrir hönd Lionsklúbbsins Freyju þökkum við Ellu ómetanleg störf í þágu Lions á Íslandi og biðjum henni Guðs blessunar

Bergþóra G.
Bergsteinsdóttir.