Baksvið
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Fullorðinn einstaklingur sem er í ferðalagi á Íslandi greindist með mislinga á Landspítalanum á laugardaginn eins og greint var frá á mbl.is. Hann er nú í einangrun en að sögn Guðrúnar Aspelund sóttvarnalæknis kemur í fyrsta lagi í ljós í lok vikunnar hvort fleiri hafi smitast hér á landi.
Er þetta fyrsta mislingasmitið á Íslandi frá árinu 2019 en þá smituðust níu hérlendis. Þá eins og nú geisaði mislingafaraldur víða í Evrópu. Var þá gripið til bólusetningarátaks hérlendis og um 7 þúsund manns voru bólusettir aukalega.
Bólusetningar við mislingum komu til sögunnar á áttunda áratugnum og var farið í bólusetningar á Íslandi um miðjan áttunda áratuginn. Þeir sem fengið hafa bólusetningu við mislingum eru bólusettir fyrir lífstíð og ekki er þörf á örvun eða slíku eins og fólk kynntist í kórónuveirufaraldrinum. Einstaklingur sem fengið hefur mislinga er lítt næmur fyrir veirunni og ætti alla jafna ekki að finna mikið fyrir henni ef viðkomandi fær veiruna í annað sinn.
„Þetta er öndunarfærasmit þannig að þeir fara út í andrúmsloftið og geta verið þar í svolítinn tíma,“ sagði Guðrún við mbl.is um helgina. Einkenni geta komið fram hjá smituðum allt frá einni til þremur vikum eftir smit.
Skelfileg tímabil á 19. öld
Mislingafaraldrar voru skæðir á Íslandi á 19. öldinni. 1846 og 1882 bárust mislingar til landsins og urðu afleiðingarnar afar sorglegar. Raunar eru þetta mestu mislingafaraldrar sem vitað er um í Íslandssögunni. Í grein í Læknablaðinu árið 2014 eftir Söndru Gunnarsdóttur þá læknanema og læknana Harald Briem og Magnús Gottfreðsson er varpað ljósi á hversu mannskæðir mislingarnir voru á Íslandi á 19. öld.
Árið 1846 létust rúmlega 3.300 Íslendingar og var það 1.600-2.000 umfram það sem vænta mátti. Í upphafi ársins höfðu Íslendingar verið 58.667 talsins en mislingarnir bárust til landsins í maí með Dönum sem komu í höfn í Hafnarfirði.
Í byrjun maí árið 1882 bárust mislingar til landsins frá Kaupmannahöfn með Helga Helgasyni snikkara sem tók sér far með póstskipinu Valdemar. Í júlí náði fjöldi dauðsfalla hámarki þegar 1.084 létust. 1.916 manns létust á Íslandi einungis yfir sumarmánuðina júní, júlí og ágúst 1882 og stærsti hlutinn var börn fjögurra ára og yngri. Einnig létust margar þungaðar konur bæði 1846 og 1882.
Barnadauði var auðvitað þekktur á Íslandi á þessum tíma og á árunum 1877-1881 létust að meðaltali 386 börn á fyrsta aldursári en vegna mislinga hækkaði talan í 1.010 árið 1882.
Felldi fleiri en spænska veikin
„Eins og tölurnar sýna var dánartíðnin gríðarlega há í þessum faröldrum og hærri en í spænsku veikinni. Þetta er einkennandi fyrir einangruð samfélög eins og Ísland var á þessum tíma. Þegar mislingar berast í slík samfélög gerist það oft með svolítið löngu millibili og margir eru því ekki með neitt ónæmi. Þannig er búið að hlaða í bálköst sem kviknar svo í, ef þannig má að orði komast,“ segir Magnús Gottfreðsson prófessor í smitsjúkdómum og yfirlæknir á Landspítalanum.
„19. öldin var einna verst og mjög mannskæð í þessu tilliti. Hvað gerist í samfélagi sem er einangrað en verður skyndilega fyrir innrás veiru sem er svona ofboðslega smitandi? Þá er þetta nánast eins og náttúruhamfarir og veiran fer út um allt á skömmum tíma með slæmum sýkingum, hárri dánartíðni og fósturlátum meðal barnshafandi kvenna.“
Tækifærið ekki verið nýtt
Lítil börn og barnshafandi konur geta farið verst út úr glímunni við mislinga.
„Í nútímanum eru mislingar enn sérstaklega slæmir fyrir lítil börn og barnshafandi konur. Aðrir ónæmisbældir geta fengið andstyggilegar sýkingar og ýmsir skelfilegir fylgikvillar geta fylgt þessari veirusýkingu. Hún getur lagst á taugakerfið sem dæmi og fólk getur fengið króníska mislinga. Það er sem betur fer sjaldgæft en ömurlegt þegar það gerist,“ segir Magnús og bendir á að tækifæri til að útrýma mislingum hafi ekki verið nýtt.
„Margvíslegar ástæður eru fyrir því að við ættum að vera búin að útrýma mislingum á heimsvísu. Þetta er dæmi um sjúkdóm þar sem við erum með mjög gott bóluefni og engan hýsil í náttúrunni annan en manninn. Fræðilega séð höfum við allar forsendur fyrir því að útrýma mislingum en það hefur því miður alls ekki tekist. Frekar hefur gengið á afturfótunum síðustu ár ef eitthvað er og það er eiginlega sorglegt að við skulum þurfa að takast á við þetta í dag.“