Þrír af fremstu körfuboltamönnum landsins, Elvar Örn Friðriksson, Martin Hermannsson og Tryggvi Snær Hlinason, áttu góða leiki með liðum sínum í Grikklandi, Þýskalandi og á Spáni um helgina. Það lofar góðu fyrir landsleiki Íslands gegn Ungverjalandi og Tyrklandi í undankeppni EM síðar í þessum mánuði.
Elvar Már var í stóru hlutverki hjá PAOK sem vann öruggan sigur á Apollon Patras í grísku deildinni, 85:70. Hann náði tvöfaldri tvennu á aðeins 20 mínútum, skoraði 12 stig og átti 12 stoðsendingar, auk þess að taka þrjú fráköst. PAOK er í fimmta sæti af 12 liðum og í jafnri baráttu um að ná í hóp sex efstu áður en deildinni verður skipt í tvennt að tvöfaldri umferð lokinni.
Martin var í lykilhlutverki hjá Alba Berlín sem lagði Ulm að velli í gær, 93:83, í Þýskalandi en bæði liðin eru í jafnri baráttu fimm efstu liðanna í deildinni. Martin skoraði 13 stig og átti níu stoðsendingar á 24 mínútum með Alba sem er í fimmta sæti af 18 liðum en á leiki til góða á liðin fyrir ofan.
Tryggvi skoraði 12 stig, tók fjögur fráköst og átti eina stoðsendingu á 20 mínútum fyrir Bilbao í spænsku ACB-deildinni. Lið hans mátti hins vegar sætta sig við ósigur í Murcia, 96:76, og er í 12. sæti af 18 liðum í deildinni.
Elvar, Martin og Tryggvi eru væntanlegir til landsins fyrir leik Íslands og Ungverjalands sem fer fram í Laugardalshöllinni 22. febrúar en þremur dögum síðar leikur liðið í Tyrklandi.