Stjórnmálafundur Íslendingar fjölmenntu á veitingastaðinn El Duke á Kanaríeyjum þar sem farið var yfir íslensku þjóðmálin, lífið og tilveruna.
Stjórnmálafundur Íslendingar fjölmenntu á veitingastaðinn El Duke á Kanaríeyjum þar sem farið var yfir íslensku þjóðmálin, lífið og tilveruna. — Ljósmynd/Guðni Ágústsson
Íslendingar á Kanaríeyjum leggja til að ríkisstjórnin bjóði Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands, sem mann til að reyna að ná sátt og vopnahléi fyrir botni Miðjarðarhafs og á milli Rússlands og Úkraínu

Klara Ósk Kristinsdóttir

klaraosk@mbl.is

Íslendingar á Kanaríeyjum leggja til að ríkisstjórnin bjóði Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands, sem mann til að reyna að ná sátt og vopnahléi fyrir botni Miðjarðarhafs og á milli Rússlands og Úkraínu. Ólafur hafi sýnt mikla leiðtogahæfni auk þess sem hann hafi góð tengsl við leiðtoga heimsins.

Þetta segir Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra í samtali við Morgunblaðið í kjölfar fundar sem haldinn var á Gran Canaria á laugardag, en fundarhald á laugardagsmorgnum er áratugalöng siðvenja Íslendinga á eynni.

Það voru málefni bæði Íslands og heimsins sem brunnu á vörum fundarmanna að þessu sinni. Í ályktun fundarins er ítrekað mikilvægi þess að ríkisstjórnin nái fram þjóðarsáttarsamningi til fimm ára með aðilum vinnumarkaðarins, enda sé mikilvægt að ná niður verðbólgu og háum vöxtum. Auk þess er farið fram á að gerður verði búvörusamningur við bændur og að „landbúnaðinum verði sýnd virðing“, segir Guðni, og heldur áfram, um heimsmálin:

„Það setur hroll að fólki yfir þessu ástandi – hvernig er komið fyrir botni Miðjarðarhafsins og milli Rússa og Úkraínu. Mönnum finnst þess vegna að heimsstyrjöld blasi við,“ segir Guðni. Hann segir fundarmenn jafnframt undra sig á því að ekki sé talað fyrir friði og sáttum, heldur sé einungis lögð áhersla á að framleiða vopn og koma þeim til stríðandi þjóða.

„Hér áður fyrr var það altíð svo þegar styrjaldir brutust út að stóru ríkin og Sameinuðu þjóðirnar lögðu ríkari áherslu á að semja um frið og vopnahlé. Að fólk væri ekki drepið svona unnvörpum eins og nú er gert – saklaust fólk.“ Vegna þessa segir Guðni fundarmenn leggja Ólaf Ragnar til, enda mikilvægt að ná friði í stríðshrjáðum ríkjum.

Höf.: Klara Ósk Kristinsdóttir