Jónína Kristín Jensdóttir fæddist að Byggðarenda á Þingeyri þann 31. maí 1940. Hún lést á Landspítalanum 22. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Jens Guðmundsson málmsteypumeistari og Aðalbjörg Aðalsteinsdóttir húsmóðir. Systkini Jónínu sem komust á legg voru Kristjana Petrína búsett í Reykjavík og Guðmundur Kristján sem er látinn.

Jónína giftist eftirlifandi eiginmanni sínum, Matthíasi Matthíassyni, f. 8. desember 1935, þann 29. desember 1962. Foreldrar Matthíasar voru Matthías Berg Guðmundsson og Halldóra Friðgerður Katarínusdóttir. Börn Jónínu og Matthíasar eru: 1. Kristín Aðalbjörg, f. 10. ágúst 1959. 2. Halldóra Matthildur, f. 3. janúar 1966, gift Karel Guðmundi Halldórssyni, börn þeirra eru: Kristín Ísabella, f. 1993, í sambúð með Guðmundi Gunnari Sveinssyni og barn þeirra er Elísabet Embla, f. 2021, Matthías Örn, f. 1998, Kolfinna Ýr, f. 1999, sambýlismaður hennar er Davíð Arnar Ágústsson, Karel Halldór, f. 2006. 3. Jens, f. 27. júlí 1971, kvæntur Dagnýju Ásgeirsdóttur, börn þeirra eru Ásgeir Óli, f. 2005, og Benedikt Óliver, f. 2009. 4. Friðrik Guðfinnur, f. 4. maí 1974, börn hans og fyrrverandi eiginkonu eru Helena Sólveig, f. 2001, Brynjar Máni, f. 2005, og Matthías Björgvin, f. 2010. 5. Herdís Ágústa, f. 29. maí 1977, sambýlismaður hennar er Ragnar Stefánsson, börn hennar og fyrrverandi eiginmanns eru Kristófer Ingi, f. 1999, Jakob Fannar, f. 2001, og Aðalbjörg Emma, f. 2005. Börn Ragnars eru Stefán Sindri, Hera Rún og Arnór

Jónína ólst upp á Þingeyri, gekk þar í barnaskólann og lauk gagnfræðaprófi frá Núpi í Dýrafirði. Hún hleypti snemma heimdraganum en hjónin byrjuðu búskap á Þingeyri. Þau fluttu til Reykjavíkur árið 1960 og bjuggu þar um stutta hríð en fluttu snemma í Kópavog og bjuggu þar alla tíð síðan, í Skólagerði, á Ásbraut, Kársnesbraut og nú síðast í Boðaþingi.

Jónína hóf störf ung og var mörg sumur í sveit að Gemlufalli, síðar vann hún í fiskvinnslu, bæði á Þingeyri og í Kópavogi, vann í kaupfélaginu á Þingeyri og síðan í Borgarbúð (Jóabúð) í Kópavogi, var starfskona í Ömmubakstri og vann sem aðstoðarkona í eldhúsi í leikskólanum Arnarsmára.

Hún var höfðingi heim að sækja, gestrisin með eindæmum og handverkskona mikil. Saumur, prjón og hekl lék allt í höndunum á henni og síðan þótti henni einstaklega gaman að garðyrkju. Hún ferðaðist mikið um landið en Vestfirðirnir kölluðu alltaf hæst og þær eru óteljandi ferðirnar sem hún fór vestur um ævina.

Útför Jónínu verður gerð frá Lindakirkju í dag, 5. febrúar 2024, og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku mamma, tengdó og amma verður borin til grafar í dag. Við minnumst alls hins góða sem hún kenndi okkur og njótum þess að rifja upp skemmtilegar og góðar sögur af konu sem setti fjölskylduna sína alltaf í fyrsta sæti, vildi okkur öllum allt hið besta og elskaði að fá að vera hluti af fjörinu og gleðinni sem hún og pabbi/afi sköpuðu með þessari stóru fjölskyldu sinni.

Hún var ættrækin, hélt góðu sambandi við skyldfólk sitt og var hreykin af uppruna sínum, sagði okkur ótal sögur um ættina og heimaslóðirnar og passaði upp á að við vissum hvaðan við kæmum. Hún elskaði að heimsækja Vestfirðina, skoða gamlar heimaslóðir, rifja upp gamlar og góðar sögur af húsum, fólki og atburðum.

Þá þótti henni ofurvænt um allar símhringingar ættingjanna og allar heimsóknirnar. Þegar gesti bar að garði þá blómstraði hún og það var erfitt fyrir hana að sitja kyrr, veisluborðið varð að svigna og það var engin leið að fá hana til að slaka á. Gestrisnin þegar fólk kom í heimsókn var bara á einhverju öðru stigi. Búrið hjá henni var göldrótt, pínulítið, en út úr því flæddu kökur og kex og sætabrauð ýmiss konar, smákökur og endalaust af alls konar sultum, allt heimagert og svo gott. Það fór sko enginn svangur frá henni Nínu.

