Kristín Ívarsdóttir fæddist í Reykjavík 8. júlí 1967. Hún lést á heimili sínu í Reykjavík 23. janúar 2024.

Foreldrar Krístínar eru Ívar Magnússon, f. 29. september 1940 í Júgóslavíu, og Hrafnhildur Georgsdóttir, f. 18. maí 1942 í Reykjavík. Samfeðra systkini eru Trausti Runólfur, f. 4. nóvember 1962, Sæþór, f. 24. apríl 1967, Ívan Burkni, f. 28. maí 1969, Daníel Birgir, f. 28. janúar 1973. Sammæðra systkini er Georg Garðarsson, f. 18. desember 1972.

Kristín eignaðist með fyrri barnsföður
sínum, Halldóri Svavari Ólafssyni, f. 18. maí 1971, d. 26. október 1995, dótturina Hrafnhildi Ósk, f. 29. nóvember 1990, á hún dótturina Kristínu Ósk Hrafnhildardóttur, f. 4. nóvember 2020.

Kristín giftist 4. júní 1999 Óðni Sigurðssyni, f. 28. mars 1971, eignuðust þau saman soninn Óðin Frey, f. 1. janúar 2003.

Kristín ólst upp fyrstu fimm ár ævi sinnar á Hrefnugötu 10 og fluttist svo með móður sinni og bróður í Bakkana í Breiðholti. Þar sleit hún barnsskónum og gekk í Breiðholtsskóla. Hún flutti ung að heiman, sjálfstæð og fylgin sér. Kraftmikil ung kona sem fór sínar eigin leiðir í lífinu. Hún var til heimilis fyrstu árin með dóttur sína á Mánagötu og fluttist svo á Kleppsveg þar sem hún bjó til ársins 1996 þegar hún festi kaup á íbúð í Stigahlíð 16, þar bjó hún til ársins 2004 ásamt eiginmanni sínum og börnum sínum tveimur. Þau hjónin keyptu sér íbúð í Drápuhlíð 17. Fluttust þau í Hörgshlíð 2 árið 2014, var viðkoman þar stutt eða til ársins 2016 þegar þau keyptu íbúð í Barmahlíð 56. Kristínu leið best í Hlíðunum. Málefni skiptu Kristínu miklu máli. Var hún öflug í allmörg ár í sjálfboðavinnu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún sat í stjórn Fimleikasambands Íslands í nokkur ár. Kristín starfaði sem röntgentæknir á Landspítalnum, bankastarfsmaður og nú síðast um árabil sem læknaritari hjá Heilsugæslunni Efstaleiti.

Útför hennar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 5. febrúar 2024, klukkan 13.

Elsku fallega mamma mín, nú ertu farin mér frá, mér finnst það ósanngjarnt og erfitt, tími okkar saman hefði átt að vera lengri. En á þeim tíma sem við áttum sköpuðust margar minningar sem munu ylja mér um hjartarætur um ókomna tíð.

Við vorum bestu vinkonur, systur, eins og þú sagðir svo oft. Það var ekkert sem við gátum ekki sagt hvor annarri. Þú tókst alltaf nærri þér ef ég talaði við þig þegar ég var í uppnámi, þú vildir allt fyrir mig gera og þitt hjartans mál var að ég væri hamingjusöm. Ég er þakklát fyrir að þú hafir verið mamma mín, ef ég hefði valið sjálf þá hefði ég alltaf valið þig.

Við fórum í ófá ævintýri, sama hvort það var rölt niður Laugaveginn að gramsa í Kolaportinu með ömmu á meðan ég skammaðist mín fyrir fyrirganginn í ykkur eða ferð í IKEA þar sem mér var ýtt ofan í bangsahrúgu, eða okkar mæðgnaferðir til London eða Glasgow þar sem ég bjargaði þér frá vinstri umferð. Við áttum svo einstakt samband sem erfitt er að gera sér í hugarlund. Við vorum nánar, hlógum að bröndurum hvor annarrar sem varla ættu heima á prenti. Þú varst stríðin og hef ég sagt frá því við hvert tækifæri þar sem áheyrn er þegar þú hræddir okkur systkinin með því að banka á rúðuna þegar við horfðum á hryllingsmynd.

Þegar ég sagði þér að ég væri ólétt varst þú strax búin að ákveða að von væri á stelpu, þú varst svo viss að þú kallaðir hana Millu og hafðir þú hárrétt fyrir þér, það fæddist stelpa. Ég tilkynnti þér snemma á meðgöngunni að hún myndi ekki heita Kristín í höfuðið á þér. Þegar hún var skírð heima hjá ykkur pabba á afmælisdaginn minn tókst þú andköf þegar ég sagði að litla langþráða ömmugullið ætti að heita Kristín Ósk. Hún var augasteinninn þinn og það sem þú hlakkaðir til að sjá hana þroskast og dafna. Ég sendi þér ófáar myndir á dag og sagði þér frá í hverju hún væri að pæla, þú hafðir mjög gaman af spurningunni „mamma, hvað er inni í Esjunni?“. Það var sama hvað hún gerði eða sagði, þér fannst þetta allt dásamlegt.

