Pétursey Austurtrogið situr á „bitanum“, sem er holur stokkur milli austurrúms og skutrúms. Bitinn var geymslustaður fyrir ýmsa hluti sem tilheyrðu skipinu og skipshöfninni.
Pétursey Austurtrogið situr á „bitanum“, sem er holur stokkur milli austurrúms og skutrúms. Bitinn var geymslustaður fyrir ýmsa hluti sem tilheyrðu skipinu og skipshöfninni. — Ljósmynd/HMS 2017
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vart er hægt að hugsa sér svipmeira áraskip en Pétursey, 17 manna far frá árinu 1855. Enda sagði Þórður Tómasson safnvörður að hún væri höfuðprýði Byggðasafnsins í Skógum. Þrátt fyrir að á safninu væri mikill fjöldi annarra merkra gripa

Vart er hægt að hugsa sér svipmeira áraskip en Pétursey, 17 manna far frá árinu 1855. Enda sagði Þórður Tómasson safnvörður að hún væri höfuðprýði Byggðasafnsins í Skógum. Þrátt fyrir að á safninu væri mikill fjöldi annarra merkra gripa. Pétursey er til sýnis í Skógasafni með öllum búnaði sem henni tilheyrir og er sérlega vel fyrir komið. Ennfremur er saga skipsins mjög áhugaverð og vel skráð.

Mýrdalur er vestasta sveit V-Skaftafellssýslu og sú syðsta á landinu. Á 19. öld komu þar harðindaár nokkrum sinnum, með lélegri grassprettu, rýrri nyt kúa og horuðum dilkum, stundum horfelli. Þegar heyleysi og matarleysi svarf að var leitað ýmissa bjargráða en best reyndist að sækja sjóinn af auknu kappi. Að jafnaði voru allmargir bátar gerðir út frá Mýrdalssandi á hverri vertíð en um það leyti sem Pétursey var smíðuð, árið 1855, var orðið dauft um sjósókn þar.

Að smíði Péturseyjar stóðu Eyjarhólabræður, Jón, Árni og Guðmundur Ólafssynir, ásamt nokkrum nágrönnum. Jón smíðaði hana og með honum Sæmundur bóndi Bjarnason, sem hafði áður smíðað nokkur skip. Þeir Jón og Sæmundur smíðuðu sína skipshliðina hvor. Saum, rær og önnur járn smíðuðu þeir Jón og Árni og vöktu við það fram á nætur. Pétursey er súðbyrtur áttæringur, óvenjustór, mesta lengd 10,65 m, 3 m á breidd og 1 m á dýpt. Báturinn var að mestu smíðaður úr eik en þóftur eru úr rekaviði. Vandað var til hans á allan hátt og fannst mönnum mikið til þess hve vel hann var gerður og „svipgóður“. Pétursey er með hinu sunnlenska sandalagi. Sú gerð báta er hugsanlega jafn gömul og sjósókn frá ströndum Suðurlands. Þeir voru ætlaðir til ýtingar og lendingar á sléttum söndum, sem voru opnir fyrir úthafsöldunni, og er megineinkenni þeirra hve breiðir og grunnskreiðir þeir eru, sem gerði þá stöðugri í lendingu. Átökin við brimið höfðu ennfremur í för með sér að bátarnir þurftu að vera mjög traustbyggðir.

Fyrstu vertíðina sem Pétursey var gerð út var Jón Ólafsson formaður. En afli var tregur og svo var einnig næsta vetur. Jón var talinn góður formaður og hugðu menn að eitthvað væri athugavert við bátinn. Fiskur gengi illa undir hann. Því var gripið til þess ráðs að hreyfa ekki Pétursey um sinn, róa þess í stað á gamla bátnum sem enn var í sæmilegu ástandi. Þá fiskaðist betur og var Pétursey látin hvíla óhreyfð í nausti á meðan. Yngri bróður Jóns, Guðmundi í Eyjarhólum, mislíkaði sú ráðstöfun, svo gott skip sem hún væri og í landi væru menn sem vantaði skipsrúm. En þeim bræðrum kom ekki saman um hvað gera skyldi og Jón réði för.

Jón fiskaði nú áfram á gamla bátnum. En þá vildi svo illa til eitt sinn í lendingu að skipverji lagði gáleysislega upp ár sína og sló við það annan mann í höfuðið. Sá féll útbyrðis og var andaður þegar til hans náðist. Jóni féll þetta illa og lagði niður formennskuna stuttu seinna, að hluta vegna slyssins en þó aðallega vegna dræms afla. Sat hann við sinn keip með það þótt hann væri þrábeðinn um að halda áfram. Vísaði hann á bróður sinn, sagði að hann mundi vera fús til að setjast í formannssætið. Guðmundur var talinn góður sjómaður og kappsamur en ógætinn, jafnvel fífldjarfur, og einráður. Það hefðu menn séð þá sjaldan hann stýrði vorbát.

