Tíu Elvar Örn Jónsson var í aðalhlutverki hjá Melsungen.
Tíu Elvar Örn Jónsson var í aðalhlutverki hjá Melsungen. — Ljósmynd/Kristján Orri
Íslendingaliðin Magdeburg, Melsungen og Flensburg verða öll í undanúrslitunum um þýska bikarinn í handknattleik karla, ásamt Füchse Berlín, en úrslitahelgin er í Köln dagana 13. og 14. apríl. Landsliðsmennirnir Ómar Ingi Magnússon og Elvar Örn Jónsson áttu stóran þátt í að koma liðum sínum þangað

Íslendingaliðin Magdeburg, Melsungen og Flensburg verða öll í undanúrslitunum um þýska bikarinn í handknattleik karla, ásamt Füchse Berlín, en úrslitahelgin er í Köln dagana 13. og 14. apríl.

Landsliðsmennirnir Ómar Ingi Magnússon og Elvar Örn Jónsson áttu stóran þátt í að koma liðum sínum þangað.

Elvar var óstöðvandi á laugardaginn þegar Melsungen vann N-Lübbecke á útivelli, 30:28, í átta liða úrslitunum en hann skoraði 10 mörk í leiknum og átti auk þess fjórar stoðsendingar. Arnar Freyr Arnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Melsungen í leiknum.

Ómar Ingi var í aðalhlutverki hjá Evrópumeisturum Magdeburg í gær þegar þeir unnu stórsigur á Rhein-Neckar Löwen, 34:24. Ómar skoraði átta mörk í leiknum og átti fjórar stoðsendingar. Janus Daði Smárason skoraði fjögur mörk en Gísli Þorgeir Kristjánsson var ekki með Magdeburg vegna meiðsla.

Arnór Snær Óskarsson skoraði þrjú mörk fyrir Löwen en Ýmir Örn Gíslason ekkert.

Þá skoraði Teitur Örn Einarsson fimm mörk úr sex skotum fyrir Flensburg sem vann auðveldan útisigur í grannaslag gegn Hamburg á laugardaginn, 37:25.

Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, hefði getað verið fjórða Íslendingaliðið í undanúrslitunum en tapaði naumlega fyrir Füchse í Berlín, 31:29. Elliði Snær Viðarsson skoraði ekki fyrir Gummersbach en Mathias Gidsel skoraði níu mörk og Hans Óttar Lindberg sex fyrir Füchse.