Klara Ósk Kristinsdóttir
klaraosk@mbl.is
Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna hélt á ný til Mið-Austurlanda í gær þar sem hann hyggst leggja fram tillögu um að stöðva tímabundið átökin milli Ísraels og Palestínu gegn því að gíslum verði sleppt. Um er að ræða fimmtu ferð Blinkens á svæðið í kjölfar hryðjuverka Hamas í Ísrael þann 7. október 2023.
Tillagan sem um ræðir var rituð í París fyrir viku þar sem yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA fundaði með embættismönnum frá Ísrael, Katar og Egyptalandi. Sex vikna vopnahlé er meðal þess sem farið er fram á í tillögunni, gegn því að Hamas frelsi þá gísla sem enn eru í haldi eftir árásina þann 7. október í skiptum fyrir palestínska fanga í Ísrael.
Blinken, sem fundaði með forsætisráðherra Katar, Mohammed bin Abdulrahman Al Thani, í Washington á mánudag í síðustu viku, kveðst hafa trú á því að tillagan geti raunverulega skilað árangri. Þá hafa yfirvöld í Katar einnig lýst bjartsýni um tillöguna.
Kröfðust frelsis fyrir gíslana
Hundruð manna komu saman í Tel Avív á laugardagskvöld þar sem þess var krafist að gíslar Hamas-hryðjuverkasamtakanna yrðu frelsaðir sem fyrst. Samhliða var þess krafist að kosningum í Ísrael yrði flýtt í ljósi þess að ríkisstjórn Benjamíns Netanjahús forsætisráðherra Ísraels væri vanhæf til að fá gíslana frelsaða.
Jake Sullivan þjóðaröryggisráðgjafi Bidens sagði í gær að Blinken myndi fara fram á það við Ísrael að heimila meiri mannúðarstuðning við Palestínumenn, þannig að þeir fengju meiri mat, vatn, lyf og skjól á Gasa, en svæðið er að sögn Sameinuðu þjóðanna óbyggilegt eftir nær stanslausar sprengjuárásir í að verða fjóra mánuði. Fjöldi þjóða og hjálparsamtaka hefur varað við hættu á hungursneyð á Gasa en þar er mikill skortur á mat og drykkjarvatni.
Hefði verið sögulegt skref
Búist er við að Blinken muni fyrst koma við í Sádi-Arabíu, en fyrir árásina þann 7. október veltu Sádi-Arabar fyrir sér hvernig þeir gætu komið á sambandi við Ísrael.
Slíkt skref hefði verið sögulegt fyrir ríkin tvö og heimshlutann. En gagnrýni á Ísrael hefur farið vaxandi í Arabaheiminum í kjölfar árásarinnar á Gasa, sem að sögn hryðjuverkasamtakanna Hamas hafa orðið 27.200 manns að bana, aðallega konum og börnum.
Tveimur dögum eftir árás
Athygli vekur að ferð Blinkens er farin aðeins tveimur dögum eftir að Bandaríkin gerðu hefndarárás á íranska byltingarvörðinn og vígasveitir tengdar honum, sem eru skotmörk tengd Íran í Írak og Sýrlandi. Í gærkvöldi greindu Bandaríkjamenn síðan frá því að þeir ætluðu sér að grípa til frekari aðgerða eftir umræddar loftárásir, sem gerðar voru í kjölfar þess að þrír bandarískir hermenn létust í drónaárás í Jemen.