Stefán Eiríksson
Stefán Eiríksson — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri kveðst ekki vilja tjá sig um það, spurður til hvaða ráða verði gripið ef sigurvegari Söngvakeppni sjónvarpsins ákveður að taka ekki þátt í Eurovision. Ríkisútvarpið tók ákvörðun um að rjúfa tengsl milli Söngvakeppninnar og Eurovision í lok janúar

Helena Björk Bjarkadóttir

helena@mbl.is

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri kveðst ekki vilja tjá sig um það, spurður til hvaða ráða verði gripið ef sigurvegari Söngvakeppni sjónvarpsins ákveður að taka ekki þátt í Eurovision.

Ríkisútvarpið tók ákvörðun um að rjúfa tengsl milli Söngvakeppninnar og Eurovision í lok janúar. Ákvörðun um það hvort Íslendingar senda framlag til Svíþjóðar var um leið sögð verða tekin í samráði við þann sem stæði uppi sem sigurvegari í keppninni hér á landi.

Ríkisútvarpið undir þrýstingi

Mikið hefur verið þrýst á opinbera hlutafélagið að sniðganga Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva ef Ísrael verður með, í mótmælaskyni við framgöngu Ísraels á Gasa. Söfnuðust 9.500 undirskriftir gegn þátttöku Íslands í desember og fjöldi þekktra tónlistarmanna hefur einnig skilað inn eigin undirskriftalista.

Stefán segir keppendur ekki í neinni óvissu um framhaldið. Stjórnendur keppninnar séu í góðu sambandi við þátttakendur og segir Stefán að öllum spurningum þeirra sé svarað. Hann kveðst ekki vilja tjá sig um þá stöðu sem gæti komið upp í kjölfar ákvörðunar sigurvegarans og segir ekki tímabært að velta því fyrir sér „hvað gerist ef eitthvað annað gerist“.

Ekkert samtal við ráðuneytið

Lilja Alfreðsdóttir menningarráðherra hefur sagt sniðgöngu Íslands vera af þeirri stærðargráðu að utanríkisráðherra þyrfti að koma að ákvarðanatöku. Að sögn Stefáns hefur ríkismiðillinn ekki átt í neinum viðræðum við utanríkisráðuneytið.

„Það sem ég hef sagt alveg skýrt,“ fullyrðir útvarpsstjórinn, „er að ef það á að sniðganga Eurovision með einhverjum hætti þá er það ekki ákvörðun sem ríkisútvarpið tekur heldur er það ákvörðun sem er tekin af þar til bærum stjórnvöldum með almennri ákvörðun.“

Höf.: Helena Björk Bjarkadóttir