Úr varð að Guðmundur fékk tækifæri til að sanna sig. Pétursey var þá flutt heim að bæ til viðgerðar því að ljóst var að hann myndi róa á henni. Nokkru seinna dreymdi Guðmund draum, að kona bæri fyrir hann trog sneisafullt af kjöti og brauði og byði honum að snæða. Hann sagði henni þá frá erfiðleikum sínum, að hann ætti að stýra Pétursey sem aðrir teldu að væri fiskifæla. Honum sjálfum væri líka vantreyst til formennsku og meirihluti skipshafnarinnar yrði lítt vanir sjómenn. Draumkonan sagði honum að kvíða engu, það hæfði ekki skapferli hans, allt færi vel og var draumurinn ráðinn sem gæfumerki.

Skömmu eftir jól 1859 var Pétursey flutt til nausts. Þá voru sumir eigenda bátsins enn andvígir því að róa á henni, töldu gamla bátinn vænlegri. Einnig efuðu þeir að nógu margir hásetar fengjust á hana. Jón studdi hins vegar bróður sinn, sagði að Pétursey mundi reynast best þegar mest á reyndi. Fyrstu vertíðina sem Guðmundur var formaður virðist hann hafa ofmetið hana því að lítið fiskaðist. Ræddu menn þá um að hún yrði líklega alla tíð tregfiskifleyta. Guðmundur sjálfur reyndist hins vegar betur sem formaður en búist var við, var liðlegur við háseta sína en þó djarfur.

Á þessum árum voru skip þar eystra án segla því að þau þóttu hættuleg, ekki síst í brimlendingu. Árið 1855 hafði báturinn Blíðfari horfið í sjóinn með 18 manna áhöfn milli lands og Eyja og var það hörmulega slys enn í fersku minni. En það hafði ekki áhrif á Guðmund því að strax á fyrsta róðradegi árið 1860 sást Péturey halda frá landi undir „drifhvítum voðum.“ Þau fylgdu henni síðan alla tíð eftir það meðan henni var haldið til veiða. Seglin voru þrjú, fokka, stórsegl með rá og aftursegl sem einnig hafði rá.

Í þessum fyrsta róðri undir seglum fór Guðmundur svo langt frá landi að færin náðu ekki til botns og þurfti að hnýta þau saman, tvö og tvö. Aflinn var enn tregur og töldu menn að nýjabrum Guðmundar mundi seint gagnast. Hann hefði verið að leika sér frekar en að leita að fiski.

Nú kom tímabil þar sem bræla var dag eftir dag, sjór dæmdist ófær, og þurftu menn að bíða í landi aðgerðalausir. Það leiddist mörgum og héldu þeir sig heima við. Þá bar það við einn daginn að Pétursey fór í róður einskipa í stórvondum sjó. Þegar menn sáu það leist þeim ekki á blikuna og þegar leið á daginn héldu þeir niður á sandinn til að aðstoða bátinn í lendingunni. Þess var ekki þörf, Pétursey skilaði sér til lands án vandkvæða áður en þeir komu og var allvel fiskuð. Þetta endurstók Guðmundur nokkrum sinnum og nú fékk Pétursey á sig „einróma happaorð“. En hróður formannsins jókst ekki að sama skapi, að vísu dáðust sumir að hugrekki hans og lagni en aðrir sögðu hundaheppni að ekki skyldu hljótast slys af glæfrum hans.

Guðmundur reyndist farsæll formaður og gegndi þeim starfa lengst af á 19. öldinni. Hann var alla tíð vakandi fyrir nýjungum og fann meðal annars stað þar sem betra útræði var en á Melnum, sem hefð var fyrir. Þar hafði þótt „torgæft um róðra“ vegna sterkra strauma og „sjóhörku“. Nýi staðurinn var fyrir vestan útfall Jökulsár á Sólheimasandi, þar sem kallað er Maríuhlið. Sumum leist illa á það, töldu Maríuhlið vera manndrápspoll í opnum kjafti Jökulsár. Að auki þyrfti að fara yfir ána til að komast þangað en áin var bæði erfið yfirferðar og hættuleg. Við þetta bættist norðanrokið á berum sandinum. En þrátt fyrir alla ókosti Maríuhliðs taldi Guðmundur það betra en Melinn og var Pétursey róið til fiskjar þaðan eftir það, 1862–1909. Enda reyndist útræði þaðan bæði tryggara og fiskisælla.

Pétursey var oft endurbætt í gegnum tíðina. Árið 1882 náði norðanstormurinn henni, hún fauk og brotnaði mikið. Var hún þá smíðuð upp. Henni var síðast róið í fisk árið 1909. Þegar vélbátaöld var gengin í garð á Suðurlandi, þ.e. frá 1909, var hún mest notuð sem uppskipunarbátur í Vík í Mýrdal. Á vorin var Pétursey oft siglt milli lands og Eyja með farm og fólk. Þótti hún alla tíð einstakt happaskip. Aldrei var sett í hana vél. Hætt var að nota hana árið 1946.

Ástand Péturseyjar er nú gott. Þegar hún var smíðuð upp, árið 1882, var henni í engu breytt sem máli skipti. Hún var gefin Skógasafni 1952 og var nokkuð endurbætt þegar hún kom þangað. Bitafjöl með dróttkveðinni vísu, sem verið hafði á henni, var endurgerð. Bátnum var komið fyrir í nýju sýningarhúsi í Skógasafni árið 1995 og var þá búinn möstrum og seglum. Pétursey er þriðji elsti báturinn sem varðveist hefur hérlendis.