Alltaf voru þau hjónin tilbúin að hjálpa og Nína var óendanlega dugleg að leiðbeina með allt sem snéri að matreiðslu, bakstri, prjóni, saumi og öllu öðru sem hún kunni og að leita til hennar var eins og leita í Google-viskubrunni, hún vissi svo ótrúlega margt. Hún hafði yndi af garðyrkju og ýmiss konar vinnu við húsið þeirra á Kársnesbrautinni, sem henni þótti svo undur vænt um.

Við fjölskyldan fluttum inn á þau hjónin eitt árið, sú dvöl átti að vera 1-2 mánuðir, en mánuðirnir urðu þegar allt kom til alls 12. Það var virkilega yndislegur tími, drengirnir tengdust ömmu og afa á annan hátt, við duttum inn í þeirra takt og unnum vel saman. Benedikt fór loks að tala þegar við fluttum til þeirra þá tveggja og hálfs árs gamall en hann hafði mjög gaman af því að ræða við ömmu sína og Ásgeir sem þá var sjö ára gamall var farinn að hlakka til að horfa á Leiðarljós með ömmu sinni á hverjum degi. Barnabörnin fengu að gera margt sem hin fullorðnu hefðu nú fengið orð í eyra fyrir, en það var Nínu mikilvægt að gefa þeim alla sína ást og væntumþykju og þeir Ásgeir og Benni nutu þess svo sannanlega.

Fyrir utan árið okkar í sambúð þá tengjast okkar bestu minningar um Nínu öllum ferðalögunum, veislunum, spilakvöldunum og sumarbústaðaferðunum en síðast en ekki síst stríðninni sem kraumaði alltaf í henni. Hún var náttúrulega ótrúlega skemmtilega stríðin og þessa síðustu daga hefur það yljað um hjartarætur að rifja upp bestu prakkarastrikin hennar.

Í dag þökkum við fyrir að hafa verið hluti af ævinnar hennar, erum þakklát fyrir allar minningarnar sem munu hlýja okkur um ókomin ár og söknum hennar í hvert skipti sem við bökum hjónabandssælu eða jólasmákökur.

Takk, elsku mamma, tengdó og amma, við söknum þín nú þegar.

Þín

Jens, Dagný, Ásgeir Óli og Benedikt Óliver.

Elsku besta amma.

Það er svo sárt að hugsa til þess að nú sértu farin, maður finnur fyrir svo miklum söknuði og hugsar mikið til þín. Það er margt sem maður rifjar upp, maður er einstaklega þakklátur fyrir allar minningarnar og hafa átt þig sem ömmu. Elsku amma, þú varst þrautseig, óstöðvandi, góð amma, umhyggjusöm og falleg.

Við systkinin eigum margar góðar minningar frá Kársnesbrautinni, þar sem þú og afi bjugguð alla okkar barnæsku og til okkar fullorðinsára. Þar voru ófá jólaboðin, notalegu stundirnar þegar við frændsystkinin vorum búin að koma okkur öll fyrir í herberginu við forstofuna og horfðum á bíómyndir, ég man að Vatnaveröld var mjög vinsæl. Jólaboðin á jóladag, hvar eigum við að byrja: hangikjöt, hamborgarhryggur, brúnaðar kartöflur, uppstúf, baunir, sósur og síðast en ekki síst franskar, þær stóðu alltaf upp úr með kokteilsósunni hennar ömmu, ætli það sé ekki hægt að kalla kokteilsósuna „Jónína special“, það var nefnilega sletta af rjóma út í og það var punkturinn yfir i-ið. Það voru ófáar ferðir farnar inn í stofu og nælt sér í franskar og kokteilsósu og þrammað svo inn í sjónvarpsherbergi og haft það notalegt. Amma töfraði svo fram eftirrétti, heimagerðan jólaís, frómas, konfekt og jólasmákökur sem hún hafði auðvitað gert sjálf.

Þrátt fyrir að hafa átt orðið erfitt með gang gaf amma ekkert eftir, hélt afmælisveislur eins og hún gerði best þar sem hún töfraði fram kleinur, hjónabandssælu, flatkökur með hangikjöti, heimagert rækjusalat, púðursykurstertur og hvað eina. Þvílíkt og annað eins, maður gapti alltaf, hún var ótrúleg, „Vestfjarðavíkingur“, eins og góð kona sagði mér, ég held að það eigi svo sannarlega vel við.

Við systkinin höfðum alltaf gaman af því þegar heimilishundarnir fóru að sníkja við matarborðið hjá þér. Þú gafst þeim nú ekki alltaf bita en sagðir alltaf „auminginn“ með aumkunarhljóm og fannst til með þeim, alveg eins og þeir fengju aldrei að borða. Þá kom glott á okkur systkinin. Við systkinin höfðum einnig alltaf gaman af því þegar þú sagðir oft allt í einu „bíddu nú við“ með hljóm eins og þú vissir ekki hvernig stæði á hlutunum. Svona smáatriði eru dýrmæt, orðatiltæki sem þú notaðir heyrir maður innra með sér og brosir.

