Loftrýmisgæsla NATO Orrustuþota norska flughersins, af gerðinni F-35, tekur á loft á Keflavíkurflugvelli.
Loftrýmisgæsla NATO Orrustuþota norska flughersins, af gerðinni F-35, tekur á loft á Keflavíkurflugvelli. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helena Björk Bjarkadóttir helena@mbl.is

Helena Björk Bjarkadóttir

helena@mbl.is

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir stjórnvöld hér á landi, eins og flest önnur stjórnvöld í Evrópu, hafa vanrækt verulega varnar- og öryggismál fram að allsherjarinnrás Rússlands í Úkraínu fyrir tveimur árum. Sérstaklega mikilvægt sé að huga að varnarmálum nú þegar ekki sé hægt að treysta á áframhaldandi styrk Bandaríkjanna innan Atlantshafsbandalagsins.

Framtíð NATO óljós

Mikið hefur verið rætt um framtíð Atlantshafsbandalagsins ef Trump verður kosinn forseti Bandaríkjanna í nóvember. Baldur segir að nái Trump kjöri muni það leiða til ákveðinnar óvissu varðandi skuldbindingar Bandaríkjanna gagnvart NATO. „Trump er ólíkindatól og í rauninni veit enginn hver nákvæmlega varnarstefna hans verður. Yfirlýsingar hans eru þó þess eðlis að menn óttast að Bandaríkin muni ekki standa við þær varnarskuldbindingar sem þeir hafa gert,“ segir Baldur og bætir við að fælingarmáttur bandalagsins, sem hefur verið grunnstoð þess, muni minnka nái Trump kjöri.

Evrópa þarf að gyrða sig í brók

Mjög erfitt verður fyrir Evrópu að sinna varnarmálum sínum án Bandaríkjanna, segir Baldur. Bandaríkin eru meginbakhjarl álfunnar þegar kemur að vörnum og Evrópuríki verða einfaldlega að vona það besta þegar kemur að áframhaldandi þátttöku Bandaríkjanna. Baldur segir Evrópu þó verða að undirbúa sig undir það versta – að Bandaríkin muni ekki taka forystu í vörnum álfunnar.

Baldur segir ríki Evrópu þurfa að verja meira fé til varnarmála, sem þau eru að gera upp að vissu marki, en hann telur meira þurfa til. Bendir hann á að skýrslur séu að koma út í stærstu ríkjum Evrópu sem sýni fram á að herir ríkjanna myndu ekki ráða við langvarandi stríðsátök. Bandaríkjaher er á sama tíma búinn undir slík átök.

Þá segir hann það löngu tímabært að Evrópuríki gyrði sig í brók og efli sín öryggismál burtséð frá því hvað Bandaríkin gera. „Ég myndi kalla eftir því að Evrópuríki myndu gera viðbragðsáætlun. Þau þurfa að vinna heimavinnu sína bak við tjöldin, vera með áætlun um hvað þau geri ef Bandaríkin draga verulega úr umsvifum sínum í Evrópu.“

Staða Íslands í varnarmálum

Spurður út í varnarmál Íslands segist Baldur telja íslensk stjórnvöld hafa vanrækt verulega varnar- og öryggismál fram að innrás Rússlands eins og áður var vikið að. Það sama eigi því við um íslensk stjórnvöld og flest önnur stjórnvöld í Evrópu. Ráðamenn hafi sjálfir stigið fram og sagt Ísland ekki hafa staðið sig þegar kemur að öryggismálum. Hann bætir við að ráðamenn hafi reynt að ráða bót á þessu en stjórnvöld verði að forgangsraða þessum málum. Einnig þurfi að forgangsraða því að vernda mikilvæga innviði eins og orkufyrirtækin, birgðastöðvar, flugvelli, stjórnarbyggingar og svo framvegis.

Skortir umræðu um varnarmál

Baldur segir verulegaa skorta almenna umræðu í samfélaginu um öryggis- og varnarmál. „Mér finnst að ráðamenn ættu að ræða meira við þjóðina um þessi mál. Þetta virðist vera efst á baugi flestallra ráðamanna annarra NATO-ríkja en hér virðast menn varla minnast á þetta. Það mætti halda að við værum staðsett einhvers staðar á miðjum norðurpól, algjörlega afskipt heimsmálunum,“ segir Baldur.

Samtal um varnarmál sé einstaklega mikilvægt í ljósi þeirrar ógnar sem við búum við og þá sérstaklega ef eitthvað alvarlegra kæmi upp á.

Enginn áhugi á herþátttöku

Baldur segir hugmyndir um norrænan her vera athyglisverðar. Hann telur þó að þrátt fyrir að íslenskur almenningur hafi fullan skilning á og sé tilbúinn að styrkja varnir Íslands, þá sé enginn stuðningur meðal almennings enn sem komið er, ef kæmi til stofnunar á íslenskum her eða þátttöku í uppbyggingu norræns hers. Hann segir Ísland hvorki hafa þekkingu né getu til að taka þátt í herstarfi í augnablikinu, en að mikilvægt sé að vinna enn nánar með stóru ríkjunum í Evrópu, sér í lagi ef Bandaríkin draga úr viðbúnaði sínum í álfunni.

„Við ættum að forgangsraða áframhaldandi samstarfi á Norðurlöndunum, bæði einum og sér og innan NATO. Einnig þarf að forgangsraða því að hér verði loftrýmisgæsla allt árið í kring. Við megum aldrei líta út eins og við séum veikasti hlekkurinn. Við verðum að vera með jafn öruggt netöryggi, fjarskiptaöryggi og gæslu á okkar birgðastöðu, eins og önnur ríki, ef átök stigmagnast.“

Telur Ísland þurfa að huga betur að varnarmálum

Hefur ekki áhyggjur af NATO

Björn Bjarnason, fyrrverandi dóms- og kirkjumálamálaráðherra, segir Ísland þurfa að styrkja sína eigin varnargetu og ræða í hreinskilni hvað þurfi að gera til að halda hér uppi áframhaldandi öryggi.

Þegar kemur að Atlantshafsbandalaginu telur Björn ekkert benda til þess að NATO sé að hverfa úr sögunni eða breytast á þann veg að menn þurfi að hafa einhverjar áhyggjur. Hann segir til dæmis nýja varnaráætlun bandalagsins í prófun og að hernaðaræfingar á vegum bandalagsins séu nú haldnar í Norður-Atlantshafi.

Björn telur þó mikilvægt að íslensk stjórnvöld gæti þess að við föllum inn í nýjar varnaráætlanir bandalagsins og það sé tekið tillit til okkar við framkvæmd þeirra. „Við þurfum að fylgjast með því hvað aðrar þjóðir í kringum okkur eru að gera og leggja okkar af mörkum. Það þarf að skilgreina og ræða,“ bætir hann við að lokum.