Björgun Grindvíkingar voru á ferðinni í heimabæ sínum í gær og sóttu búslóðir sínar og muni. Fjölmiðlar fengu ekki að fylgjast með verðmætabjörgun.
Björgun Grindvíkingar voru á ferðinni í heimabæ sínum í gær og sóttu búslóðir sínar og muni. Fjölmiðlar fengu ekki að fylgjast með verðmætabjörgun. — Morgunblaðið/Eyþór
„Flestir eru náttúrulega mjög daprir og eftir því sem lengra líður verður þetta bara erfiðara,“ segir Pétur Benediktsson varaslökkviliðsstjóri í Grindavík. Pétur segir verðmætabjörgun Grindvíkinga hafa gengið vel síðustu tvo daga

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

„Flestir eru náttúrulega mjög daprir og eftir því sem lengra líður verður þetta bara erfiðara,“ segir Pétur Benediktsson varaslökkviliðsstjóri í Grindavík. Pétur segir verðmætabjörgun Grindvíkinga hafa gengið vel síðustu tvo daga. Misjafnt sé hvernig líðan þeirra sem sækja eigur sínar er. Dæmi séu um að fólk taki alla sína muni.

„Það er ekki mikill fjöldi sem er að taka alla búslóðina sína en það er klárlega einhver fjöldi sem tekur sófa eða rúm eða eitthvað sem þarf bara inn á annað heimili.“

Íbúar fá áfram að vitja eigna sinna í Grindavík í dag og næstu daga. Geta íbúar nú dvalið í bænum klukkan 9-15. Þá hafa eigendur á þriðja tugs fyrirtækja fengið vilyrði fyrir að fá að sækja verðmæti og eigur í húsnæði sitt.

Fjölmiðlafólki var hleypt inn í Grindavík í gær í fyrsta sinn í þrjár vikur. Morgunblaðinu og öðrum fjölmiðlum var meinað að fylgjast með verðmætabjörgun íbúa. Fékk fjölmiðlafólkið fylgd frá samskiptastjóra almannavarna og lögreglumanni.

Greint var frá því í gær að kvika í kvikuhólfinu undir Svartsengi væri nú um níu milljónir rúmmetra og því orðin jafnmikil og þegar gaus 14. janúar, en þá var talið að kvikan væri á bilinu 9-13 milljónir rúmmetra. „Þetta þýðir bara það að þetta getur byrjað hvenær sem er,“ segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

„En eldfjöll eru náttúrulega alltaf ólíkindatól svo maður getur svo sem aldrei gefið sér neitt í þeim efnum, en miðað við hvað er undir þá er betra að gera ráð fyrir því að það fari að draga til tíðinda fljótlega.“

Höf.: Guðmundur Hilmarsson