Matthildur Jónsdóttir fæddist 2. janúar 1936. Hún lést 1. janúar 2024.

Útför Matthildar fór fram 8. janúar 2024.

Matthildur Jónsdóttir In memoriam.

Í hinni stórkostlegu sálumessu eftir Gabriel Fauré er lokahluti verksins In Paradisum. Textinn hljóðar svo á íslensku:

Til paradísar leiði þig kór englanna.

Við heimkomu þína taki á móti þér

píslarvottafjöld,

Og þeir leiði þig heim,

inn í borgina heilögu

Jerúsalem.

Kór englanna taki á móti þér

og með Lasarusi sem fyrr var fátækur

gefi þér Guð hinn eilífa frið.

(Hvíl í friði. Hvíl í eilífum friði)

Frú Matthildur Jónsdóttir hélt áfram að vera Matthildur í Laufási alllengi eftir að þau hjónin voru flutt að Hólum í Hjaltadal til að sinna víðtækari verkefnum en þeim sem þau höfðu sinnt í Hrísey og í Laufási. Það var vegna þess að Matthildur var Laufás. Séra Bolli vitnaði oft í vísuna: Laufás minn er lukkubær. Það var sannarlega réttnefni. Lukka hans var Matthildur frá fyrstu tíð til hinstu stundar. Þau fluttu frá Hrísey í Laufás sumarið 1966 með tvö börn og eitt á leiðinni. Þeim var vel fagnað. Séra Bolli naut frá upphafi mikillar hylli sem prestur fyrir frábærar predikanir og fallega söngrödd og frú Matthildur var gestgjafi af Guðs náð og sá til þess að prestsheimilið var eins og slík heimili áttu að vera á þeim tíma, opið öllum og alltaf. Presturinn mikið á ferðinni en prestsfrúin oftast heima. Ef Matthildur var Júpíter þá var Bolli fjögur tungl á sporbaug.

Ég var búðarloka á Grenivík sumarið sem þau hjónin tóku við Laufási. Kynni okkar fóru hægt af stað, enda eins og nærri má geta nánast eingöngu viðskiptalegs eðlis. Bolla hafði ég þó hitt mörgum árum fyrr. Hann tyllti eitt sinn niður fæti í blómagarðinum heima í Dal. Í þeim garði hafði aldrei verið skortur á hlátrasköllum, en bjartar og hærra hafði þó enginn hlegið þar fyrr en hann. Ekki heldur í búðinni. Það kom af sjálfu sér að samskiptin við Laufásheimilið urðu æ fleiri og stærri næstu árin og áratugina í hinu kirkjulega og trúarlega samhengi. Um það mætti margt skrifa, enda var margt skrafað í Laufási og eðlilega því meir sem fleiri voru og það var oft. Matthildur lagði alltaf gott til málanna (þegar hún komst að). Þegar flugið var hæst í samtalinu var það oft hlutverk hennar að benda hógværlega á að lenda þyrfti flugfarinu. Þannig man ég hana best. Róleg, yfirveguð og umfram allt skynsöm og ráðagóð. Árin sem við þjónuðum í nágrannaprestakalli voru samskiptin mest. Vetrarheimsóknir gátu á þeim árum mætt óvæntum töfum á leiðinni og engin leið að láta vita af því. Þá kom fyrir að þegar knúð var dyra í Laufási væri sá er knúði nokkuð plagaður af vondri samvisku og baðst afsökunar á að koma ekki á réttum tíma. Matthildur brosti og sagði: Þegar þú kemur þá er rétti tíminn. Þess vegna veit ég að hún fyrirgefur mér þó að þessi minningarorð birtist svona seint. Megi hún hvíla í friði og hið eilífa ljós lífsins lýsa henni.

Kristján Valur
Ingólfsson, formaður Félags fyrrum þjónandi presta og maka.