Undanfarin ár höfðu amma og afi verið hjá okkur fjölskyldunni um jólin. En það voru jólin 2021 sem amma var á spítala. Þá var einnig covid í gangi og því heimsóknarbann á spítalanum. Hann Gummi minn var að vinna þetta kvöld á sjúkrabílnum, ég hafði beðið hann um að ef það hittist þannig á að hann færi inn á spítalann færði hann þér jólagjöf frá okkur. Mér til mikillar gleði gekk það upp og hann færði þér jólagjöf, sem var mynd af henni Elísabetu Emblu, langömmubarni ömmu. Ég fæ hlýtt í hjartað að hugsa til þessa. Amma hélt mikið upp á Elísabetu Emblu, bara að sjá hvernig amma horfði á hana þá fann ég hvað hún elskaði hana mikið. Það var svo innilega dýrmætt að eyða jólunum 2023 með þér og leyfa þér að upplifa jólin með Elísabetu. Ég veit að Elísabet naut þess líka að hafa langömmu með.

Elsku amma, takk fyrir allt, við vitum að núna hleypur þú örugglega um á nýjum og fallegum stað, hvert sem þú ert komin.

Við elskum þig alltaf,

Kristín Ísabella
Karelsdóttir,
Matthías Örn Karelsson, Kolfinna Ýr Karelsdóttir
og Karel Halldór Karelsson.

Það er með þakklæti og hlýju sem við kveðjum hana Jónínu. Ég þekkti hana alla mína ævi og Silla frá því við kynntumst. Jónína var mágkona mömmu, gift Matthíasi bróður hennar.

Það er margt sem kemur upp í hugann þegar maður hugsar til hennar Jónínu. Tilhlökkunin, þegar ég var barn, þegar Jónína og Matti voru á leiðinni vestur í heimsókn á sumrin. Fyrst var auðvitað bara Kristín með í för en síðan fór hópurinn stækkandi. Fyrstu árin var þetta ekkert smá ferðalag, gat alveg verið tíu til tólf klukkutímar á lélegum vegum. Svo voru allar samverustundirnar í gegnum tíðina við ýmis tilefni, þegar sá hluti fjölskyldunnar sem bjó hér fyrir sunnan kom saman. Til dæmis sumarbústaðaferðirnar, oft þegar Eurovision-keppnin var í sjónvarpinu; þá var sko mikið fjör.

Hér á árum áður voru Jónína og Matti eiginlega einu nákomnu ættingjarnir úr móðurættinni sem bjuggu fyrir sunnan. Þess vegna var gjarnan leitast eftir gistingu hjá þeim þegar fólk þurfti af ýmsum ástæðum að fara til Reykjavíkur í lengri eða skemmri tíma. Þótt húsnæðið væri ekki stórt á mælikvarða dagsins í dag þá var það alltaf auðsótt að fá gistinguna. Jónína og auðvitað Matti líka sáu um að gestunum liði vel. Þessu fylgdu auðvitað alls konar snúningar með ættingjana, til dæmis í læknisheimsóknir.

Veislurnar hennar Jónínu voru annálaðar fyrir myndarskapinn og fór enginn svangur úr þeim. Eins var það ef maður kíkti við í heimsókn þá mátti maður eiginlega ekki fara fyrr en búið var að bragða á nokkrum tegundum af bakkelsi.

Þegar við fluttum suður í fyrra skiptið, 1974, þá leiddist okkur óskaplega, allir nákomnir ættingjar og vinir voru fyrir vestan. Ef ekki hefði verið fyrir Jónínu og Matta hefðum við örugglega gefist upp um veturinn og flúið vestur aftur. Við heimsóttum þau oft en við bjuggum í Holtagerðinu, skammt frá þeim þar sem þau voru í Skólagerðinu. Stundum um helgar þá spiluðum við langt fram á nótt og skemmtum okkur vel.

Ég held að Jónína hafi eiginlega alltaf hugsað meira um velferð annarra en sína eigin, hún var einstaklega óeigingjörn kona, fjölskyldan var henni allt og alltaf hafði hún áhuga á að vita hvernig okkar fólki gengi í lífinu.

Jónína og Matti voru nánast alltaf nefnd í sömu andrá og núna er Matti allt í einu orðinn einn. Hans missir er mikill og einnig allra afkomenda, ættingja og vina.

Elsku Jónína, hvíldu í friði og takk fyrir allt. Við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til Matta, Kristínar, Halldóru, Jenna, Frigga, Dísu og fjölskyldna. Minningin um góða konu lifir.

Silla og Jón.