Arnbjörg María Sveinsdóttir var fædd á Sauðárkróki 25. október 1942. Hún lést 28. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Sigvaldi Þorsteinn Sveinn Nikódemusson, f. 30.9. 1908, d. 4.9. 1990, og Pálmey Helga Haraldsdóttir, f. 14.10. 1909, d. 21.12. 1994. Hún var sú yngsta í röð fimm systkina sem eru: Fjóla Ragnhildur Hólm, f. 28.8. 1932, d. 1.1. 1999. Valgerður Nikólína, f. 1.6. 1935, Ingólfur Jón, f. 9.12. 1937, Haraldur Jóhann, f. 1.3. 1939, d. 30.5. 1953.

Maki Arnbjargar var Arnbjörn Sigurbergsson, f. 21.2. 1936, d. 15.2. 2023, þau skildu. Börn þeirra eru: 1. Sigurbergur, f. 28.10. 1960, d. 24.10. 2016. Barnsmóðir Sigríður Þóra Traustadóttir, f. 28.6. 1972. Börn þeirra Jón Óli, f. 14.11. 2000. Giftur Heklu Rán Árskóg, f. 4.2. 2002. Barn þeirra Ríkey Lilja Jónsdóttir Árskóg, f. 2021. Árni Björn, f. 8.1. 2002, í sambúð með Aþenu Arnarsdóttur, f. 1.5. 2003. 2. Haraldur Sveinn, f. 19.7. 1962. Maki Marie Ann Arnbjörnsson, f. 12.7. 1964, skilin. Börn þeirra Dana Marie Arnbjornsson, f. 9.4. 1991, í sambúð með Carlee Ann Lawson, f. 25.4. 1992. Heiða Lynn Arnbjornsson, f. 19.9. 1994, í sambúð með Christof Hasselfield, f. 30.5. 1993. Jónas Davíð Arnbjörnsson, f. 14.2. 1997, í sambúð með Amy Nore, f. 29.1. 1999. 3. Jóhanna Valgerður, f. 6.4. 1965. Barnsfaðir Kristján Ragnarsson, f. 30.11. 1961. Barn þeirra er Arnbjörn Þórberg, f. 4.2. 1980. Maki Brooks Arther Hood, f. 13.3. 1968, skilin. Börn þeirra Alexander Jósep Hood, f. 1.12. 1997, og Elisabeth María Hood, f. 1.12. 1997, í sambúð Oliver Óskarssyni, f. 14.2. 1995. Róbert Davíð Hood, f. 6.6. 2000, í sambúð Ashley Moore, f. 12.7. 1987. 4. Bjarki Þór, f. 10.5. 1968. Giftur Svölu Brynju Þrastardóttur, f. 27.6. 1965, skilinn en giftur aftur. Barn þeirra Íris María Bjarkadóttir Fain, f. 2.12. 1988, gift Russell Andrew Fain, f. 1.5. 1980. Börn þeirra Amelía Þóra Fain, f. 28.8. 2012. Ragnar Elijha Fain, f. 27.9. 2016. Barnsmóðir Rósa Elísabet Erlendsdóttir, f. 3.12. 1976. Barn þeirra Friðbjörg Helga Midjord, f. 15.9. 1998.

Útför Arnbjargar fer fram frá Hafnarkirkju í dag, 5. febrúar 2024, klukkan 13.

Það er æði margt sem kemur upp í hugann núna þegar þú hefur kvatt okkur í hinsta sinn. Hlýjar og góðar minningar í blíðu og stríðu.

Lífið þitt var ekki alltaf bara dans á rósum heldur fékkst þú líka stundum mótvind í fangið, en þú lést aldrei bilbug á þér finna og tókst á við allar áskoranir með æðruleysið eitt að vopni, en þetta orð „æðruleysi” einkenndi líf þitt umfram annað. Önnur lýsingarorð sem upp í hugann koma eru orð eins og gleði, fjör, kímnigáfa, þrautseigja og manngæska, að ég tali nú ekki um það einstaka samband sem þú áttir svo auðvelt með að mynda við dýrin stór og smá, þau áttu hug þinn allan, svo mikið að manni þótti stundum nóg um. En maður samt skildi það, við komum og fórum eftir hentugleika en dýrin þín fóru hvergi og elskuðu þig alltaf án nokkurra skilyrða.

Þegar ég hugsa til baka þegar ég var að alast upp þá kemur upp svo margt en það sem stendur upp úr er það frelsi sem maður hafði sem krakki. Maður gat væflast út um allt einn og sér og sjálfur, hvort sem var inn á Laxárdal eða út í Skógey, og oftast nær með veiðistöng í fórum sínum, alltaf með nefið ofan í lækjum og ám með djúpum hyljum eða beljandi straum, stundum langt fram á kvöld á björtu sumarkvöldi. Kom svo heim með einhverja árans mýrartitti, algerlega óæta, og staðhæfa að þetta væri nú aldeilis björg í bú heim að færa! Kettirnir voru sjálfsagt ánægðir en litlum sögum fer af hamingju heimilisfólksins með þetta fæði. Sjálfsagt yrðu kallaðar til hjálparsveitir og eða lögregla í dag ef krakkar hyrfu heilu eða hálfu dagana, sem betur fer var það ekki nauðsynlegt í þá daga.

Mamma var í húsmæðraskólanum á Blönduósi, var listakokkur og var alltaf til matur á borðum.

Pabbi var flokksstjóri hjá RARIK í fjölda ára. Þetta kallaði á miklar fjarverur frá heimilinu en mamma var ráðskona og sá um mannskapinn. Við krakkarnir þvældumst með út um allt land og eigum við margar góðar minningar frá þessu tímabili og ekki var frelsið síðra á þeim tímum heldur en áður er nefnt og aldrei nokkurn tíma leiddist manni.

Bjarki Þór
Arnbjörnsson.

Valkyrja er tákn um styrk, hún stendur með sér og þeim sem eru henni nærri.

Arnbjörg María var valkyrja, sterk, íslensk, fyrirmyndarkvenmaður. Hún var verndari litla fólksins og dýravinur mikill. Hafði sterkar skoðanir og hikaði ekki við að viðra þær.

Nú kveð ég mína perluvinkonu með miklum trega. Minnist þess er ég kom á Höfn einungis 19 ára gömul þar sem mér bauðst að taka við verslunarstjórastarfi matvörudeildar Kask. Blaut bak við bæði eyrun, beint frá Bretlandi og einungis með reynslu frá verslunarrekstri föður míns og verslunarpróf upp á vasann. Ekki entist ég lengi þar, en á þessum vinnustað kynntist ég perluvinkonu minni. Hún var nú nokkuð eldri en ég og hefði svo sannarlega átt að taka við stöðunni en ég býst við að í þá daga hafi það verið lenska að ráða ekki heimamenn sem yfirmenn. Allavega hafði ég það á tilfinningunni.

Við Bogga mín, eins og hún var ávallt kölluð, bundumst þarna sterkum vinaböndum. Nú rúmum fjörutíu árum síðar og með hafsjó af minningum, kveð ég hana með virðingu og miklum söknuði.

Minningar ylja, um hjartahreina valkyrju og fjölmargar gleðilegar stundir.

Megir þú breiða þína vængi yfir heimabyggðina og fljúga hátt með smáfuglunum, vinum þínum.

Guðdómlegur geisli blíður

greiðir skuggamyrkan geim;

á undra vængjum andinn líður

inn í bjartan friðarheim.

(Hugrún)

Elínborg Kjartansdóttir.