Verðlaunahafi „Ég byrjaði eiginlega í textíl og síðan þróaðist þetta út í þrívíð verk og það sem kallast rýmisverk.“
Verðlaunahafi „Ég byrjaði eiginlega í textíl og síðan þróaðist þetta út í þrívíð verk og það sem kallast rýmisverk.“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Gerðarverðlaunin voru veitt í fjórða sinn á laugardaginn í Gerðarsafni í Kópavogi en þau eru til heiðurs Gerði Helgadóttur myndhöggvara. Eru þau veitt listamanni fyrir ríkulegt framlag til höggmynda- og rýmislistar á Íslandi

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Gerðarverðlaunin voru veitt í fjórða sinn á laugardaginn í Gerðarsafni í Kópavogi en þau eru til heiðurs Gerði Helgadóttur myndhöggvara. Eru þau veitt listamanni fyrir ríkulegt framlag til höggmynda- og rýmislistar á Íslandi.

„Þetta er mikill heiður og gaman að fá einmitt þessi verðlaun, Gerðarverðlaunin, því hún var mikill frumkvöðull og flott listakona,“ segir Ragna Róbertsdóttir, myndlistarkona og handhafi verðlaunanna í ár. Fyrri handhafar Gerðarverðlaunanna eru Rósa Gísladóttir, Þór Vigfússon og Finnbogi Pétursson.

Ný sýn á samruna náttúru og þess manngerða

Verðlaunin í ár hlýtur Ragna fyrir metnaðarfullt og kröftugt framlag til höggmyndalistar en eins og segir í tilkynningu frá Gerðarsafni eru verk Rögnu „könnun á samspili rýmis og efnis þar sem hún teygir mörkin á því sem við skilgreinum sem höggmyndalist. Ragna sækir í íslenska náttúru í verkum sínum þar sem efniviður á borð við hraun, ösku, steina, sjávarsalt, jarðefni og torf taka á sig mynd stórra innsetninga og skúlptúrverka. Verk hennar eru gjarnan unnin beint í rýmið og skapa þannig spennu og samtal milli mannlegs inngrips, náttúrulegra efna og eiginleika staðarins. Ragna veitir okkur nýja sýn á samruna náttúru og þess manngerða í verkum sem leika á mörkum höggmyndalistar, tvívíðra verka og innsetninga.“

List Rögnu hefur þróast í gegnum árin

Ragna stundaði nám við Myndlista- og handíðaskólann og fór síðan í framhaldsnám í Konstfack í Svíþjóð á árunum 1970-71. Þá hafa verk Rögnu verið sýnd á alþjóðavettvangi og hefur hún haldið stórar einkasýningar, meðal annars í Nýlistasafninu og Listasafni Reykjavíkur.

„Þetta hefur verið að þróast hjá mér í gegnum árin. Ég byrjaði eiginlega í textíl og síðan þróaðist þetta út í þrívíð verk og það sem kallast rýmisverk,“ segir Ragna og svarar því aðspurð að innblásturinn sæki hún meðal annars í íslenska náttúru.

„Ég er Íslendingur og nátengd landinu og okkar náttúru og hef alltaf verið það. Ég ólst upp við það að fara í útilegur með pabba mínum og mömmu frá því ég var smábarn, nálægt Heklu og þessum eldfjöllum okkar. Þar tjölduðum við og gistum þannig að maður kynntist landinu. Svo var ég einnig í sveit en öll mín myndlist hefur tengst íslenskri náttúru að mestu leyti.“

Mínímalísk áhrif

Spurð út í fyrirmyndir í listinni segist Ragna meðal annars hafa orðið fyrir áhrifum mínímalismans á sjöunda áratugnum. „Þetta hafa alltaf verið frekar einföld verk hjá mér, ekki svo flókin. Ég á náttúrulega alls konar fyrirmyndir og varð til að mynda fyrir miklum áhrifum frá Herði Ágústssyni kennara mínum í gamla daga. Einnig frá Jóhanni Eyfells sem kenndi mér líka.“

Þá segist Ragna yfirleitt vinna verk sín inn í rýmið, skapa svokölluð rýmisverk.

„Öll mín listaverk eru hugsuð inn í sérstök rými. Það fyrsta sem ég geri er að skoða rýmið og vinna verkið svo inn í það. En þá skipta stærðarhlutföllin og allt það að sjálfsögðu miklu máli,“ segir hún og bætir við að hún hafi meðal annars verið fengin heim til fólks til að skapa slík verk inni á heimilunum. Segist hún þá alltaf fara fyrst til að taka út rýmið og velja góðan stað fyrir listaverkið. „Sérstaklega þegar ég er að vinna þessi verk sem fara beint á vegg. Saltverkin eru innrömmuð og verkin úr söguðu hraungrýti fara á gólfið.“

Myndlistarnám er besta menntunin

Innt eftir því hvað standi upp úr á löngum og farsælum ferli segir Ragna margt koma til greina.

„Þetta nýjasta stendur þó kannski upp úr núna en ég var að vinna stórt verk inni í verki eftir listamanninn Lawrence Weiner, verk sem ég setti upp úti í Ameríku í byrjun síðasta árs. Það var alveg rosalega skemmtileg upplifun,“ segir hún en blaðamanni leikur í framhaldinu forvitni á að vita hvort listamenn eins og Ragna séu sífellt í leit að efnivið í nýtt verk.

„Já, þetta er dálítið mikið þannig að maður er með þetta í hausnum alla daga og hugsar bara þannig. Þannig held ég reyndar að flestir listamenn hugsi, alltaf einhvern veginn um næsta verkefni,“ segir hún og hlær.

En hvaða ráð skyldi Ragna eiga fyrir þá sem vilja feta listabrautina í framtíðinni?

„Að læra um myndlist er gríðarlega góð menntun. Þú getur í rauninni farið í hvað sem er þó þú farir í myndlistarnám því þetta víkkar hugann og er bara held ég besta menntun sem þú getur fengið. Það finnst mér að minnsta kosti en svo þarftu auðvitað ekki endilega að verða myndlistarmaður í framhaldinu.“

Tengdafaðirinn styrkti Gerði

Þegar talið berst aftur að Gerði Helgadóttur og verðlaununum, lumar Ragna á skemmtilegri sögu frá því hún hitti hana fyrir mörgum árum. „Það er gaman að segja frá því að ég hitti Gerði heima hjá tilvonandi tengdaforeldrum mínum árið 1969. Ástæðan var sú að tengdafaðir minn, Ari Jónsson, styrkti Gerði í hennar myndlist. Það er mér mjög eftirminnilegt að hafa verið með henni í mat heima hjá þeim og þetta situr dálítið í hausnum á mér en þetta var rosalega falleg kona og flott,“ segir Ragna og bætir því að lokum við að það sé virkilega gaman að þessi verðlaun séu til heiðurs Gerði.

Gerðarverðlaunin eru veitt með stuðningi Lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar og nema 1.000.000 króna til stuðnings við listsköpun verðlaunahafans. Dómnefnd Gerðarverðlaunanna skipa myndlistarmennirnir Kristinn E. Hrafnsson og Svava Björnsdóttir ásamt Brynju Sveinsdóttur, forstöðumanni Gerðarsafns.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir