Öldrunarráð Íslands stendur fyrir ráðstefnu þann 28. febrúar þar sem áhersla verður á netöryggi, viðbrögð við netbrotum og ofbeldi sem aldraðir eru sérstaklega útsettir fyrir. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Þú þarft að skipta um lykilorð – …

Klara Ósk Kristinsdóttir

klaraosk@mbl.is

Öldrunarráð Íslands stendur fyrir ráðstefnu þann 28. febrúar þar sem áhersla verður á netöryggi, viðbrögð við netbrotum og ofbeldi sem aldraðir eru sérstaklega útsettir fyrir. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Þú þarft að skipta um lykilorð – að eldast á viðsjárverðum tímum“ og eru eldri borgarar sérstaklega hvattir til að mæta.

Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen, formaður Öldrunarráðs Íslands, segir það ekki hafa tekið langan tíma að ákveða áhersluatriði ráðstefnunnar, enda gríðarlega mikilvægt að halda á lofti umræðu um netsvindl, auk þess að fara yfir þau úrræði og þá aðstoð sem í boði er fyrir þá sem verða fyrir slíku. Við undirbúning ráðstefnunnar kom síðan í ljós hversu margslungið ofbeldi gagnvart öldruðum getur verið, segir Jórunn, og því hafi verið ákveðið að vekja máls á málefninu frá fleiri sjónarhornum. Jórunn nefnir sem dæmi að sýslumaður fái til sín sífellt fleiri mál sem lúta að því að aldraðir séu fengnir til að skrifa upp á og jafnvel breyta erfðaskrám sínum. „Þeir sem eru að hjálpa eru að misnota aðstöðu sína,“ segir hún og bætir við að sýslumannsembættið á Suðurnesjum verði með erindi um málið.

Undir lok ráðstefnunnar fá gestir síðan kynningu á verkefninu Gott að eldast, en um er að ræða gagnaveitu fyrir eldri borgara og aðstandendur þeirra á island.is. Gagnaveitan hefur að geyma upplýsingar um margt sem tengist þriðja æviskeiðinu, svo sem heilsueflingu, réttindamál og þjónustu.

Ráðstefnan er haldin á Hótel Hilton og hvetur Jórunn áhugasama til að skrá sig ýmist á heimasíðu Öldrunarráðsins, oldrunarrad.is, eða með því að hafa samband við Andreu í síma 414-9507 eða á andrea.laufey.jonsdottir@reykjavik.is.

Höf.: Klara Ósk Kristinsdóttir