Gagnasafn Hillel Neuer, framkvæmdastjóri UN Watch, lýsti m.a. samskiptum starfsmanna UNRWA fyrir utanríkismálanefnd bandaríska þingsins.
Gagnasafn Hillel Neuer, framkvæmdastjóri UN Watch, lýsti m.a. samskiptum starfsmanna UNRWA fyrir utanríkismálanefnd bandaríska þingsins. — Ljósmynd/AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is Um árabil hefur verið varað við stuðningi fjölda starfsmanna UNRWA (Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna) við öfgahreyfingar og hryðjuverkasamtök án þess að brugðist hafi verið við. Þetta fullyrti Hillel Neuer, framkvæmdastjóri samtakanna UN Watch, þegar hann kom fyrir utanríkismálanefnd bandaríska þingsins í síðustu viku.

Baksvið

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Um árabil hefur verið varað við stuðningi fjölda starfsmanna UNRWA (Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna) við öfgahreyfingar og hryðjuverkasamtök án þess að brugðist hafi verið við. Þetta fullyrti Hillel Neuer, framkvæmdastjóri samtakanna UN Watch, þegar hann kom fyrir utanríkismálanefnd bandaríska þingsins í síðustu viku.

Með sér hafði Neuer nýja skýrslu samtakanna þar sem kortlagt er hvernig yfir þrjú þúsund kennarar UNRWA sem starfa á Gasasvæðinu tjáðu sig í hópspjalli á samskiptamiðlinum Telegram. Skoðuð eru samskipti kennaranna á meðan árás hryðjuverkasamtakanna Hamas á Ísrael 7. október stóð yfir og í kjölfar hennar, en í árásinni létu á annað þúsund saklausra borgara lífið. Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er hvernig starfandi kennarar UNRWA deildu myndefni og skilaboðum þar sem morðum á saklausu fólki, limlestingum og öðrum ódæðisverkum er fagnað.

Varað við síðan 2015

Sagt var frá því 26. janúar að 12 starfsmenn UNRWA væru taldir hafa átt beinan þátt í árásinni 7. október og hefur stór hluti þeirra ríkja sem stutt hafa fjárhagslega við stofnunina fryst fjárveitingar til hennar að hluta eða að öllu leyti.

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna (SÞ), og Philipper Lazzarini framkvæmdastjóri UNRWA hafa báðir harmað þátttöku starfsmanna stofnunarinnar í árásinni. Til stendur að hefja skoðun á starfsemi UNRWA en þeir Guterres og Lazzarini hafa hvatt ríki til að láta ekki gjörðir fárra starfsmanna bitna á mikilvægu starfi stofnunarinnar, sérstaklega í ljósi átakanna sem eiga sér nú stað fyrir botni Miðjarðarhafs.

Neuer sagði fyrir þingnefndinni að hvorki Guterres né Lazzarini eða forverar þeirra gætu sagst vera hissa á því að starfsmenn UNRWA væru bendlaðir við hryðjuverk. „Undanfarin níu ár […] höfum við verið að afhjúpa, birta og afhenda SÞ og UNRWA sannanir um útbreidda og kerfisbundna hvatningu til hryðjuverka undir merkjum heilags stríðs, lof um nasistaleiðtogann Adolf Hitler og ákall um að slátra gyðingum, af hálfu kennara UNRWA, skólastjóra og annarra starfsmanna.“

Benti hann á að UN Watch hefði í nóvember birt skýrslu um 20 kennara sem fögnuðu árásinni 7. október. Þá greindu samtökin í mars í fyrra frá 133 kennurum og starfsmönnum UNRWA sem hvöttu til haturs og ofbeldis á samfélagsmiðlum.

Í júní 2022 gaf UN Watch út skýrslu um starfsmenn UNRWA og var meðal annars greint frá því sem kennarinn Elham Mansour ritaði í færslu á Facebook. Þar sagði Mansour: „Í nafni Allah, hver sá sem hefur tök á að drepa og slátra síonista og ísraelskan glæpamann, og gerir það ekki, á ekki skilið að lifa. Það á að drepa þá og elta þá alls staðar. Þeir eru mesti óvinurinn. Allt sem Ísrael á skilið er dauði.“

Neuer sagði UN Watch einnig hafa sent frá sér skýrslur um þessa tilhneigingu starfsmanna UNRWA árin 2021, 2019, 2017 og 2015.

Áhugaleysi ábyrgðarmanna

„Þeir höfðu aldrei samband við okkur til að fá upplýsingar. Þeir neituðu ítrekuðum skriflegum beiðnum okkar um að hittast til að ræða vandamálið. Þeir geta ekki sagt að þeir hafi ekki vitað af því. Herra Guterres vissi þetta. Yfirmaður UNRWA vissi þetta. Sameinuðu þjóðirnar vissu þetta. Þeir völdu einfaldlega að bregðast ekki við,“ sagði Neuer.

Sagði hann staðhæfingar um að þetta væru aðeins „nokkur skemmd epli“ meðal starfsmanna UNRWA vera rangar og benti á að leyniþjónusta Ísraels teldi um 1.200 starfsmenn stofnunarinnar eiga aðild að Hamas og vígasamtökunum Heilögu stríði (e. Islamic Jihad). Jafnframt ættu um sex þúsund starfsmenn, um helmingur starfsmanna á Gasa, nána fjölskyldumeðlimi sem eiga aðild að hryðjuverkasamtökum.

„Þetta snýst ekki um nokkur skemmd epli, þetta er allt rotið,“ sagði Neuer.

Frjáls félagasamtök

Vakta SÞ

UN Watch eru frjáls félagasamtök með aðsetur í Genf og segja hlutverk sitt vera að fylgjast með frammistöðu Sameinuðu þjóðanna með tilliti til stofnsáttmála SÞ. Samtökin eru formlega viðurkennd og í sérstakri ráðgjafarstöðu fyrir efnahags- og félagsmálaráð SÞ.

Samtökunum hefur bæði verið lýst sem þrýstihóp með sterk tengsl við Ísrael og baráttuhóp fyrir mannréttindum.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson