Úthugsað „Við ákváðum í byrjun að ég skyldi vera sýnileg, verandi ósköp venjuleg kona, svo að ekkert þætti dularfullt eða vafasamt við fyrirtækið,“ segir Gerður Arinbjarnardóttir um þá nálgun sem Blush hefur beitt.
Úthugsað „Við ákváðum í byrjun að ég skyldi vera sýnileg, verandi ósköp venjuleg kona, svo að ekkert þætti dularfullt eða vafasamt við fyrirtækið,“ segir Gerður Arinbjarnardóttir um þá nálgun sem Blush hefur beitt. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Það vekur jafnan athygli þegar Ímark velur markaðsmanneskju ársins, en á tveggja ára fresti veita samtökin þessa viðurkenningu þeim einstaklingi sem þykir hafa sýnt framúrskarandi árangur í markaðsstarfi.

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Það vekur jafnan athygli þegar Ímark velur markaðsmanneskju ársins, en á tveggja ára fresti veita samtökin þessa viðurkenningu þeim einstaklingi sem þykir hafa sýnt framúrskarandi árangur í markaðsstarfi.

Á morgun, þriðjudaginn 6. febrúar, efnir Ímark til viðburðar í húsakynnum Arion banka í Borgartúni þar sem tilkynnt verður um nýjasta handhafa verðlaunanna, en á dagskránni eru jafnframt fróðleg erindi, m.a. um hvernig nýta má gervigreind við markaðssetningu.

Gerður Huld Arinbjarnardóttir var valin markaðsmanneskja ársins fyrir tveimur árum en hún er framkvæmdastjóri og eigandi kynlífstækjaverslunarinnar Blush og þykir hafa sýnt einkar mikinn frumleika og úrræðasemi í markaðsstarfi fyrirtækisins.

Gerður segir að tilnefningin hafi komið skemmtilega á óvart á sínum tíma: „Ég er mikil B-týpa og vakna við það að síminn hringir kl. 9 á mánudagsmorgni. Á línunni var Árni Alfreðsson, þáverandi framkvæmdastjóri Ímark, og byrjaði hann á að útskýra fyrir mér að tilkynnt yrði um valið á markaðsmanneskju ársins viku síðar. Ég hélt að hann væri að falast eftir vinningum fyrir viðburðinn og var óhress með að þurfa að byrja daginn með þessum hætti en þá kemur upp úr dúrnum að ég hafði verið tilnefnd og þá fór ég að halda að einhver væri að gera at í mér,“ rekur Gerður söguna.

„Ég hafði lengi fylgst með hverjir hlutu þessi verðlaun og yfirleitt var það fólk komið yfir miðjan aldur með langan og glæstan feril að baki, og þarna var ég bara 31 árs og var lengi að átta mig á hvað Árni var að segja mér. Komu tíðindin svo flatt upp á mig að ég fór að hágráta í símann og greyið Árni var í algjörri köku. Ég var bæði svo glöð og svo gáttuð að ég mun seint gleyma þessu símtali.“

Ekki hleypt að hjá Facebook

Því fylgja alveg sérstakar áskoranir að koma kynlífstækjum á framfæri við neytendur og bendir Gerður á að hvorki Google né Facebook leyfi fyrirtækjum að auglýsa þannig vörur. „Og lengi vel voru íslenskir vefmiðlar ekki heldur spenntir fyrir því að selja okkur vefborða og áttum við helst að kaupa neðsta auglýsingaplássið á undirsíðunum sem hálfgert uppfyllingarefni.“

Þurfti Gerður því að vera útsjónarsöm í markaðsstarfinu. Reyndist henni m.a. lagið að vekja athygli fjölmiðla á skemmtilegum nýjungum og fyrir vikið hefur hún verið reglulegur gestur í viðtölum. „Frá upphafi hefur sú hugsun verið gegnumgangandi í rekstrinum að hafa Blush ekki eins og aðrar kynlífstækjaverslanir, og frekar en að herma eftir þeim sem gengið hefur vel með svona verslunarrekstur, hvort heldur innanlands eða erlendis, leituðum við að innblæstri hjá verslunum af öðrum toga, s.s. snyrtivöru- og húsgagnaverslunum og jafnvel skemmtigörðum. Markmiðið var m.a. að taka sýnileika kynlífstækja upp á hærra plan og forðast þessa klám- og bakdyrastemningu sem iðulega hefur loðað við svona rekstur.“

Segir Gerður markaðsstarfið m.a. hafa gengið út á að fræða almenning og þannig búa til nýja viðskiptavini. „Forvitnin fær fólk til að skoða og prófa, og þá kviknar áhuginn á að kynna sér kynlífstæki enn betur,“ útskýrir hún og bætir við að það hafi verið mikilvægur liður í fræðslustarfinu að eigandi fyrirtækisins stigi fram fyrir skjöldu og yrði andlit Blush út á við. „Við ákváðum í byrjun að ég skyldi vera sýnileg, verandi ósköp venjuleg kona, svo að ekkert þætti dularfullt eða vafasamt við fyrirtækið.“

Liðin eru 13 ár frá stofnun Blush og síðan þá hefur reksturinn vaxið jafnt og þétt. Starfa núna 16 manns hjá félaginu og var Fanney Skúladóttir ráðin í nýja stöðu markaðsstjóra fyrir ári. Stór hluti sölunnar fer fram yfir netið en Blush rekur líka vinsæla verslun við Dalveg í Kópavogi og í næsta mánuði verður opnað útibú á Akureyri til að þjónusta betur íbúa Norðurlands. Segir Gerður að það hafi einmitt verið veigamikill þáttur í markaðsstarfinu að hlusta á óskir viðskiptavinanna og mæta þörfum þeirra: „Blush hóf göngu sína sem netverslun en við fundum það snemma að viðskiptavinir sóttust eftir því að geta heimsótt verslun þar sem skoða mætti vöruna; og frekar en að reyna að fela okkur inni í kytru einhvers staðar ákváðum við þvert á móti að búa til líflega verslun sem upplifun væri að koma í.“

Finnur innblástur víða

Enn þykir sumum kynlífstæki vera feimnismál og hefur það reynst Blush vel að nota blöndu af húmor og einlægni til að brjóta ísinn og vekja athygli, iðulega með vísan til atburða líðandi stundar. Þannig vakti það lukku þegar verslunin réðst í auglýsingaherferð með tengingu við dag íslenskrar tungu, og í hálkutíðinni í janúar stóð yfir herferðin Varúð, sleipt! þar sem kynnt var til leiks úrval sleipiefna. Þá má ætla að varla nokkur landsmaður hafi misst af einkar sniðugu útspili Blush hér um árið þar sem kynlífstækjum var laumað inn á ljósmyndir sem fylgdu fasteignaauglýsingu.

Síðastnefnda herferðin dró dilk á eftir sér því Blush fékk sekt frá Neytendastofu fyrir uppátækið. „Sektin snéri að því að stofnuninni þótti vanta upp á að tekið væri fram að fasteignaauglýsingin væri auglýsing fyrir aðra vöru,“ útskýrir Gerður og segir aðfinnslur stofnunarinnar skjóta skökku við. „Það hefur lengi verið til siðs að koma alls kyns vörum á framfæri í fasteignaauglýsingum í samráði við verslanir með húsgögn og annan húsbúnað, og ekki verið fundið að því þó ekki hafi verið tekið fram að fallega sófasettið hafi verið fengið frá einni versluninni og blómavasinn frá hinni. Ég get heldur ekki fundið neina ritaða reglu neins staðar sem skyldar auglýsendur til að merkja sérstaklega auglýsingar af þessum toga.“

Gerður ljóstrar því upp að fleiri bráðskemmtilegar herferðir séu í vinnslu og að Blush muni halda áfram á sömu braut: „Hugmyndabankinn er hvergi nærri tómur og fullt af spennandi markaðsverkefnum fram undan.“