Mikið gladdi það að fá upp í hendurnar Ljóð og lög Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis, hagyrðings og kvæðamanns. Bókin hefur að geyma 1.700 ljóð sem hann orti á árabilinu 1956 til 2023. Hann rekur tilurð kveðskaparins og fléttar saman við ýmsar minningar – og skilur fátt undan. Jafnvel blautlegar vísur og drykkjuvísur fá að fljóta með. En ekki hvað! Víða má finna kveðskap eftir samferðamenn, svo sem Sveinbjörn Beinteinsson frá þorrablóti 1992:
Sigurð stórum söngs í kór við finnum.
Losar okkur orðlist hrein
önd og skrokk við sérhvert mein.
Alla kvilla okkar stillir glaður.
Lærður bæði ljós og skýr
læknar kvæðabúsins dýr.
Þar er Sigurði rétt lýst, en hann er söngmaður mikill og unun á að hlýða er hann kveður stemmur. Sigurður hefur lagt mikið af mörkum til Kvæðamannafélagsins Iðunnar í gegnum tíðina, en á fundum félagsins siglir báturinn Skálda um salinn og önglar saman vísum sem ortar hafa verið þann daginn. Sigurður orti afhendingu á Iðunnarfundi 24. nóvember 1990:
Hér sitja menn og syngja eða semja bögur.
Útkoman er æði fögur.
Á Iðunnarfundi tveim vikum síðar var annað hljóð komið í strokkinn:
Sumir ortu eftir pöntun,
aðrir fram á borðið sváfu.
Ætli það sé út af vöntun
á eiginlegri skáldagáfu.
Þegar vel hafði aflast í Skáldu orti Sigurður:
Hlunnum skorðum fríðan fák,
farið orðagulla.
Sker með forðann skarpa rák
skálda borðafulla.
Í ljóðasafninu eru einnig 60 frumsamin sönglög, sem Sigurður samdi flest við eigin texta, en nokkur við ljóð annarra. Þar á meðal er gullfallegt ljóð: „Grátinn þinn að þagga“.
Grátinn þinn að þagga
þín svo lokist brá.
Vöggu þinni vagga,
værð mun komast á.
Hljóðnar hringatróða,
hérna er nú rótt.
Sofðu, sofðu góða,
sofðu vel í nótt.