Vinnueftirlitið hefur ekki rannsakað vettvang vinnuslyssins í Grindavík þar sem maður féll í sprungu við störf sín. Þetta staðfestir stofnunin í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Í svarinu segir að Vinnueftirlitið teljist ekki til viðbragðsaðila sem sé ætlað að veita fyrstu hjálp á slysstað og því hafi stofnunin ekki verið þátttakandi í þeim aðgerðum. „Undir venjulegum kringumstæðum hefði verið farið á staðinn, en fyrir liggur að vettvangur hefur breyst mikið frá slysi. Þá hófst eldgos í beinu framhaldi og var bænum lokað fyrir öllum nema viðbragðsaðilum,“ segir í svarinu.
Hins vegar segir að vinnueftirlitið rannsaki slysið með sama hætti og önnur alvarleg vinnuslys, en rannsóknin taki mið af aðstæðum. Kveðst vinnueftirlitið ekki geta gefið frekari upplýsingar um málið að svo stöddu þar sem rannsókn þess sé enn í gangi.
Slysið átti sér stað að morgni miðvikudagsins 10. janúar og gerðist með þeim hætti að maður sem var að vinnu við jarðvegsþjöppun féll ofan í sprungu. Fleiri tugir viðbragðsaðila komu að leitinni að manninum sem stóð yfir í tæpa þrjá sólarhringa en það var að kvöldi föstudagsins 12. janúar sem leit var hætt.
Gaus tveimur dögum síðar
Á þeim tímapunkti höfðu engin merki fundist um manninn í sprungunni þó að jarðvegsþjappan hefði fundist á miðvikudeginum. Það var síðan um einum og hálfum sólarhring síðar að eldgos hófst rétt norðan við Grindavík með miklum jarðhræringum auk þess sem hraun rann inn í bæinn.
Þá kallaði bróðir mannsins nýverið eftir því að málið yrði rannsakað af sjálfstæðum óháðum aðila í ljósi þess að fjölda spurninga sé ósvarað um aðdraganda ákvarðanatöku og atburðarás í Grindavík. Ekki liggur fyrir hvort orðið verður við óskum hans.