Alda Svona er gert ráð fyrir að Fossvogsbrúin geti litið út á góðum degi.
Alda Svona er gert ráð fyrir að Fossvogsbrúin geti litið út á góðum degi. — Tölvuteikning/Efla og BEAM
Andrés Magnússon andres@mbl.is Kostnaður og raunhæfni brúar yfir Fossvog var frá upphafi algert aukaatriði. Þetta má lesa úr ákvörðun kærunefndar útboðsmála um endurupptöku úrskurðar um brúargerðina, sem einn tilboðsgjafa óskaði. Kröfu hans var hafnað, m.a. á þeirri forsendu að fyrrnefndir þættir hefðu haft sáralítið gildi líkt og ljóst hefði verið af keppnislýsingunni.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Kostnaður og raunhæfni brúar yfir Fossvog var frá upphafi algert aukaatriði. Þetta má lesa úr ákvörðun kærunefndar útboðsmála um endurupptöku úrskurðar um brúargerðina, sem einn tilboðsgjafa óskaði. Kröfu hans var hafnað, m.a. á þeirri forsendu að fyrrnefndir þættir hefðu haft sáralítið gildi líkt og ljóst hefði verið af keppnislýsingunni.

Vorið 2021 efndi Vegagerðin til hönnunarsamkeppni um brúna, sem ætluð er fyrir gangandi, hjólandi og umferð almenningsvagna yfir Fossvog. Þar var miðað við að kostnaður við gerð hennar mætti nema 2,2 milljörðum króna.

Sigurtillaga Eflu hf. um brúna, sem síðan hefur hlotið nafnið Alda, var miklum mun dýrari, en líkt og fram kom í Morgunblaðinu á föstudag er kostnaðurinn nú talinn verða 8,8 milljarðar, svo hann hefur fjórfaldast að krónutölu frá því sem lagt var upp með fyrir innan við þremur árum.

Þá er rétt að hafa í huga að opinberar framkvæmdir af þessu tagi fara að jafnaði um 60% fram úr kostnaðaráætlun, svo endanlegur kostnaður kann að reynast nær 15 ma.kr.

Í fyrrnefndri ákvörðun kærunefndar frá 22. desember segir að hönnunarsamkeppnin hafi verið þannig sett fram að kostnaðarliður hennar „hafði afar lítið vægi við mat á innsendum tillögum“ og það aðeins á fyrra þrepi keppninnar, en ekkert á hinu síðara.

Fullt hús stiga óháð upphæð

Þannig hafi þrjár stigahæstu tillögurnar allar fengið fullt hús stiga í þeim matsþætti, þó að bilið á milli hæstu og lægstu tillögu hafi numið 850 milljónum króna, sem er vel ríflega þriðjungur upphaflegs kostnaðarmats. Fór svo að dýrasta tillagan, tillaga Eflu hf., varð hlutskörpust þó að hún væri ekki í samræmi við forsendur hönnunarsamkeppninnar, enda hafi kostnaðurinn engu máli skipt á seinna þrepinu.

„Frá þeim sjónarhóli þarf ekki að koma á óvart að sú tillaga sem fyrir valinu varð hafi jafnframt verið sú sem álitin var kostnaðarsömust,“ segir í ákvörðun úrskurðarnefndarinnar; að þar sem kostnaðurinn hafi ekki skipt máli hafi glæsilegasta en dýrasta tillagan hreppt hnossið.

Allar þrjár tillögurnar á seinna þrepinu voru langt ofan kostnaðaráætlunarinnar, sú ódýrasta 3,2 milljarðar eða milljarði dýrari en stefnt var að. Tillaga Eflu var sögð kosta rúma 4 milljarða, en er sem fyrr segir talin munu verða meira en tvisvar sinnum dýrari eða kosta 8,8 ma.kr.

Í málsvörn Vegagerðarinnar fyrir kærunefndinni er viðurkennt að kostnaðurinn hafi einu gilt, og sagt að ekki hafi verið gerð krafa um að áætlaður kostnaður við byggingu brúarinnar yrði innan tilgreindra marka.

Einnig vekur athygli að í samkeppnislýsingunni gilti „raunhæfni“ tillagna litlu, þ.e.a.s. áreiðanleiki þeirra og hversu hagkvæmt og endingargott mannvirkið yrði, ekki síður þar sem sigurtillagan miðast við að brúin verði úr ryðfríu stáli, sem engin verkþekking er um á Íslandi.

Höf.: Andrés Magnússon