Þú varst alltaf til staðar fyrir mig en leyfðir mér líka að fara mínar eigin leiðir, studdir við bakið á mér og greipst mig þegar á reyndi, það er mér mjög dýrmætt og mun ég búa að því út lífið. Það sem ég sakna þín sárt en veit að þú vakir yfir mér og Kristínu Ósk.

Elska þig, mammsla,

Hrafnhildur Ósk.

Elsku hjartans Kristín mín, veikindi þín stóðu stutt yfir en rosalega voru þau erfið samt. Þú varst ákveðin í að takast á við þau og sagðir oft „mamma, ég er ekki að fara að deyja núna“ og það sagðir þú líka við mig daginn sem þú fórst. Þú hefur verið mér svo afskaplega góð og hjálpsöm. Við töluðum saman í síma á hverjum degi, þú passaðir allt og alla. Við vorum mjög mikið saman, löbbuðum Laugaveginn og hittum vin okkar í tóbaksbúðinni og áttum ótal skemmtilegar stundir. Þú átt svo yndislegan mann, hann Óðin, sem staðið hefur sem klettur þér við hlið alla tíð. Ég sagði nú einu sinni að ég hefði ekki getað fundið svona góðan mann handa þér þótt ég hefði leitað sjálf. Og börnin þín, Hrafnhildur Ósk og Óðinn Freyr, eru óskabörn allra mæðra og var sérlega gott á milli ykkar allra. Svo kom ljósgeislinn hún Kristín Ósk, varð allra mesta ömmu- og afastelpa.

Elsku Kristín mín, hver á nú að syngja afmælissönginn eða segja mér að hringja þegar ég sé komin heim eða spyrja: hvað ætlar þú að elda í kvöld? Ég veit ekki hvernig ég fer að að vera án þín, mín yndislega, en ég lofa að gera allt mitt besta. Vertu sæl, elsku fallega, duglega og góða dóttir mín.

Mamma.

Elsku vinkona mín – mikið var sárt að fá símtalið um andlát þitt. Þegar þú sagðir mér frá krabbameininu í október varstu skiljanlega hrædd en við sannfærðum hvor aðra um að þú myndir sigrast á því enda ekki í þínum karakter að gefast upp. Því miður varð tíminn styttri en við vorum búnar að sjá fyrir okkur.

Það sem ég mun sakna spjallsins okkar og kaffibollanna en það má segja að við urðum aldrei uppiskroppa með umræðuefni. Þú hafðir sterka réttlætiskennd, varst með góðan húmor og það var alltaf gaman í kringum þig. Þú varst endalaust stolt af þínu besta fólki og stækkaði hjartað enn frekar þegar Kristín Ósk litla ömmustelpan þín kom í heiminn.

Elsku Óðinn, Hrafnhildur, Óðinn Freyr og Kristín Ósk, missir ykkar er mikill en minningin um góða eiginkonu, mömmu og ömmu lifir áfram.

Djúp og varanleg vinátta

er dýrmætari

en veraldlegar viðurkenningar,

og allt heimsins gull og silfur.

Henni þarf ekki endilega alltaf

að fylgja svo mörg orð

heldur gagnkvæmt traust

og raunveruleg umhyggja.

Kærleikur,

sem ekki yfirgefur.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Takk fyrir dýrmæta vináttu, blessuð sé minning þín, elsku Kristín.

Elísabet Guðmundsdóttir.

Gengin er góð samstarfskona sem hefur kvatt okkur allt of fljótt. Hún var jákvæð og leyfði öðrum að njóta þess. Kom oft samstarfsfólki til að hlæja með sér að morgni dags, jafnvel á dimmustu vetrardögum og minnti okkur á að þakka þau tækifæri sem við fengjum í gegnum starf okkar til að gera gagn. Kristín sýndi skjólstæðingum mikinn stuðning og mannúð í samskiptum sínum en það er ekki auðvelt verk að sjá um símasamskipti á heilsugæslu. Hún var hamhleypa til verka og þrautgóð í þeim ólgusjó sem hefur herjað á heilsugæslustarfsemi undanfarin ár. Sýndi vel hvað í henni bjó þegar við glímdum við álagið sem tengdist farsóttinni. Ást hennar á fjölskyldunni og umhyggja fyrir velferð þeirra alla tíð var aðdáunarverð.

Litríkar minningar lifandi,

hlæjandi ljúf, blik í auga tifandi.

Fjölskyldan á hjartað allt,

þakklæti þaðan endurgoldið margfalt.

Á örskotsstundu lífið er allt,

sorg í hjarta, tár á hvarmi.

Kristín, lífsins kæri sjarmi,

kærar þakkir – þúsund falt.

(Steinar Björnsson)

Við minnumst öll Kristínar með hlýjum hug.

Við kollegar og samstarfsfólk Kristínar úr Efstaleiti viljum þakka samfylgd og votta fjölskyldunni innilega samúð okkar.

Lilja Sigrún Jónsdóttir, Ingibjörg Hilmarsdóttir, Margrét Ólafía
Tómasdóttir og
Steinar Björnsson.