Karl Guðmundur Friðriksson
Karl Guðmundur Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í dag eru blikur á lofti um að lýðræðisleg þróun sé stöðnuð. Þróunin þarfnast sífelldrar umræðu til að lýðræðið sé skilvirkt og þjóni samfélögum.

Karl Guðmundur Friðriksson/Sævar Kristinsson

Bent hefur verið á að lýðræðið sé eins og hvert annað mannanna verk, þurfi endurmat og sífellda umræðu til að það sé skilvirkt og þjóni samfélögum í takt við væntingar á hverjum tíma. Alþjóðlegri ráðstefnu Framtíðarseturs Íslands og Alþjóðasambands framtíðarfræðinga (WFSF), Futures of Democracies, dagana 21.-23. febrúar næstkomandi er ætlað að vera vettvangur slíkra umræðna.

Lýðræðið er ekki sjálfgefið

Sagan segir okkur að lýðræðið eigi oftar en ekki erfitt uppdráttar. Lýðræði getur breyst í einræði, og er þannig ekki sjálfgefið eins og við viljum stundum halda. Í dag eru blikur á lofti um að lýðræðisleg þróun sé stöðnuð og eigi erfitt með að takast á við breyttar framtíðaráskoranir.

Sem dæmi um áskoranir má nefna:

  • Breytt fjölmiðlaumhverfi og skautun í stjórnmálaumræðu
  • Samfélagslega þreytu þegar fólk upplifir áhrifaleysi
  • Ásælni í auðlindir og misskiptingu auðs
  • Vanhæfni til að takast á við langtímaþróun, svo sem á sviði umhverfismála og grænna umskipta
  • Stigvaxandi tækniþróun, svo sem þróun gervigreindar, erfða- og líftækni
  • Skort á að takast á við ný viðhorf er tengjast siðferði og félagslegum breytingum

Samkvæmt The Global State of Democracy 2023 virðist lýðræði á fallanda fæti í næstum helmingi ríkja heims þó svo að mörg landanna eigi langa lýðræðishefð. Í þessu sambandi hefur verið bent á þróun stjórnmála í Bandaríkjunum, breyttar áherslur í mörgum Evrópuríkjum þegar kemur að réttingum fjölmiðla og dómstóla og ekki síst nýlega þróun í mörgum Afríkuríkjum.

Lýðræðið er margs konar

Á alfræðivef er lýðræðið skilgreint sem vítt hugtak yfir þær stjórnmálastefnur sem byggjast á þátttöku almennings í ákvörðunum er hann varða. Grunnútgangspunkturinn er að valdið í tilteknu samfélagi manna eigi sér frumuppsprettu hjá þegnum þess. Lýðræðisleg þátttaka er lagskipt. Rætt er um lýðræði á sveitarstjórnarstigi, og svo lýðræði við kosningar á þjóðþing þjóða. Rætt er um fulltrúalýðræði og svo beint lýðræði. Einnig má nefna ólíka kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulag ásamt lýðréttindum í stjórnarskrám og framkvæmd þeirra, svo dæmi séu tekin.

Þannig eru hugmyndir samfélaga ólíkar um hvað er átt við þegar rætt er um lýðræði og hlutverk þess. Í mörgum tilvikum er lýðræði sambærilegt í mörgum Evrópuríkjum en ólíkt þegar það er borið saman við framkvæmd lýðræðis í Bandaríkjunum. Kína og Rússland telja sig til lýðræðisríkja þó svo að lýðræðið þar sé ekki eins og mörg okkar myndu sætta sig við.

Hefðir og hagsmunir hindra

Á vettvangi framtíðarfræða hefur umræðan um lýðræðislega þróun orðið umfangsmeiri síðustu misseri. Sama má segja um umræðuna meðal fræðimanna og ýmissa hópa samfélagsins. Það er nokkuð ljóst að augljósir vankantar á lýðræðislegri þróun deyfa áhuga fólks. Einnig er nokkuð ljóst að hægt er að grípa til ákveðinna umbóta til að auka hróður lýðræðis, en þá eru hefðir og hagsmunir oftar en ekki í vegi slíkra samfélagsbreytinga.

Þessir liðir og fjölmargir fleiri athyglisverðir þættir verða ræddir með virku samtali innlendra og erlendra aðila á ráðstefnunni 21.-23. febrúar næstkomandi. Nánari upplýsingar og skráningu á ráðstefnuna er að finna á vefsíðunni www.framtidarsetur.is.

Höfundar eru framtíðarfræðingar

Höf.: Karl Guðmundur Friðriksson/Sævar Kristinsson